Uppbyggingarsjóður Austurlands
Uppbyggingarsjóður Austurlands varð til árið 2015 sem hluti af Sóknaráætlun Austurlands og hefur verið úthlutað árlega úr sjóðnum síðan. Austurbrú sér um umsýslu sjóðsins og vinna við það fer fram allt árið. Nýtt fagráð og ný úthlutunarnefnd, skipuð af SSA, tekur til starfa á hverju vori. Úthlutunarnefndin fundar að hausti og ákveður tímasetningar og annað í kringum umsóknarferlið.
NánarÁfangastaðurinn Austurland
Undanfarin ár hefur verið unnið áfram að þróun og mótun áfangastaðarins Austurlands í takt við stefnu stjórnvalda um ábyrga ferðahegðun sem og áherslur Íslandsstofu í markaðsstarfi á erlendri grundu. Á árinu 2020 er óhætt að segja að bæði verkefnið og tengd verkefni hafi þurft að taka snöggum breytingum og aðlaga sig að breyttu umhverfi ferðaþjónustunnar vegna heimsfaraldursins. Vinnan á árinu helgaðist af áframhaldandi vinnu sem styður við ímynd Austurlands sem áfangastaðar og má það nefna verkefni við eflingu matarmenningar, hönnun innkomuleiða, þróun ferðaleiða og áfangastaða innan Austurlands sem og almenna ásýnd áfangastaðarins.
NánarMarkaðssetning
Unnið var hörðum og hröðum höndum að því að breyta um stefnu fyrir sumarið 2020 þar sem áherslan breyttist hratt. Í stað þess að markaðssetja áfangastaðinn á erlendum markaði var horft til hins íslenska. Sá hópur hefur verið að taka breytingum á undanförnum árum og ljóst að þarfir hans hafa þróast umtalsvert.
NánarEfling Egilsstaðaflugvallar
Eins og undanfarin ár hefur á vettvangi verkefnisins verið rætt við flugfélög og ferðaskrifstofur með áherslu á tækifærin sem felast í Egilsstaðaflugvelli. Miklar sviftingar voru í alþjóðaflugi í tengslum við heimsfaraldurinn og litaði það töluvert áherslur verkefnisins á árinu.
NánarMenning
Þótt heimsfaraldurinn hafi haft mikil áhrif á menningarlíf í landshlutanum vann Austurbrú að venju að nokkrum verkefnum sem byggð eru á því menningarsamstarfi sem stofnunin hefur unnið að og hvatt til á síðustu árum. Samstarfið hefur verið eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Austurlands sem lesa má um betur hér. Stóra verkefni Austurbrúar í menningarmálum síðustu þrjú ár er uppbygging BRAS-menningarhátíðar barna- og ungmenna á Austurlandi og þá hefur verið unnið að því að efla Daga myrkurs sem fara fram árlega í byrjun nóvember.
NánarSamfélag
Austurbrú kemur að ýmsum þróunarverkefnum sem hafa þann tilgang að efla samfélagið og stuðla að jákvæðri þróun þess. Í þessu skyni höfum við hleypt af stokkunum og komið að verkefnum sem snúa að málefnum innflytjenda, eflingu byggðalaga og áfallaþjónustu svo eitthvað sé nefnt.
NánarSamstarf við Vopnafjarðarhrepp
Austurbrú hefur með höndum umsýslu verkefnis er varðar fræða- og þekkingarsetur í Kaupvangi á Vopnafirði. Markmið verkefnisins er að vinna að eflingu mennta-, menningar-, fræða- og atvinnulífs á Vopnafirði með þeirri sérfræðiþekkingu sem til er innan Austurbrúar. Starfsstöð Austurbrúar á Vopnafirði er í menningarhúsinu Kaupvangi. Þar er einn verkefnastjóri í fullu starfi sem hefur umsjón með Kaupvangsverkefnunum. Grundvöllur starfsins í Kaupvangi er þjónusta við fjarnema á háskólastigi en í Kaupvangi er þeim boðið upp á námsaðstöðu og aðstoð við próftöku. Af öðrum verkefnum ber helst að nefna vinnu við gerð áfangastaðaáætlunar fyrir Vopnafjörð sem hófst haustið 2020 og stefnt er að ljúki haustið 2021. Auk þess er verkefnastjóri Austurbrúar á Vopnafirði tengiliður við sveitarfélagið í ýmsum verkefnum á sviði mennta- menningar- og atvinnuþróunarmála.
Miðstöð menningarfræða
Seyðisfjarðarkaupsstaður er með samning við Austurbrú um að sinna verkefninu Miðstöð menningarfræða. Starfsmenn Austurbrúar vinna að fjölmörgum verkefnum, sinnt ráðgjöf og verkefnastýringu.
NánarHæfnihringir
Hæfnihringir er nafn á verkefni sem snýst um stuðning við konur í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni. Verkefnið er samstarfsverkefni Austurbrúar og annarra landshlutasamtaka á landinu. Haustið 2020 voru 26 konur skráðar í verkefnið. Voru myndaðir þrír hópar og hver þeirra hélt fimm fjarfundi með leiðsögn sérfræðings.
Ratsjáin
Ratsjáin er hugsuð sem verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína. Austurbrú, í samstarfi við Íslenska ferðaklasann, RATA og landshlutasamtök á landsbyggðinni, hóf undirbúning að Ratsjárverkefni haustið 2020 og tóku átta austfirsk fyrirtæki þátt. Verkefninu lauk vorið 2021.
Norræn samstarfsverkefni
Þrjú verkefni voru í gangi á árinu 2020: New Nordic Voice sem snýst um eflingu matar- og ferðamennsku í löndunum við Norður-Atlantshaf, Residence in the Artic, tilgangur þess er að tengja saman aðila sem halda úti dvalarstöðum (residensíum) fyrir lista- og fræðimenn. Þriðja verkefnið ber heitið North Entrepreneurs/NPA Covid – 19 response call og fjallar um áhrif heimsfaraldursins á frumkvöðlastarf og hvernig lönd í Evrópu geta miðlað upplýsingum. Vegna ástandsins í heiminum var öllum helstu framkvæmdaþáttum frestað en nokkrir vinnufundir voru haldnir. Þá var í bígerð námsheimsókn til Svíþjóðar til að fræðast um námsráðgjöf til innflytjenda. Það verkefni hafði hlotið styrk frá Erasmus + en heimsókninni var frestað um ótiltekin tíma.