Rannsóknir og greiningar
Rannsókna- og greiningarteymi Austurbrúar fæst við fjölmörg verkefni sem að stórum og vaxandi hluta eru þverfaglega unnin innan allra málaflokka Austurbrúar, en mörg verkefni sem stofnunin fæst við fela í sér gagnaöflun og greiningarvinnu sem hluta af stærra verkefni. Einnig eru mörg verkefni sem aflað er með styrkjum og eru rannsóknar eða greiningarverkefni sem krefjast gagnaöflunar, úrvinnslu og greiningar. Teymið tekur einnig að sér ýmsa útselda greiningarvinnu fyrir stofnanir og fyrirtæki, s.s. við starfsánægju- og þjónustukannanir, sem og úttektir og stjórn vinnustofa.
Stærstu verkefnin eru vinna við tvö EU Horizon verkefni sem bæði snúa að náttúruvá með áherslu á Seyðisfjörð. Þessi verkefni verða unnin næstu 2-3 árin í samvinnu við önnur lönd í Evrópu og innanlands eru samstarfsaðilar Austurbrúar Veðurstofan, Almannavarnir og Háskóli Íslands. Þátttaka í þessum verkefnum felur í sér samstarfsfundi með íslensku samstarfsaðilunum og heildarhópnum sem tekur þátt í verkefninu og vinnslu í skilgreindum verkefnapökkum sem þátttaka í ársfundum verkefnanna sem oftast eru nokkurra daga vinnufundir.
Rannsókna- og greiningarsviðið vinnur í samkeppnisumhverfi hvað varðar styrki og hefur fengið fjölmarga stærri og minni styrki en stöðugt þarf að vinna að því að fylgjast með sjóðum og umsóknarköllum úr þeim til að viðhalda góðri verkefnastöðu. Lögð hefur verið áhersla á miðlun niðurstaðna og á heimasíðu Austurbrúar má finna kynningar um öll þau verkefni sem teymið hefur unnið að.
Sjálfbærni verkefni Alcoa og Landsvirkjunar er hýst innan rannsókna- og greiningarteymis og er vinnan við það u.þ.b. 80% stöðugildi. Verkefnið gengur út á söfnun gagna, uppfærslu vísa, viðhald heimasíðu og ársfund verkefnisins.
Í rannsókna- og greiningateyminu starfa fimm starfsmenn en flestir vinna einnig að verkefnum í öðrum málaflokkum Austurbrúar svo innan þess verður til góð heildarsýn yfir verkefnastöðu og samlegð verkefna. Tinna Halldórsdóttir yfirverkefnastjóri ber ábyrgð á stefnumörkun og heildarvinnu teymisins, Erna Rakel Baldvinsdóttir verkefnastjóri sem leiðir teymið daglega og ber ábyrgð á rekstri verkefna, Arnar Úlfarsson verkefnastjóri sem sinnir Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar, Gabríel Arnarsson verkefnastjóri sem hefur umsjón með sinnir þverfaglegum tölfræðigreiningum og Jóhann Björn Sigurgeirsson verkefnastjóri sem sinnir fjölbreyttum úrvinnsluverkefnum og starfar einnig með fræðslusviði að fræðslugreiningum.