Austurbrú – eflir Austurland!

Síðan ég tók við starfi framkvæmdastjóra Austurbrúar síðasta sumar hef ég ansi oft heyrt spurninguna: „Hvað gerir Austurbrú eiginlega?“

Spurningin þarf kannski ekki að koma á óvart. Verkefnin okkar eru mörg og fjölbreytt, teygja anga sína víða og það verður að segjast eins og er að framlag okkar er stundum „óáþreifanlegt“ ef svo má að orði komast.

Það er yrði langur listi að telja upp öll verkefnin en við sinnum m.a. atvinnuráðgjöf fyrir einstaklinga og fyrirtæki, símenntun og annarri fullorðinsfræðslu, stundum rannsóknir á samfélaginu okkar, hlúum að menningarstarfi í landshlutanum, stöndum fyrir öflugu markaðsstarfi í samstarfi við ferðaþjónustuna og vinnum með sveitarstjórnum á Austurlandi í gegnum Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) að ýmsum sameiginlegum hagsmunamálum. Við störfum með Eygló, nýju félagi sem hefur það markmið að lækka kolefnisfótspor Austurlands, í samvinnu við önnur fyrirtæki, sveitarfélög og almenning. Svona gæti ég haldið áfram en ég hvet þig, lesandi góður, til að kynna þér verkefnin og þá þjónustu sem Austurbrú hefur upp á að bjóða í nýja og glæsilega ársritinu okkar.

En hvaða tilgangi þjónar það að vinna að öllum þessum verkefnum?

Hvers vegna erum við til?

Framtíðarsýn Austurbrúar er skýr og hún byggir á Svæðisskipulagi Austurlands 2022 – 2044. Við vinnum að því, eins og þar segir, að byggja upp samheldið fjölmenningarsamfélag sem hefur lífsgæði íbúa í forgrunni. Við vinnum fyrir og með samfélaginu að byggja upp öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda, þekkingu og sköpunarkrafti íbúa. Og við vinnum fyrir gesti okkar og heimamenn að sköpun nýrra tækifæra til að upplifa sannkölluð ævintýri á Austurlandi.

Þetta er metnaðarfull framtíðarsýn enda trúum við á getu Austurlands til að verða staður þar sem almenn lífskjör eru með því besta sem gerist.

En þetta skýrir líka hvers vegna verkefnin okkar eru jafn mörg og fjölbreytt og raun ber vitni. Það þarf að taka mörg skref, bæði lítil og stór, svo Austurland nái þeim metnaðarfullu markmiðum sem við höfum sett okkur.

Á ársfundi Austurbrúar var kynnt ný stefna fyrir Austurbrú sem stjórnendur og starfsmenn unnu saman að í vetur. Hana má lesa í fullri lengd <strong>hér</strong> en þar kemur m.a. fram að eitt af leiðargildum okkar er „samvinna“. Við lítum nefnilega á framtíðarsýn Austurlands, eins og hún birtist okkur í svæðisskipulaginu, sem samvinnuverkefni okkar allra sem búum og störfum í landshlutanum. Austurbrú gerir fátt ein og sér en í góðri samvinnu og samtali við samfélagið trúi ég að okkur séu flestir vegir færir.

Að lokum langar mig að þakka traustið sem mér hefur verið sýnt. Það eru forréttindi að leiða öflugan starfshóp Austurbrúar og ég hlakka til að halda áfram að takast á við þær fjölbreyttu áskoranir sem Austurland stendur frammi fyrir á næstu árum. Með svæðisskipulagið að leiðarljósi, skýrri stefnu og fagmennsku í störfum okkar gerum við Austurland enn betra fyrir heimamenn og gesti.

Austurbrú – eflir Austurland!

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar

framkvæmdastjóri


Dagmar Ýr Stefánsdóttir