Austurland er dýrmæt auðlind
Austurland er dýrmæt auðlind
Atvinnu- og byggðamál eru lykilþættir í þróun Austurlands og árið 2024 var fjölbreytt starfsemi á vegum Austurbrúar undir þessum mikilvæga málaflokki, líkt og áður. Unnið er í nánu samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Austurlandi, fyrirtæki í landshlutanum, Byggðastofnun, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, ráðuneyti og fjölmarga fleiri aðila að því að byggja Austurland upp til framtíðar.
Austurland er dýrmæt auðlind – ekki síst vegna fjölbreytts atvinnulífs, stórbrotinnar náttúru og lifandi menningar sem styður við sjálfbæra þróun og bætt lífsgæði. Á svæðinu starfa sum af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, auk öflugrar starfsemi í fiskeldi og landbúnaði. Samhliða hefur þróast öflugt menningar- og listalíf sem sækir sér innblástur í sérstöðu svæðisins og nær athygli víðar en innan landshlutans. Þá býður ferðaþjónustan enn upp á mikla vaxtarmöguleika og hefur verið markvisst unnið að eflingu hennar undanfarin ár.
Frumkvæði og nýsköpun
Á vegum Austurbrúar hafa fjölmörg verkefni farið af stað og önnur haldið áfram með góðum árangri. Þar má nefna hraðalinn Austanátt sem fór fram síðastliðið haust með þátttöku einstaklinga og fyrirtækja víða af Austurlandi. Verkefnið stendur til haustsins 2025 þegar framgangur þátttökuverkefna verður metinn og þau kynnt með myndbandsgerð sem nýtist í frekari kynningu.
Verkefninu Vatnaskil lauk á árinu. Það var styrkt úr C1 í Byggðaáætlun og sneri að eflingu dreifbýlis. Í kjölfarið hófst verkefnið Sjávarföll haustið 2024 sem fékk veglegan styrk og snýr að skrásetningu og miðlun sjávarhandverks. Þar er lögð áhersla á að viðhalda og dreifa þekkingu á hefðbundnum aðferðum eins og verkun hákarls, harðfisks, sigins fisks o.fl.
Matarauður Austurlands
Austurbrú hefur unnið að eflingu Matarauðs Austurlands m.a. í samstarfi við Samtök smáframleiðenda og Auð Austurlands, sem er klasasamstarf austfirskra framleiðenda, bæði í matvælaframleiðslu og annarri nýtingu hráefna af svæðinu. Eitt stærsta verkefni Matarauðsins er Matarmót Austurlands sem haldið var í Sláturhúsinu menningarmiðstöð á Egilsstöðum í nóvember 2023. Þar komu saman um eitt þúsund gestir og fjölmargir þátttakendur.
Umhverfismál í brennidepli
Aukin áhersla hefur verið lögð á umhverfismál innan Austurbrúar, og hefur samstarf við verkefnið Eygló skilað góðum árangri. Þar var m.a. unnið að gerð úrgangsáætlunar fyrir Austurland, sem lauk snemma árs 2025.
Menning, listir og BRAS
Menningarmál eru órjúfanlegur hluti af starfsemi Austurbrúar. Þar ber hæst BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, sem haldin er árlega að hausti. Verkefnið er einstakt á landsvísu þar sem öll sveitarfélög á Austurlandi taka þátt. Hátíðin tengir saman skólastarf, listamenn og menningarstofnanir og leggur áherslu á að börn séu virkir þátttakendur, ekki einungis áhorfendur. Með þessu skapast sterkur grunnur að framtíðarlistalífi á svæðinu sem bæði eflir sköpunarþrá og styrkir sjálfsmynd ungs fólks.
Ferðaþjónusta og áfangastaðaáætlun
Áfangastaðaáætlun Austurlands, sem var uppfærð árið 2023, er öflugt tæki til að efla ferðaþjónustu og búsetu í landshlutanum. Markaðsteymi Austurbrúar fór í gegnum miklar breytingar árið 2024 með nýju starfsfólki sem tók við keflinu. Þar með lauk starfsferli starfsmanna sem sinnt höfðu markaðsmálum Austurlands um árabil og fá þeir þakkir fyrir vel unnin störf.
Árið einkenndist af öflugri þátttöku ferðaþjónustufyrirtækja í samstarfsverkefnum, m.a. með þátttöku í Mannamótum og öðrum viðburðum. Árlegur haustfundur ferðaþjónustunnar fór fram í Neskaupstað þar sem verðlaunin Kletturinn og Frumkvöðullinn voru veitt að vanda og fundurinn tókst með miklum sóma.
Þátttaka í ferðakaupstefnum, móttaka áhrifavalda og ferðaskrifstofa er sífellt mikilvægari þáttur í kynningu landshlutans, og unnið er markvisst að því að styðja við markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar.
Viðburðurinn Dagar myrkurs, sem haldinn er á haustin, hefur vaxið að umfangi – þó má efla hann enn frekar til að styðja við heilsársferðaþjónustu, sem er eitt helsta markmið Austurbrúar.
Önnur verkefni og framtíðarsýn
Verkefnið Sterkur Stöðvarfjörður hefur gengið vel og ánægjulegt er að ákveðið hefur verið að framlengja það um eitt ár. Mörg fleiri smærri verkefni voru í gangi sem ekki verða tíunduð hér. Auk þess er þjónusta, s.s. atvinnuþróunarráðgjöf, aðstoð og yfirlestur við gerð umsókna í innlenda sem erlenda sjóði mikilvægur hluti af starfsemi Austurbrúar og hvatning út í samfélagið að nýjum verkefnum samfélaginu til góða.
Austurland stendur á sterkum grunni með öfluga íbúa sem hafa metnað fyrir eigin byggð, atvinnulífi og menningu. Ferðaþjónusta, sjávarútvegur, landbúnaður, nýsköpun og menningarstarf mynda saman stoðir sjálfbærrar framtíðar. Með áherslu á samfélagslega þátttöku, nýjar lausnir og virðingu fyrir náttúru og sögu, heldur Austurland áfram að blómstra sem eitt mest spennandi svæði landsins með tækifæri sem nýta má enn betur til framtíðar.

Yfirverkefnastjóri byggðaþróunar og atvinnu
Signý Ormarsdóttir