Eygló vermir Austurland
Eygló er samstarfsverkefni um eflingu orkuskipta, orkunýtni og hringrásarhagkerfis á Austurlandi. Heitið Eygló vísar til öflugasta orkugjafans, sólarinnar, og til bjartrar og kraftmikillar framtíðar.
Skrifað var undir samstarfssamning um verkefnið í febrúar 2023 með gildistíma í fjögur ár og framlengingarákvæði. Bakhjarlar Eyglóar eru Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Austurbrú og sveitarfélögin á Austurlandi; Múlaþing, Fjarðabyggð, Fljótdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur. Fyrstu sérfræðingar voru ráðnir til starfa í maí og voru 2.5 stöðugildi mönnuð í ágúst.
Meginmarkmið Eyglóar er að efla nýsköpun og þróun, með áherslu á að bæta nýtni hliðarstrauma og flétta þá inn í nýja verðmætasköpun. Mikilvægt er að styðja við vöxt nýsköpunarverkefna og fjölga tækifærum hagaðila á Austurlandi til þátttöku í alþjóðlegum rannsókna- og þróunar samstarfsverkefnum. Sóknarmarkmið Eyglóar er að minnka kolefnisspor Austurlands og stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda sem byggir á kortlagningu orku- og efnisstrauma á Austurlandi.
Samstarf ólíkra aðila er lykillinn
Eygló er fjórða svæðisbundna samstarfsverkefnið sem Landsvirkjun og samstarfsaðilar hafa komið á fót, en fyrir eru systurverkefnin Eimur á Norðurlandi (2016), Orkídea á Suðurlandi (2020) og Blámi á Vestfjörðum (2021) sem öll hafa starfað í nokkur ár. Vinnudagar með systurverkefnunum og bakhjörlum sköpuðu samstarfsvettvang og innsýn í reynslu þeirra og verkefni en ásamt þeim hefur Eygló kynnt sínar áherslur við ýmis tækifæri.
Á árinu var unnið að stefnumótun fyrir Eygló og útbúið kynningarefni, ásamt því að koma upp heimasíðu og tengingum á samfélagsmiðlum.
Byggjum á nýtingu svæðisbundinna styrkleika
Lögð hefur verið áhersla á að kynna Eygló og hefur það m.a. verið gert með heimsóknum til fyrirtækja og stofnana til að finna og kynnast hagaðilum á svæðinu.
Þegar leið á árið urðu breytingar í starfsmannahaldi verkefnisins, tveir af þremur starfsmönnum hurfu til annarra starfa. Farið var af stað í ný ráðningarferli og í lok árs var gengið frá ráðningu á framkvæmdastjóra Eyglóar til starfa frá febrúar 2024 og nýr verkefnastjóri kemur til starfa á árinu. Unnið er að kortlagningu kolefnisspors Austurlands í samvinnu við sérfræðifyrirtæki sem reynslu hafa af slíku. Þar er skoðuð notkun jarðefnaeldsneytis, raforku og jarðvarma og jafnframt landnotkun og húsdýrahald. Niðurstöður skýrslu um kolefnisspor Austurlands verða birtar í lok apríl 2024.
Verkefnaflóran er fjölbreytt sem tengist orkutengdri nýsköpun á Austurlandi. Möguleg framtíðar samstarfsverkefni Eyglóar snúa að nýtingu glatvarma, stórum og smáum varmadælum, aukinni vinnslu viðarafurða og fullnýtingu hráefna til mannvirkjagerðar og upphitunar, bætta nýtingu og meðhöndlun afurða til endurvinnslu og urðunnar, sólarorku og annarra orkugjafa til að nýta betur raforku og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis sem hefur bein áhrif á loftslagsmálin. Einnig má nefna landtengingar og nýtingu raforku á höfnum í fjórðungnum, rafvæðingu fiskiskipaflotans og nýtingu og meðhöndlun seyru frá fiskeldi.
Nánar