formaður SSA


Einar Már Sigurðarson

Sameining sveitarfélaga á Austurlandi á árinu 2020 er nýjasta dæmið um framsýni íbúa landshlutans. Sveitarfélögin sem nú eru fjögur á starfssvæði SSA (Sambands sveitarfélaga á Austurlandi) voru 35 þegar sambandið var stofnað árið 1966. Mikil og góð samstaða náðist í samþykktum SSA sem endurspeglar þessa þróun og sýnir enn og aftur að við erum óhrædd við að takast á við breytingar.

Svæðiskipulag

Á vettvangi SSA er nú unnið að gerð svæðisskipulags fyrir Austurland og með því sjáum við fyrir okkur að sú stefnumörkun og samþætting áætlana sem við höfum unnið að á undanförnum árum muni styrkja enn frekar samstarf á svæðinu. Einnig muni með tilkomu svæðisskipulagsins skýrast enn betur sú framtíðarsýn og sá styrkur sem býr í landshlutanum og við fá í hendurnar verkfæri sem við getum notað til að forgangsraða áherslum með skýra sýn að leiðarljósi.

Menntun og rannsóknir

Við þurfum að vinna samhent að því að fjölga tækifærum til þekkingaruppbyggingar og eflingar vísinda og rannsókna á svæðinu. Nýsköpun og þróun á öllum stigum samfélags er forsenda vaxtar og eflingar Austurlands. Við tókum mikilvæg skref í þessa átt á árinu þegar undirritaður var samningur á milli Austurbrúar og menntamálaráðuneytisins um kennslu á háskólastigi á Austurlandi. Áfram verður sótt í sömu átt með það að markmiði að á Austurlandi verði fleiri og fjölbreyttari tækifæri til menntunar og fræðslu.

Hlutverk landshlutasamtakanna

Á vettvangi ríkisins hefur staða og hlutverk landshlutasamtakanna verið til umfjöllunar. Ljóst er að enn eru fjölmörg verkefni sem ekki verða unnin nema í samvinnu sveitarfélaganna, á meðan sveitarfélögin eru fleiri en eitt á starfssvæðinu. Mikilvægi þessa samráðsvettvangs er verulegt þar sem þau eru misjöfn að stærð og gerð og geta undir merkjum SSA komið fram sem öflug eining til að reka á eftir umbótum á ýmsum sviðum. Mikilvægt er að sveitarstjórnarfulltrúar vinni af heilum hug á samstarfsvettvangnum og horfi til heildarhagsmuna fjórðungsins því þannig verður samtakamátturinn öflugastur.

Við þurfum að tala skýrri röddu gagnvart hinu stjórnsýslustiginu á landinu, ríkisvaldinu, um eflingu samgangna, fjarskipta og annarra innviða þannig að við verðum það vaxtarsvæði sem við höfum fulla burði til að verða.

Ég þakka stjórn SSA, sveitarstjórnarmönnum á Austurland, starfsfólki Austurbrúar, úthlutunarnefnd og fagráðum Uppbyggingarsjóðs, þingmönnum, ráðuneytum og öðru samstarfsfólki gott og gefandi samstarf á liðnu starfsári.