Austurbrú er aðili að verkefninu Handiheat sem styrkt er í gegnum Norðurslóðaáætlun (NPA). Verkefnið er þriggja ára samstarfsverkefni Íslands, Norður-Írlands, Skotlands, Finnlands og Írlands.
Norðurslóðaáætlunin (NPA) er atvinnu- og byggðaþróunarsjóður sem ætlað er að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum samstarfslandanna. NPA svæðið samanstendur af norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands, Írlands ásamt Norður-Írlandi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi.
Verkefnið er leitt af Northern Ireland Housing Executive á Norður-Írlandi. Aðrir þátttakendur í verkefninu koma frá ARC Healthy Living Centre á Norður Írlandi, Rannsóknarstofnuninni LUKE í Finnlandi, Claremorris Irish Centre for Housing á Írlandi, PURE Energy Centre á Hjaltlandseyjum og Karelia háskólanum í Finnlandi.
Handiheat vinnur að þróun ýmissa verkfæra og lausna til nýtingar staðbundinna (en ónýttra) orkuauðlinda fyrir íbúabyggðir í dreifbýli sem ekki hafa aðgengi að hagkvæmri hitaveitu og draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta þar sem þau er notuð til kyndingar. Hlutverk Austurbrúar í verkefninu hefur verið að miðla hvernig orkumálum er háttað á Íslandi og að draga saman fyrirmyndarverkefni (best-practice) og dæmi um lausnir sem gripið hefur verið til við orkuskipti í NPA-löndunum.
Samstarfsfundur í verkefninu var haldinn í Enniskillen á Norður-Írlandi í lok febrúar 2020 þar sem staða verkefnisins var metin. Auk þess heimsótti hópurinn höfuðstöðvar ARC Healthy Living Centre í Irvinestown og Granville Eco-Park í Dungannon sem framleiðir lífgas úr lífrænum úrgangi. Að jafnaði eru þrír snertifundir haldnir á ári en Covid-19 hefur sett strik í reikninginn og öll fyrirhuguð ferðalög vegna funda hafa verð blásin af í ljósi aðstæðna. Fundir sem halda átti í maí í Finnlandi og í september á Hjaltlandseyjum fóru því fram í netheimum.
Mynd: Þátttakendur í verkefninu á samstarfsfundi í Norður Írlandi í febrúar 2020.