Austurbrú á fulltrúa í stjórn Starfsendurhæfingar Austurlands (StarfA) og samstarf okkar við StarfA fólst m.a. í kennslu tveggja námsleiða Fræðslumiðstöðvarinnar; Stökkpalls og Myndlistarsmiðju.

Auk þessara námsleiða voru haldin ýmis námskeið sem fram fara í húsakynnum StarfA. Í Stökkpalli er lögð áhersla á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust og þjálfa þátttakendur til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi og til áframhaldandi náms. Þátttakendur vinna markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu, auknu fjármálalæsi, skipulögðum vinnubrögðum við upplýsingaleit og aukinni hæfni til að taka þátt í námi og starfi. Markmið námsins er að auka starfshæfni þátttakenda og gera þá meðvitaðri um eigin styrkleika. Námið samanstendur af námskeiðum og fyrirlestrum auk verkefnavinnu. Í Myndlistarsmiðju er markmiðið að þátttakendur læri vinnuferli í gerð myndlistaverka og framsetningu þeirra undir handleiðslu sem miðast við nýliða í skapandi starfi. Áhersla er lögð á undirstöðuþekkingu, leikni og hæfni fyrir nýliða á sviði sköpunar og framsetningar, að þátttakendur læri og tileinki sér sjálfstæð og öguð vinnubrögð auk þess sem þeir efli samvinnu og samskiptafærni sína.

Verkefnisstjórn


Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

470 3802 // [email protected]