Brothættar byggðir
Markmiðið með Brothættum byggðum er að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum landsins. Verkefnið er unnið með því að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. Verkefnið er samstarfsverkefni Austurbrúar, Byggðastofnunar og viðkomandi sveitarfélags. Eitt sveitarfélag á Austurlandi er nú þátttakandi í verkefninu, Borgarfjörður eystri, og ber verkefnið heitið Betri Borgarfjörður.
NánarFögur framtíð í Fljótsdal
Samfélagsverkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal (FFF) byggir á ákveðinni framtíðarsýn sem sett var af íbúum í Fljótsdalshreppi 2019. Á hverju ári er skipulagt samfélagsþing til að móta verkefni komandi árs. Verkefnastjóri FFF er svo aðilum innan handar við að ramma betur inn verkefnin, rýna kostnaðaráætlanir, lesa yfir styrkumsóknir og aðstoða að ýmsu öðru leyti.
NánarSjálfbærni- verkefnið
Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar var komið á til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Vöktun hefur staðið yfir frá árinu 2007 en Austurbrú hefur haldið utan um verkefnið frá árinu 2013.
NánarSamstarf við Vopnafjörð
Austurbrú sér um verkefni er varðar fræða- og þekkingarsetur í Kaupvangi á Vopnafirði. Markmið verkefnisins er að vinna að eflingu mennta-, menningar-, fræða- og atvinnulífs á Vopnafirði með þeirri sérfræðiþekkingu sem til er innan Austurbrúar. Starfsstöð Austurbrúar á Vopnafirði er í menningarhúsinu Kaupvangi en þar er boðið upp á námsaðstöðu fyrir fjarnema á háskólastigi og aðstoð við próftöku. Af öðrum verkefnum ber helst að nefna vinnu við gerð áfangastaðaáætlunar fyrir Vopnafjörð sem hófst haustið 2020 og stefnt er að ljúki vorið 2022. Auk þess er verkefnastjóri Austurbrúar á Vopnafirði tengiliður við sveitarfélagið í ýmsum verkefnum á sviði mennta- menningar- og atvinnuþróunarmála.
Miðstöð menningarfræða
Austurbrú hefur með höndum umsýslu verkefnisins Miðstöð menningarfræða samkvæmt samningi. Markmið verkefnisins er að vinna að áherslum til eflingar menningar og menningartengdu atvinnulífi á Seyðisfirði í samræmi við samning Sambands sveitarfélaga á Austurlandi við mennta- og menningarmálaráðuneytið í viðauka við Sóknaráætlun Austurlands 2020-2024. Stofnanir sem koma að samningnum eru ólíkar og hafa með höndum ólík verkefni.
NánarUppbygging á Seyðisfirði
Stjórnvöld, Múlaþing og Austurbrú standa að þriggja ára verkefni um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði í kjölfar aurskriðanna í desember 2020 en atvinnulíf hefur staðið frammi fyrir fjölþættum áskorunum í kjölfarið. Stofnaður var Hvatasjóður sem veitti 55 milljónir til verkefna sem miða að því virkja frumkvæði íbúa og koma til móts við þá atvinnurekendur og einstaklinga í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir tjóni.
NánarInnviðagreining Fjarðabyggðar
Á sumarmánuðum kom út innviðagreining sem Austurbrú vann fyrir sveitarfélagið Fjarðabyggð.
Á síðustu árum hefur Austurbrú unnið innviðagreiningar fyrir tvö stærstu sveitarfélögin á Austurlandi; fyrst Fljótsdalshérað (sem nú er hluti Múlaþings) og nú Fjarðabyggð. Markmiðið með þeirri vinnu er að gefa greinargóða mynd af því sem sveitarfélögin hafa upp á bjóða, í dag og til framíðar, með því að taka saman upplýsingar sem gagnast geta bæði núverandi og mögulegum íbúum, auk fyrirtækja og stofnana sem leita staðsetningar til uppbyggingar og þróunar.
InnviðagreiningarHringrásar- hagkerfið
Vorið 2021 fékkst styrkur frá Umhverfisráðuneytinu til að vinna kynningarefni fyrir íbúa Austurlands, sem hefði það að markmiði að auka skilning og vitund um hugtakið hringrásarhagkerfi. Gengið var til samninga við listafólkið Rán Flygenring, Elínu Elísabetu Einarsdóttur og Sebastian Ziegler um gerð kynningarmyndbands þar sem hugtakið yrði útskýrt á einfaldan máta, fyrir alla að skilja. Myndbandið var framleitt á haustdögum og fer í dreifingu í byrjun árs 2022.
Handiheat
Á árunum 2018-2021 var Austurbrú aðili að verkefninu Handiheat sem styrkt er í gegnum Norðurslóðaáætlun (NPA). Handiheat vinnur að þróun ýmissa verkfæra og lausna til nýtingar staðbundinna (en ónýttra) orkuauðlinda fyrir íbúabyggðir í dreifbýli sem ekki hafa aðgengi að hagkvæmri hitaveitu og draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta þar sem þau er notuð til kyndingar. Hlutverk Austurbrúar var að draga saman dæmisögur frá svæðunum um vannýttar orkuauðlindir og lausnir ásamt því að miðla áfram áhugaverðum verkefnum frá samstarfsaðilum. Verkefninu lauk með lokaráðstefnu sem var haldin 22. september í netheimum.
NánarStörf án staðsetningar
Vorið 2021 fékkst styrkur í gegnum Byggðastofnun til að kortleggja leigurými sem henta undir störf án staðsetningar í jaðarbyggðum Austurlands. Undirbúningur verkefnisins hófst á haustdögum og verður fram haldið í byrjun árs 2022. Markmiðið er að taka saman í eina gátt, á vefnum austurland.is, þau tækifæri sem bjóðast varðandi starfsaðstöðu undir fjölbreytta starfsemi, sem hægt er að leigja í lengri og skemmri tíma. Rýmin verða kortlögð og skráð og verður heimasíðan tengill milli þeirra sem bjóða uppá rýmin og þeirra sem óska eftir að leigja aðstöðu á Austurlandi.