Heimsfaraldurinn setti mark sitt á kennslu hjá Austurbrú á árinu 2020 og verkefnastjórar urðu að sýna sveigjanleika og skjót viðbrögð svo sem minnst röskun yrði á námskeiðahaldi. Eitt meginmarkmið Austurbrúar er að stuðla að fjölbreyttum menntunarmöguleikum fullorðins fólks á Austurlandi og vera samstarfsvettvangur fyrir aðila er vinna að verkefnum á sviði menntunar fullorðinna. Austurbrú vinnur að menntamálum samkvæmt óskum og þörfum atvinnulífs og almennings, bæði hvað varðar símenntun ófaglærðra og verkefni sem tengjast uppbyggingu á auknu framboði háskólanáms á svæðinu og þjónustu við fjarnema háskólanna.
Austurbrú veitir fólki í markhópi framhaldsfræðslu þjónustu sbr. lög um framhaldsfræðslu (27/2010). Þjónustan felst m.a. í kennslu samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimati en þetta eru verkefni sem styrkt eru af Fræðslusjóði. Austurbrú sinnir einnig margvíslegum öðrum fræðsluþörfum fullorðins fólks bæði á einstaklingsgrunni og í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir, til atvinnuleitenda í samstarfi við Vinnumálastofnun, fullorðinsfræðslu fatlaðra í samvinnu við Fjölmennt, kennslu í íslensku fyrir útlendinga og einnig býður Austurbrú fram margvíslegt nám fyrir almenning.
Áhrif heimsfaraldurs
Vegna takmarkana á skólastarfi einkenndist árið 2020 af því að námskeið fóru í mjög auknu mæli fram í gegnum netið, ýmist með lifandi kennslu í streymi eða upptökum. Einnig leiddi það til þess að einhver námskeið töfðust og tóku lengri tíma en ætlað var t.d. vegna þess að ekki var hægt með góðu móti að kenna allt í gegnum netið t.d. verklega þætti. Á hinn bóginn fjölgaði stuttum rafrænum námskeiðum.
Á vorönn 2020 voru um 70 námsmannahópar í mismunandi námskeiðum hjá Austurbrú og voru þátttakendur alls um 790. Á haustönninni voru færri eða 47 námsmannahópar og um 430 þáttakendur. Um er að ræða námsmenn sem sækja námskeið og námsleiðir sem eru mjög mismunandi að lengd og uppbyggingu, allt frá nokkurra klukkustunda námskeiðum til námsleiða sem standa yfir í margar annir. Dæmi um námsframboð eru námsleiðir samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, námskeið í íslensku fyrir útlendinga, námskeið sérstaklega sniðin fyrir fatlaða, starfstengd námskeið, t.d. í tengslum við fræðsluáætlanir í fyrirtækjum og stofnunum og önnur námskeið af ýmsu tagi. Gerð verður nánari grein fyrir meginflokkum námskeiða hér að neðan.
Íslenska fyrir útlendinga
Á árinu voru haldin fjórtán námskeið í íslensku fyrir útlendinga og var fjöldi þátttakenda um 190. Tíu hálf námskeið voru haldin og sex heil. Námskeiðin voru haldin á Reyðarfirði, Egilsstöðum, Djúpavogi, Seyðisfirði og Borgarfirði eystri bæði vor og haustönn og í Neskaupstað á vorönn. Þetta er um 15% fækkun frá árinu áður en það var metár, með um 220 nemendur. Fækkunina má að stærstum hluta rekja til heimsfaraldursins en þess ber að geta að illa gekk að ráða kennara á sumum stöðum.
Þróun íslenskukennslu
Talsverð þróunarvinna fór fram á árinu til að auka og bæta aðgengi að íslenskunámi fyrir útlendinga.
NánarLengri námsleiðir
Austurbrú sinnir rekstri námsleiða samkvæmt námsskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins samkvæmt samningi. Fræðslumiðstöðin leitast við að hanna nám sem er hnitmiðað og hagkvæmt fyrir fullorðna. Markhópurinn er fólk á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið námi á framhaldsskólastigi. Gerðar eru kröfur um lágmarksstærðir hópa, oftast um tíu nemendur, til að hægt sé að fara af stað með námsleið. Slíkar kröfur gera það að verkum að oft þarf að safna í hóp á Austurlandi og bíða með upphaf námsleiða þar til nægur fjöldi þátttakenda er til staðar.
NánarAlmenn námskeið
Austurbrú sér um og skipuleggur námskeið, bæði fyrir fyrirtæki/stofnanir sem og fyrir almenning.
NánarSamstarf við Fjölmennt
Austurbrú hefur umsjón með námsleiðum fyrir fullorðið fólk með fötlun á Austurlandi. Fjármögnun kemur frá Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð. Haldin voru ellefu námskeið árið 2020. Á vorönn voru haldin námskeið í crossfit, útivist, ullarþæfingu, mósaík og tálgun. Á haustönn var boðið upp á áframhald á útivist, myndlistarnámskeið, tvö matreiðslunámskeið og byrjað var á leirnámskeiði sem ekki tókst að klára sökum sóttvarnartakmarkanna. Vegna mikillar aðsóknar voru tvö matreiðslunámskeið haldin með metþátttöku. Árið einkenndist af frestunum á námskeiðum vegna sóttvarnatakmarkanna en þó tókst fyrir rest að klára flest námskeið sem skipulögð voru.
Námskeið fyrir StarfA
Náms- og starfsráðgjafi Austurbrúar hélt tvö námskeið fyrir Starfsendurhæfingu Austurlands á árinu. Það fyrra var Taktu stjórnina þar sem farið var í ýmsa þætti er varða andlegt heilbrigði og vellíðan. Meðal annars var fjallað um gildi, markmið, hugarfar, sjálfstraust og virkni. Síðara námskeiðið hét Streita og streitustjórnun og var þar fjallað um kvíða, streitu, kulnun, jafnvægi og streitustjórnun.
NánarRannsóknir
Rannsóknaverkefni unnin innan Austurbrúar eru af tvennum toga; annars vegar verkefni sem fyrirtæki og stofnanir kaupa og hins vegar verkefni sem Austurbrú hefur frumkvæði að og rúmast innan fjárhagsáætlunar en einnig eru sóttir ýmsir styrkir í rannsóknarverkefni.
NánarLíf og heilsa
Austurbrú er þátttakandi í verkefninu Life & Health - Health Promoting Communities eða Líf og heilsa í heilsueflandi samfélögum. Verkefnið hófst með fundi þátttakenda í Reykjavík þann 25. september 2018 og lauk með net-ráðstefnu haustið 2020.
NánarHáskólaútibú á Austurlandi
Samstarfssamningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Austurbrúar um undirbúning stofnunar háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi var undirritaður á Reyðarfirði í október af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Einari Má Sigurðarsyni, formanni stjórnar Austurbrúar. Markmið samningsins er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi en haustið 2021 hefst kennsla í frumgreinadeild og ári síðar er stefnt á að hefja kennslu í hagnýtri iðnaðartæknifræði.