Auk hinna hefðbundnu verkþátta var á árinu 2020 farið í þá miklu vinnu að uppfæra vef verkefnisins. Gamla vefsíðan var orðin þung í keyrslu, virkaði ekki í snjalltækjum og það gat reynst erfitt að finna upplýsingar á henni. Til að byrja með var flokkun vísa stokkuð upp og uppröðun þeirra breytt með það að markmiði að gera skipulag á síðunni markvissara og auðvelda notendum að finna upplýsingar á henni. Forritun á síðunni hófst í febrúar og var byrjað að færa inn efni á nýja síðu, ásamt því að uppfæra vísa í mars. Mikil vinna fór í að setja upp og stilla nýja síðu og var hún sniðin að því að vera létt, einföld og auka aðgengi að upplýsingum.
Nýr vefur í maí
Þann 29. maí fór nýr vefur Sjálfbærniverkefnisins í loftið. Með tilkomu hans var verkefnið að fylgja þróuninni sem hefur orðið í upplýsingatækni og framsetningu efnis á síðustu árum. Uppfærsla vísa á þessu ári hefur gengið vel og á eingöngu eftir að uppfæra vísa þar sem gögn eru væntanleg bráðlega. Enginn ársfundur var haldinn vegna Covid-19 faraldursins. Ákvörðun um það var tekin á stýrihópsfundi 2. apríl 2020 vegna sérstakra aðstæðna í samfélaginu og þar sem engar stórar ákvarðanir lágu fyrir sem bera þurfti undir ársfund.