Markmið samnings
Markmið samnings um sóknaráætlun er að stuðla að jákvæðri samfélags- og byggðarþróun í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans og landsins alls.
Heimasíða sóknaráætlunarSífelld endurskoðun
Í sóknaráætlun Austurlands 2020-2024 er fólgið stöðumat, framtíðarsýn, markmið og aðgerðaáætlun á sviðum samfélags, menningar, atvinnu og umhverfis. Sóknaráætlun er auk þess byggð á stefnumótun og áætlanagerð sveitarfélaga í landshlutanum og svæðisskipulags Austurlands.
Sóknaráætlun er endurskoðuð í heild sinni a.m.k. einu sinni á samningstímabilinu en árlega er kallaður til samráðshópur til að yfirfara markmið og aðgerðaáætlun málaflokkanna fjögurra. Á haustmánuðum 2020 var fyrsta yfirferð nýrrar sóknaráætlunar og voru gerðar nokkrar breytingar á markmiðum áætlunarinnar. Ennfremur var sóknaráætlun kynnt fyrir sveitastjórnarfólki á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að árlega verði farið yfir stöðu áætlunarinnar á vettvangi samráðshópsins og breytingar og staða kynnt sveitarfélögunum á Austurlandi.
Í sóknaráætlun er að finna framtíðarsýn Austurlands sem var unnin af samráðshópi sóknaráætlunar og var horft til ársins 2030 sem er u.þ.b. gildistími tveggja nýrra sóknaráætlana. Niðurstaðan sýndi metnað, kraft og framsækni. Þátttakendur sömdu forsíðu dagblaðs fyrir einn dag í september árið 2030 sem lýsti því helsta sem um væri að vera í landshlutanum. Þar kom fram að á Austurlandi fjölgar íbúum jafnt og þétt og ungt fólk flytur austur. Innflytjendur aðlagast samfélaginu vel, taka virkan þátt og fjölmenning blómstrar. Heilsufar Austfirðinga er almennt gott og heilbrigðisþjónustan er efld með nýrri tækni í fjarþjónustu sem eykur öryggi og búsetugæði. Tekjur á Austurlandi eru góðar og sömuleiðis hagur sveitarfélaganna.
Á Austurlandi er kraftmikið íþróttalíf og menningarþátttaka er mikil og listir skapa bæði tómstundatækifæri og starfsvettvang fyrir listamenn. Mikill metnaður einkennir atvinnulíf á Austurlandi. Sérstaklega er sótt fram á sviði matvælaframleiðslu og matarauður Austurlands er þekktur sem fyrirmyndarhugmyndafræði. Ferðaþjónusta á svæðinu er gæðavara sem sækir fram undir merkjum Áfangastaðarins Austurlands. Aukin umhverfisvitund og metnaður einkennir stefnu Austurlands í málum er snúa að endurvinnslu, sorpeyðingu og úrgangsmálum almennt.
Mikilvægt er að sóknaráætlun sé áætlun íbúa á Austurlandi til að vinna eftir bæði sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar. Til þess er kynning á sóknaráætlun stöðugt verkefni sem þarf að vinna að.
Uppbyggingarsjóður Austurlands
Uppbyggingarsjóður Austurlands varð til árið 2015 sem hluti af Sóknaráætlun Austurlands og hefur verið úthlutað árlega úr sjóðnum síðan. Austurbrú sér um umsýslu sjóðsins og vinna við það fer fram allt árið. Nýtt fagráð og ný úthlutunarnefnd, skipuð af SSA, tekur til starfa á hverju vori. Úthlutunarnefndin fundar að hausti og ákveður tímasetningar og annað í kringum umsóknarferlið. Eins og verklagsreglur sjóðsins gera ráð fyrir á ákveðin endurnýjun í fagráðum og úthlutunarnefnd að eiga sér stað og koma því alltaf nýir aðilar að inn.
Nánar