Á Austurlandi var unnið áfram með framleiðslu á styttri myndböndum til kynningar á flugvellinum sem og áfangastaðnum Austurlandi til notkunar á samfélagsmiðlum (á fjórum tungumálum). Einnig var unnið að enn frekari þróun ljósmyndabankans, uppfærslu og þýðingu bæklinga og annars efnis á fleiri tungumál auk þess sem sýnileiki áfangastaðarins á vefmiðlum var aukinn.

Þá var unnið í kynningu á áfangastaðnum og flugvellinum gagnvart innlendum og erlendum ferðaskrifstofum og tekið á móti blaðamönnum eins og aðstæður buðu upp á. Á árinu var einnig stofnað til samstarfs Isavia, Íslandsstofu, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar með áherslu á samskipti við flugfélög. Árið var nýtt til að þróa áherslur fyrir verkefnið, tímalínur og sóst var eftir fjármagni svo hægt væri að fara í sérstakt kynningarátak í tengslum við vellina á árinu 2021 eða þegar flugumferð yrði aftur með eðlilegum hætti.

Fulltrúi Austurbrúar situr í stjórn Flugþróunarsjóðs auk þess sem verkefnisstjóri tekur þátt í faghópi tengdum starfi stjórnar. Á árinu var unnið að undirbúningi uppfærslu starfsreglna sjóðsins ásamt því að unnið var að ýmsum áherslum sem snúa að sýnileika Flugþróunarsjóðs.

Á árinu var jafnframt unnið að því að draga sama helstu upplýsingar í tengslum við mögulega fragtflutninga í gegnum Egilsstaðaflugvöll bæði er snertir magn hráefnis og innviði. Horft var sérstaklega til tækifæra í beinum útflutningi á fiski og þá sérstaklega laxi. Rætt var við ýmsa aðila innan flutningageirans og framleiðsluaðila í eldi með það að markmiði að greina tækifærin sem felast í nýtingu Egilsstaðaflugvallar fyrir útflutning. Þá var áherslum fylgt eftir til samgönguráðuneytisins og kallað eftir áframhaldandi umræðu sem hófst á málþingi sem Austurbrú hélt sumarið 2019 undir yfirskriftinni Ferðalag fisksins og ferðamannsins að austan.

Á árinu var unnið að ýmsum málefnum sem tengjast innviðum Egilsstaðaflugvallar. Fylgt var eftir málefnum er snúa að yfirlögn á flugbraut, akbraut sem og öðrum aðbúnaðarmálum. Þá var unnið að greiningum á verðmun á flugsteinolíu á millilandaflugvöllunum og búið til módel til að draga fram helstu stærðir og kostnaðaráhrif á aðila sem hefðu áhuga á að nýta Egilsstaðaflugvöll fyrir millilandaflug. Þá var fylgt eftir þeim áherslum í byggðaáætlun sem snúa að samkeppnisstöðu flugvallarins.

Verkefnisstjórn