Uppbygging áfangastaða
Austurbrú hefur áfram komið að stuðningi og þróun í tengslum við uppbyggingu við áfangastaði um allt Austurland. Unnið var sérstaklega með áfangastaðinn Stuðlagil í samstarfi við sveitarfélagið Múlaþing og landeigendur.
Vetrarferðaþjónusta
Ljóst er að tækifæri landshlutans felast í aukinni þróun heilsársferðaþjónustu. Innviðir til afþreyingar að vetri til eru töluverðir í landshlutanum. Haustið 2020 var farið af stað með samstarfsverkefni á milli skíðasvæðanna í Stafdal og Oddskarði í samstarfi við sveitarfélögin Fjarðabyggð og Múlaþing. Farið var í ítarlega skoðun á stöðu svæðanna í dag og möguleikum svæðanna til samstarfs og þróunar. Fenginn var erlendur sérfræðingur til að vinna að greiningu sem grunn undir samstarfið en hann hefur mikla reynslu og þekkingu á markaðssetningu og rekstri útivistarsvæða víða í Evrópu. Vann hann með starfsmönnum Austurbrúar að greiningu svæðanna og tækifærum til þróunar m.t.t. markhópa, upplifunar ferðamanna og mismunandi afþreyingar að vetri til sem og nýtingu þessara innviða að sumri til.
Matarauður Austurlands
Verkefnið Matarauður Austurlands er unnið í samstarfi við Matarauð Íslands og Hið íslenska eldhús en þau verkefni eru á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Matarauður Austurlands hlaut styrk frá Matarauði Íslands fyrir árin 2019 og 2020 og markmið verkefnisins er að marka sérstöðu austfirskra framleiðenda og veitingaaðila, styrkja við ferðaþjónustu á Austurlandi, vinna með staðbundin hráefni þar sem áhersla er lögð á hreinleika, ferskleika og einfaldleika. Einnig verður unnið með árstíðabundin hráefni, hollustu og virðingu fyrir hráefninu.
Heimasíða verkefnisinsGagnagrunnur
Sem liður í verkefninu Matarauður Austurlands hófst árið 2019 vinna við kortlagningu framleiðenda á svæðinu og voru þær upplýsingar gerðar aðgengilegar og opinberar árið 2020 á sérstakri heimasíðu. Þar má einnig finna upplýsingar um veitingaaðila, matarmarkaði og fleira. Unnin var þriggja ára stefnumótun og tímalína en þar kemur fram að árið 2021 verður lögð áhersla á vitundarvakningu, 2022 verður lögð áhersla á samspil matvælaframleiðslu og heilsueflingar og árið 2023 verður blásið til stórrar ráðstefnu þar sem matvælaframleiðendum, söluaðilum og öðrum hagsmunaaðilum verður safnað saman til að vinna áfram að sameiginlegu markmiði verkefnisins sem er að koma Austurlandi á kortið sem góðum stað til að búa á og heimsækja og til að borða góðan mat sem framleiddur er með hagsmuni náttúru og íbúa að leiðarljósi.
Samstarf Markaðsstofa landshlutanna
Markaðsstofur funda um átta sinnum á ári og koma hinar ýmsu samstarfsstofnanir, s.s. Íslandsstofa, Ferðamálastofa, SAF og Stjórnstöð ferðamála inn á þessa fundi til að ræða fjölmörg verkefni sem falla undir starf markaðsstofanna. Samstarfið felur meðal annars í sér samræmdar vefsíður fyrir landshlutana, vinnu við sameiginleg markaðsverkefni, ferðasýningar og fleira. Samstarfsvettvangurinn heldur ferðasýninguna Mannamót sem var haldin var í Kórnum í Kópavogi í byrjun árs 2020. Markaðsstofurnar voru til ráðgjafar í mörgum verkefnum sem fóru af stað, bæði af hálfu ríksins sem og annarra. Gott samtal var meðal annars við SAF og var farið í sérstakt verkefni með þeim og YEY um ferðagjöf fyrir jólin.
Nýjungar í markaðsefni
Á árinu var unnið að gerð nýs markaðsefnis og hannað nýtt verkfæri með Markaðsstofum landshlutanna sem heitir „Upplifðu“. Viðmótið er nú að finna á www.upplifdu.is á íslensku og ensku. Austurland er með yfir 100 áfangastaði inni og hefur verið unnið hörðum höndum að efnisvinnslu inn á vefinn með drónatökum og ljósmyndum á árinu. Áfram er stefnt að því að bæta við stöðum auk þess sem sífellt þarf að uppfæra vefinn með nýjum upplýsingum.
UpplifðuMorgunfundir ferðaþjónustunnar
Árið var mörgum samstarfsaðilum okkar flókið og var komið til móts við þarfir þeirra með því að halda rafræna fundaröð undir formerkjunum Morgunfundir ferðaþjónustunnar. Haldnir voru 6 fundir að vori og þar sem fjallað var um áhrif heimsfaraldursins í víðu samhengi. Þá var haldinn rafrænn haustfundur þar sem áherslan var á lærdóm sumarsins og hvað fyrirtæki gætu tekið með sér inn næsta sumar.
Framtíðin okkar
Í samstarfi við Íslenska ferðaklasann og ýmsa erlenda sérfræðinga í Áfangastaðahönnun var haldið opið rafrænt pallborð í desember undir yfirskriftinni Framtíðin okkar – Austurland. Þátttakendur í pallborðinu voru María Hjálmarsdóttir (Ísland), Signe Jungersted (Danmörk), Chris Doyle (Bandaríkin/Svíþjóð), Bård Jervan (Noregur), Milena Nikolova (Búlgaría), Daniel Byström (Svíþjóð) og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir (Ísland) undir fundarstjórn Jónínu Brynjólfsdóttur.
Alþjóðagáttir Austurlands
Markmiðið með verkefninu er að gestir upplifi Austurland og Ísland á myndrænan hátt við komu og brottför til og frá landinu í gegnum alþjóðagáttir landshlutans. Listakonan Rán Flygenring er höfundur að myndverkunum og sér um framkvæmd og uppsetningu þeirra. Verkefnið nýtur styrks frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Isavia, Seyðisfjarðarhöfn og Seyðisfjarðarkaupstaður eiga aðkomu að því. Hönnunin er í þremur fösum þar sem fyrsti fasi snýr að gáttinni á Seyðisfirði, fasi tvö snýr að gáttinni á Egilsstaðaflugvelli og síðasti fasinn að því að Rán útbúi grafík sem hægt verði að nota við hönnun á markaðsefni og skilaboðum tengt flugvellinum.