Betri Borgarfjörður – Styrkúthlutun 2021
Auglýst er eftir umsóknum um styrki í tengslum við byggðaþróunarverkefnið Betri Borgarfjörður. Um er að ræða fjórðu og síðustu úthlutun í verkefninu og að þessu sinni eru sjö milljónir króna í pottinum. Hægt er að sækja um stuðning við þróun hugmynda og verkefna sem falla að markmiðum verkefnisins. Verkefnisstjórn fagnar sérstaklega nýjum hugmyndum sem gætu leitt til atvinnusköpunar. Umsóknarfrestur er til kl. 24.00 miðvikudaginn 21. apríl 2021.
Sækja umBetri Borgarfjörður
Verkefnið er unnið með því að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. Verkefnið er samstarfsverkefni Austurbrúar, Byggðastofnunar og viðkomandi sveitarfélags. Eitt sveitarfélag á Austurlandi er nú þátttakandi í verkefninu, Borgarfjörður eystri, og ber verkefnið heitið Betri Borgarfjörður.
Framvinda
Á vormánuðum 2020 var rúmum fjórtán milljónum króna úthlutað í styrki til atvinnuuppbyggingar og samfélagseflandi verkefna. Má þar nefna þróun á náttúrubaði, vöruþróun á gini, sumarbúðir, uppbyggingu vegna hjólreiða, tækjakaup til harðfiskverkunar, uppsetningu ærslabelgs og uppbyggingu samfélagsmiðstöðvar í Fjarðarborg.
Ljóst er að mörg markmiða sem íbúar settu sér í upphafi verkefnisins árið 2018 hafa nú þegar náðst eða eru komin vel á veg. Þau eru til dæmis bætt heilbrigðisþjónusta í heimabyggð með ráðningu hjúkrunarfræðings, verslun, bættar samgöngur með klæðningu vega og betri fjarskipti með lagningu ljósleiðara. Að auki er bygging tveggja nýrra parhúsa hafin á Borgarfirði og þrjú ný fyrirtæki hafa hafið starfsemi eða flutt hana til fjarðarins.
Frekari upplýsingar

Alda Marín Kristinsdóttir