Brú á milli fólks, hugmynda og framkvæmda
Brú á milli fólks, hugmynda og framkvæmda
Austurbrú hefur á undanförnum árum komið víða við – í rannsóknum, menntun og menningu, atvinnu- og samfélagsþróun og stuðningi við sveitarfélög og stofnanir á Austurlandi. Starfsemin er fjölbreytt og byggir á traustu samstarfi og góðum tengslum við heimamenn og samstarfsaðila um land allt. Ég kem ný inn sem framkvæmdastjóri og tek við af öflugu fólki sem hefur unnið að því að efla Austurland af einlægni og metnaði. Að taka við þessu hlutverki er bæði heiður og ábyrgð sem ég tek alvarlega. Mikilvægt er að hlusta, læra og kynnast þeim gildum og grunni sem Austurbrú er byggð á, því þannig má halda áfram að styrkja trausta brú á milli fólks, hugmynda og framtíðar.
Áherslur næstu ára
Á síðasta ári var unnin efnahagsgreining fyrir SSA sem sýnir svart á hvítu hve mikilvægt Austurland er fyrir þjóðarbúið. Sóknarfærin til frekari uppbyggingar eru fjölmörg og mörg þeirra hafa þegar verið sett fram í endurnýjaðri sóknaráætlun. Þar eru settar skýrar áherslur fyrir næstu ár og bent á tækifæri í loftslagsmálum, orkuskiptum, fjölbreyttara atvinnulífi og vaxandi fjölbreytileika samfélagsins.
Sókn í samvinnu
Hlutverk Austurbrúar er að styðja við framkvæmd þessarar sýnar og tryggja að verkefnin tengist raunverulegum þörfum svæðisins. Austurbrú er ekki eingöngu brú á milli hugmynda og aðgerða – heldur líka samstarfsvettvangur fyrir þá sem vilja leggja sitt af mörkum. Hlutverkið er jafn mikilvægt nú og áður og verður sennilega enn mikilvægara á komandi árum.
Framkvæmd sóknaráætlunar kallar á þátttöku sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja, en lykillinn að árangri liggur í virkri þátttöku íbúanna sjálfra. Samvinna er forsenda árangurs. Því meiri þátttaka og samvinna – þeim mun meiri verða áhrifin.
Austurbrú getur átt stóran þátt í að styðja við þessa framkvæmd og tengja saman ólíka aðila en það er samvinna okkar allra sem hrindir framtíðarsýn svæðisins í framkvæmd.
Þekking úr samfélaginu
Við vinnslu sóknaráætlunar Austurlands var tekið markvisst skref í átt að dýpra samráði. Fjöldi einstaklinga og hópa kom að mótun áætlunarinnar; íbúar, félagasamtök, fyrirtæki og fulltrúar stofnana. Samtalið sem þar átti sér stað minnti okkur á að samfélagið sjálft býr yfir dýrmætustu innsýninni. Þetta ferli minnti okkur á hversu mikil þekking býr í samfélaginu sjálfu og hversu mikilvægt er að veita henni farveg. Verkefni okkar hjá Austurbrú er að hlusta og halda þessu samtali lifandi til að tryggja að sóknaráætlunin verði ekki aðeins orð á blaði heldur lifandi vegvísir fyrir næstu ár.
Fjölmennara Austurland
Ég hlakka til að vinna áfram með ykkur sem þegar hafið verið í samstarfi við Austurbrú og að kynnast fólki sem vill leggja sitt af mörkum fyrir framþróun Austurlands. Það eru forréttindi að fá að starfa með svo öflugu og samhentu teymi sem finna má innan Austurbrúar. Ég vil þakka starfsfólkinu sérstaklega fyrir hlýjar móttökur og þann kraft og þá fagmennsku sem ég hef fundið fyrir frá fyrsta degi í starfi framkvæmdastjóra.
Við höfum margt í höndunum og ef við vinnum saman getum við skapað aðstæður sem gera Austurland að raunverulegum valkosti fyrir fleiri. Framtíðin er ekki eitthvað sem gerist. Hún mótast af ákvörðunum sem við tökum hér og nú.

framkvæmdastjóri
Bryndís Fiona Ford