Samstarf menningarmiðstöðva
Á Austurlandi starfa þrjár menningarmiðstöðvar með mismunandi listrænar áherslur: Skaftfell á Seyðisfirði er miðstöð myndlistar, á Eskifirði er Tónlistarmiðstöð Austurlands og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs leggur áherslu á sviðslistir. Samkvæmt samningi SSA og ríkisins (í gegnum sóknaráætlun landshlutans) kemur fjármagn til miðstöðvanna að jöfnu við framlag sveitarfélaganna þar sem miðstöðvarnar eru. Austurbrú hefur það hlutverk að vera leiðandi í samstarfi þeirra og standa fyrir reglulegum fundum með miðstöðvunum. Tilgangur fundanna er að skapa samlegð og samstarf milli miðstöðvanna og til hafa orðið ýmis samstarfsverkefni á síðustum árum, s.s. BRAS – Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi.
BRAS
BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi var haldin í þriðja sinn árið 2020 og þema ársins var „Réttur til áhrifa“. Ungmennaráð BRAS kom að því að velja þemað út frá 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Austurbrú stýrði verkefninu í góðu samstarfi við menningarmiðstöðvarnar þrjár á Austurlandi. Áfram var samstarf við List fyrir alla sem kom inn með tvö ólík verkefni í grunnskólana á Austurlandi. Vegna alheimsfaraldurs þurfti að breyta skipulagi og framkvæmd viðburða en með útsjónarsemi og samstöðu tókst að bjóða upp á langflesta viðburði sem skipulagðir höfðu verið. Gerð var grein fyrir viðburðum á samfélagsmiðlum, í fréttatengdum þáttum, heimasíðum sveitarfélaga og vef BRAS.
Vefur BRASBreytingar vegna Covid-19
Þátttaka var almennt góð en þó tókst ekki að halda Hápunktinn með sama sniði og áður. Því var gripið til þess ráðs að senda viðburðina sem búið var að bóka á Hápunktinum í nokkra byggðakjarna og mæltist það vel fyrir. Lítið var um að forráðamenn og börn væru að fara á milli staða til að njóta og taka þátt í viðburðum auk þess sem skólarnir þurftu að gera breytingar á sínu skipulagi vegna faraldursins. Könnun sem gerð var að aflokinni hátíðinni sýndi að almenn ánægja er með BRAS og fengu skipuleggjendur hrós fyrir það hvernig þeim tókst að halda hana þrátt fyrir faraldur.
Dagar myrkurs
Hátíðin Dagar myrkurs var haldin á Austurlandi 28. október til 1. nóvember og hélt Austurbrú utan um skipulag og markaðssetningu að vanda. Unnið var á sama grunni og árið áður út frá aðgerðaáætlun sem stýrihópur verkefnisins samþykkti 2019. Lengi vel stóðu vonir til að hægt yrði að halda hátíðina með óbreyttu sniði en vegna heimsfaraldurs þurfti að gera á henni ýmsar breytingar. Hvatt var til þess að gera hátíðina rafrænni og að viðburðir yrðu skipulagðir þannig að þeir brytu ekki sóttvarnarlög og tókst það mjög vel. Sögur voru lesnar og þeim útvarpað eða hljóðvarpað, haldin voru bílabíó, gluggar voru skreyttir, lögð var áhersla á samveru fjölskyldna, útiveru og annað slíkt. Eins og árið áður var efnt til ljósmyndasamkeppni og var það Bergþóra Valgeirsdóttir úr Berufirði sem bar sigur úr býtum.