Austurbrú var þátttakandi í verkefninu Life & Health, health promoting communities eða Líf og heilsa í heilsueflandi samfélögum á árinu 2020. Verkefnið, styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins, var til tveggja ára og hefur það markmið að stuðla að heilsueflingu fullorðinna með fræðslu og vitundarvakningu.
Þátttakendur, auk Austurbrúar, voru SÍBS frá Íslandi sem stýrði verkefninu, LHL í Noregi og Cesie á Ítalíu. Byggt var á forvarnaverkefninu SÍBS Líf og heilsa sem SÍBS hefur unnið í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög um allt land þar sem almenningi býðst ókeypis heilsufarsmæling og þátttaka í spurningakönnun um heilsufar, líðan og lifnaðarhætti. Jafnframt vann SÍBS, í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Austurbrú, námskrána Líf og heilsa, lífsstílsþjálfun sem meta má til eininga innan framhaldsskólakerfisins. Markmið námsins er að auka þekkingu námsmanna á áhrifaþáttum heilsu, leikni þeirra í heilsulæsi og hæfni til að taka ábyrgð á eigin heilsu.
Verkefninu vel tekið
Verkefnið hófst með fundi þátttakenda í Reykjavík þann 25. september 2018 og lauk með netráðstefnu haustið 2020. Til stóð að halda lokaráðstefnu um mitt árið 2020 en af henni varð ekki sökum heimsfaraldursins. Þess í stað voru útbúnar stuttar kynningar á helstu afurðum verkefnisins sem nálgast má með því að ýta á hlekkinn hér fyrir neðan. Verkefninu hefur hvarvetna verið vel tekið og er það von samstarfsaðila að með tilkomu nýrrar námskrár, opins og aðgengilegs námsefnis og leiðbeinendaþjálfunar skapist ný tækifæri fyrir þau sem vilja bæta heilsu og líðan með breyttum lífsstíl.
LokaráðstefnaNámsleiðin Líf og heilsa
Námsleiðin Líf og heilsa var kennd í tengslum við verkefnið. Námskeiðið samanstóð af kennslustundum og eftirfylgni, ætlað þeim sem vilja bæta heilsu sína og vellíðan á heildrænan hátt. Í kennslustundunum var áhersla lögð á fræðslu, samtal og verkefnavinnu. Heilsufarsmælingar voru framkvæmdar þrisvar á námskeiðinu og voru þátttakendur hvattir til að svara HAL-100 spurningalistanum í gegnum Heilsugátt SÍBS.
Markmiðasetning og máttur vanans
Meðal umfjöllunarefnis í náminu er markmiðasetning, vani, hugarfar, andlegt heilbrigði, streita, jafnvægi, hugleiðsla, núvitund og þakklæti. Farið var yfir mikilvægi svefns og hreyfingar og hvernig á að koma sér af stað í reglulega hreyfingu. Fjallað er um næringu og áhrif mataræðis á heilsu og þátttakendur fengu leiðbeiningar um gerð matseðla, matardagbókar og fleira gagnlegt.