Mannauður, stjórnun og stefnur

Í verkefnastofu með mikla verkefnabreidd og yfirgripsmikla málaflokka eins og Austurbrú, er samankomin ólík þekking og reynsla starfsmanna sem hver er sérfræðingur á sínu sviði. Stjórnun felur í sér að verkefnastjórum er gefið mikið vald og sjálfstæði í verkefnum sínum. Um hvert verkefni er teymi en einn verkefnastjóri ber þó meginábyrgð á verkefninu; fjárhags­lega og faglega. Verkefnin tilheyra mála­flokkum sem eru fjórir en skarast þó oft, auk þess má líta á stoðþjónustu verkefnastofunnar: rekstur Austurbrúar og SSA, tæknimál, kynningarmál, mannauðsmál og stjórnun, sem málaflokk innri verkefna. Yfir mála­flokkunum eru yfirverkefna­stjórar sem hafa heildarsýn á verkefnin, deila verk­efnum og vinna með verkefnateymum. Yfirverkefnastjórar, fjármálastjóri, mann­auðsstjóri og framkvæmdastjóri mynda stjórnenda­teymi sem ber ábyrgð á að
samn­ingum um verkefni sé framfylgt, mönnun sé þannig að hæfni og reynsla nýtist sem best og að rekstur og innra starf nái þeim markmiðum sem sett eru í áætlunum.

Núverandi skipulag málaflokka hefur verið við lýði undanfarin fjögur ár og samhliða var innleitt verklag varðandi teymisvinnu verkefna. Þetta skipulag og verklag hefur reynst vel og nýtir vel þverfaglega samvinnu og samlegð í verkefnum.

Litlar breytingar hafa verið í starfs­manna­hópnum undanfarin ár og meðal starfsaldur starfsmanna er 5 ár en Austur-
­brú varð 12 ára 2024. Af þeim 20 starfs­mönnum sem voru í ráðningar­sambandi í árslok 2024 var helmingur með 6 ára starfsaldur eða meira. Starfsánægju­kannanir sem hafa verið gerðar árlega frá 2020 hafa gefið jákvæðar niðurstöður og mikilvægt er að vinna stöðugt að því að viðhalda góðri vinnustaðamenningu sem getur verið áskorun í stofnun með margar starfsstöðvar, misfjölmenn teymi, fjölbreytta hæfni og flóknar áskoranir tengdar verkefnum, s.s. óvissu með fjármögnun. Áhersla er á að allir starfs­-
menn sinni starfsþróun og fylgi því eftir að afla sér nýrrar þekkingar í sínu fagi. Ennfremur er reynt að uppfylla sameiginlegar starfs­þróunarþarfir til að samræma verklag við stjórnun verkefna.

Í desember var Bryndís Fiona Ford ráðin í starf framkvæmdastjóra Austurbrúar. Hún tók við starfinu af Dagmar Ýr Stefánsdóttur snemma árs 2025.

Áherslur árið 2024 í innri málum sneru að stefnumótun og vinnu við verkferla. Ný stefna fyrir Austurbrú tók gildi og ný mannauðsstefna hefur verið skrifuð. Mannauðsstefnan er heildstæð stefna fyrir allt er snýr að mannauðsmálum og velferð starfsmanna. Í henni er stefna Austurbrúar um ráðningar, starfstíma, starfsþróun og starfslok, jafnrétti, jafnlaunavottun, stjórnun og velferð. Auk þess hafa flestir verkferlar, vinnulag og innri reglur verið skjalfest og gerð aðgengileg á innri vef.