Austurbrú ásamt sveitarfélaginu Múlaþingi hefur unnið að verkefnum sem tengjast aurskriðunum á Seyðisfirði en helsta verkefni stofnunarinnar hefur verið greiningarvinna á áhrifum hamfaranna á atvinnulífið, þá var komið á laggirnar hvatasjóði og boðið hefur verið upp á ráðgjöf fyrir þá sem standa frammi fyrir rekstrarvanda í kjölfar skriðanna. Sótt var um styrk til Byggðarannsóknarsjóðs Byggðastofnunar og fékkst styrkur til þess að kanna samfélagslega seiglu í kjölfar náttúruhamfaranna. Rannsóknin er liður í þessari vinnu en tilgangurinn er að greina og kortleggja afleiðingar náttúruhamfaranna á Seyðisfirði með tilliti til samfélagslegrar seiglu. Með því er átt við heildstæða greiningu á þeim styrkleikum og veikleikum sem hafa áhrif á þróun samfélagsins á Seyðisfirði næstu árin.

Í stuttu máli er seigla geta okkar til að standast álag m.a. vegna innri styrks af einhverjum toga t.d. hæfnin til að sýna sveigjanleika þegar umhverfið breytist skyndilega. Þýðing rannsóknarinnar er talsverð því seig samfélög hafa bolmagn til að standast og aðlagast eftir erfiða atburði. Almennt má segja að skortur á seiglu geti t.d. valdið tilfinningu varnarleysis hjá fólki gagnvart náttúrunni og aukið möguleika á hvers konar tapi s.s. fólksflutningum, óstöðugleika í lýðfræðilegri samsetningu, atvinnulífi og nýsköpun.  

Nánar