Forsaga málsins er sú að fyrir ári síðan sótti Austurbrú um styrk til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til að vinna að fræðslu- og kynningarverkefni. Tilgangur þess var að auka vitund um hringrásarhagkerfið þar sem reynt er að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi og að viðhalda verðmætum þeirra eins lengi og mögulegt er.

Einföld skilaboð

Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. „Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins er nokkuð margþætt og getur virst flókin,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri, sem stýrt hefur verkefninu fyrir hönd Austurbrúar. „Í grunninn snýst þetta þó um sjálfbærni; að gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna og myndin varpar einmitt ljósi á þetta með skemmtilegum, einföldum og lifandi hætti.“

Myndin er unnin fyrir Austurbrú af listafólkinu Elínu Elísabetu Einarsdóttur, Rán Flygenring og Sebastian Ziegler sem öll hafa getið sér gott orð fyrir vandaða listsköpun af ýmsu tagi þar sem umhverfismál hafa einmitt komið við sögu. Skemmst er að minnast lundahótelsins á Borgarfirði eystri sem þær Rán og Elín settu á laggirnar í fyrrasumar. Þar var tilgangurinn að vekja athygli á stöðu lundans en hann hefur ekki farið varhluta af þeirri þróun sem loftlagshlýnun hefur hrint af stað.

Rán Flygenring útskýrir hringrás í náttúrunni.

Ábyrgð heimamanna

„Við vonum að myndin veki áhuga og skapi umræðu um umhverfismál í landshlutanum,“ segir Halldóra. „Ábyrgð mannkyns er mikil þegar kemur að því að takast á við loftlagsbreytingar og þess vegna hafa alþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar sett sér markmið um sjálfbæra þróun. Áhrifa þeirra gætir svo í þeim stefnum sem við vinnum eftir,“ segir hún en lögð er rík áhersla á umhverfismál t.a.m. í sóknar- og áfangastaðaáætlunum landshlutans sem og í svæðisskipulagi Austurlands sem nú er í vinnslu. „Myndin er unnin á grunni þessara stefna en það er skoðun okkar hjá Austurbrú að það sé mikilvægt að umræðan fari líka fram hér á okkar svæði og ýti þannig undir ábyrgðartilfinningu okkar Austfirðinga þegar kemur að þessum málum sem oft virðast fjarri okkur,“ segir Halldóra.

Nánari upplýsingar


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]