Menntastoðir
Haustið 2020 hófst nám í námsleiðinni Menntastoðir og lauk vorið 2021. Alls tóku nítján nemendur þátt í náminu en í mismunandi námsgreinum og sex luku öllum áföngum. Menntastoðir eru 1.200 klukkustunda námsleið á öðru hæfniþrepi sem meta má til allt að 60 framhaldsskólaeininga og er sérstaklega sett saman fyrir þá sem eru að hefja nám eftir hlé. Skipulagið er þannig að hægt sé að stunda námið samhliða vinnu. Námið fer fram í staðlotum, stuðningstímum og fjarkennslu. Í vikulegum stuðningstímum geta nemendur hitt kennara sinn, hringt í gegnum Skype eða FaceTime eða einfaldlega mætt og unnið að verkefnum sínum í hópi samnemenda.
Stóriðjuskólinn
Eitt af stærri verkefnum Austurbrúar er Stóriðjuskólinn eða Nám í stóriðju skamkvæmt námsskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Námsbrautin er rekinn í samstarfi við Alcoa Fjarðaál. Námið skiptist í 400 klst grunnnám og 500 klst framhaldsnám. Það skiptist í sex annir, annars vegar þrjár annir í grunnnámi og hins vegar þrjár annir í framhaldsnámi. Kennsla fer fram einu sinni í viku, frá átta til fjögur og eru kenndir um fimmtán dagar á önn í grunnnámi en nítján dagar í framhaldsnámi. Í maí 2021 útskrifuðust tuttugu nemendur úr framhaldsnámi. Það var ellefta útskriftin úr skólanum en fimm sinnum hefur verið útskrifað úr grunnnámi og sex sinnum úr framhaldsnámi. Upphaflega átti útskriftin að vera í desember 2020, en vegna heimsfaraldurs þurfti að fresta henni. Haustið 2021 hóf svo nýr hópur grunnnám, alls 27 nemendur.
Líf og heilsa
Heimsfaraldurinn setti svip sinn á fyrirkomulag námsleiðarinnar sem var kennd á netinu á árinu. Fjallað er um heilbrigði á heildrænan hátt með áherslu á næringu, hreyfingu og andlegt heilbrigði. Þátttakendur voru 13 talsins.
Sölu-, markaðs- og rekstrarnám
Sölu-, markaðs- og rekstrarnám var kennt vorið 2021 í styttri útgáfu. Námsskráin lýsir námi á 2. þrepi hæfniramma. Tilgangur námsins er að efla þekkingu og auka hæfni þeirra sem sinna, eða hafa hug á að sinna, sölustörfum, markaðsmálum eða að stofna til eigin reksturs. Megináherslan var lögð á að auka hæfni þátttakenda í gerð viðskiptaáætlana, frumkvöðlafræði, almennri markaðsfræði og markaðssetningu, verslunarreikningi og verkefnastjórnun. Sjö þátttakendur luku náminu.
Beint frá býli
Matarsmiðjan Beint frá býli var kennd veturinn 2020 til 2021 í samstarfi við Hallormsstaðarskóla. Námsleiðin er samtals 160 klukkustundir þar sem helmingur var heimavinna. Haustönnin var að mestu bókleg þar sem stuðst var við vefumhverfi Teams til að kenna nemendum sem komu víða að úr fjórðungnum. Á vorönninni var áhersla lögð á verklegt nám í Hallormsstaðaskóla auk þess sem nemendur fengu kynningu á hreinlæti og örverufræði, vélum og tækjum til matvælaframleiðslu, næringargildi hráefna, uppskriftum, aukaefnum og merkingum. Mikil áhersla var lögð á að miða seinni hluta námskeiðsins við þarfir hvers þátttakanda og höfðu nemendur aðgang að vottuðu tilraunaeldhúsi í Hallormsstaðaskóla. Það voru ellefu nemendur sem kláruðu allt og útskrifuðust úr námsleiðinni í mars 2021.
Stökkpallur
Eitt af föstum verkefnum hjá Austurbrú er námsleiðin Stökkpallur sem rekin í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands og fer kennslan fram hjá Starfsendurhæfingunni. Stökkpallur lýsir námi á 1. þrepi þar sem áhersla er lögð á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust og þjálfa námsmenn til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi og til áframhaldandi náms. Námsmenn vinna markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu, auknu fjármálalæsi, skipulögðum vinnubrögðum við upplýsingaleit og aukinni hæfni til að taka þátt í námi og starfi. Markmið námsins er að auka starfshæfni námsmanna og gera þá meðvitaðri um eigin styrkleika. Nemendur geta komið inn í námsleiðina á mismunandi tímum og útskifast þegar þeir hafa lokið öllum námþáttum. Á árinu 2021 útskirfuðust 8 um vorið og 7 í lok árs.
Sterkari starfsmaður
Vorið 2021 var kennd styttri útgáfa af námsleiðinni Sterkari starfsmaður. Það var gert í samvinnu við Vinnumálastofnun og lagað að þörfum ákveðins hóps þar. Þetta námskeið var styrkt með sérstöku framlagi Fræðslusjóðs vegna aukins atvinnuleysis af völdum heimsfaraldurs. Námskráin lýsir 160 stunda námi á öðru þrepi hæfniramma. Tilgangur námsins er að efla þekkingu og auka hæfni þeirra sem starfa eða hafa huga á að starfa við almenn skrifstofustörf. Alls luku 7 nemendur námsleiðinni.
Uppleið
Vorið 2021 var námsleiðin Uppleið – nám byggt á hugrænni atferlismeðferð kennd í samstarfi við Vinnumálstofnun. Þetta námskeið var, líkt og Sterkari starfsmaður, styrkt með sérstöku framlagi Fræðslusjóðs vegna aukins atvinnuleysis af völdum heimsfaraldurs. Uppleið er 40 klukkustunda nám ætlað þeim sem vilja læra að takast á við hamlandi líðan með því að nýta sér aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) í daglegu lífi. Alls luku 6 nemendur þessari námsleið.