Náms- og starfsráðgjafi var í 90% stöðu hjá Austurbrú árið 2020 en sinnti þó fleiri verkefnum samhliða. Auk þess er einn verkefnastjóri Austurbrúar menntaður náms- og starfsráðgjafi og sinnti verkefnum tengdum ráðgjöfinni. Fleiri starfsmenn buðu upp á náms- og starfsráðgjöf, t.d. í tengslum við Menntastoðir og atvinnuráðgjöf.
Tæknin nýtt
Náms- og starfsráðgjafi ferðast talsvert til að koma til móts við ráðþega. Flestar ferðir voru á Reyðarfjörð og þar á eftir í Egilsstaði frá Neskaupstað. Ferðum fækkaði þó umtalsvert árið 2020 vegna heimsfaraldursins, viðtölin færðust að stórum hluta yfir á Teams og gekk það yfirleitt mjög vel. Eftir því sem leið á árið var fólk orðið vanara að nýta sér fjarfundatækni og langflestir tilbúnir í viðtal á þessu formi.
Námsráðgjafi sinnir mikið einstaklingum sem leita til hans að eigin frumkvæði og sumir hafa samband eftir kynningu á vinnustöðum. Þjónustan spyrst út og margir frétta af henni frá vinum, kunningjum og samstarfsfólki. Eins er talsvert vísað á ráðgjafa í gegnum VIRK, Starfsendurhæfingu Austurlands og Vinnumálastofnun. Langflestir sem leita til náms- og starfsráðgjafa vilja hefja nám, oft eftir langt hlé frá námi. Fólk sækist eftir aðstoð við að átta sig á áhugasviði sínu, fær þá viðtal og sumir taka áhugasviðskönnun. Ýmsir þurfa aðstoð við að skoða hvaða nám er í boði, bæði í framhaldsskóla og háskóla, hvernig menntakerfið virkar, hvað þeir þurfa til að vera gjaldgengir í háskólanám o.fl. Einstaklingar þurfa oft aðstoð við að yfirfara það sem þeir eru búnir með og hvaða leið er best. Þeir sem skoða háskólanám vilja búa áfram fyrir austan og sækjast því eftir fjarnámi. Ráðgjafi sinnir einnig einstaklingum af erlendum uppruna sem þurfa gjarnan aðstoð við að átta sig á íslenska kerfinu, bæði í mennta- og starfsumhverfi.
Náms- og starfsráðgjafi sinnir einnig hópráðgjöf og heldur námskeið. Árið 2020 hélt hann námskeið fyrir skjólstæðinga StarfA og Vinnumálastofnunar, ásamt að kenna á námsleiðum Austurbrúar, s.s. Menntastoðum og Sterkari starfsmanni.
Samningur við Vinnumálastofnun
Seinni part árs var gerður þjónustusamningur við Vinnumálastofnun (VMST) um náms- og starfsráðgjöf til atvinnulausra. Samningurinn gildir til júní 2021. VMST vísaði fjórum einstaklingum og fengu þeir tvö viðtöl hvert. Ráðgjafi skoðaði stöðuna með hverjum og einum og gerði áætlun um næstu mánuði. Náms- og starfsráðgjafi skilaði skýrslu fyrir hvern einstakling til Vinnumálastofnunar.
Fyrirtækjaheimsóknir
Fyrirtækjaheimsóknir á tímabilinu voru mun færri en ráðgert var vegna heimsfaraldursins. Í janúar heimsótti náms- og starfsráðgjafi Eskju á Eskifirði til að kynna þjónustu ráðgjafa, námsleiðir og raunfærnimat. Mættir voru um 30 starfsmenn. Tíu starfsmenn skráðu sig í viðtal eftir kynninguna og sex þeirra fóru í raunfærnimat í fisktækni. Sumir héldu svo áfram og fóru í raunfærnimat í vélvirkjun og vélstjórn. Náms- og starfsráðgjafi ásamt yfirverkefnastjóra fóru á Borgarfjörð eystri í febrúar. Þar var haldinn opinn súpufundur fyrir alla bæjarbúa, þar sem fólk fékk fyrst að borða og svo kynningu á þjónustu Austurbrúar. Mættir voru um 30 og fengu fjórir viðtöl á staðnum í lok kynningar.