Matsjáin
Matarauður Austurlands heyrir undir Áfangastofu Austurlands. Á árinu var áfram unnið að auknu samstarfi milli matvælaframleiðenda og framreiðenda matvæla, auknum sýnileika ásamt ýmsum öðrum þáttum.
Austurbrú, í samstarfi við önnnur landshlutasamtök, Rata og Samtök smáframleiðenda matvæla keyrðu verkefnið Matsjána frá janúar fram í apríl. Alls voru um 80 þátttakendur alls staðar að, af landinu, þar af sjö frá Austurlandi. Námskeiðið fór fram í 7 lotum á Teams, annars vegar með almennri fræðslu og hins vegar með eftirfylgni og heimavinnu. Lokahnykkurinn var samvera á Laugarbakka þar sem þátttakendur kynntu sig og sína framleiðslu.
Mikil ánægja var með samstarfið og verkefnið í heild sinni.
Matarmót
Verslunarstjórar í dagvöruverslunum voru áfram hvattir til að auka sýnileika austfirskra matvara í verslunum og Matarmót var haldið 21. október í Hótel Valaskjálf. Austurbrú fékk styrk frá umhverfis- orku- og auðlindaráðuneyti til að halda matarmótið og var þemað „Landsins gæði. Matur í náttúru Austurlands“. Sýnendur voru rúmlega 20 auk þess sem haldnar voru fjölbreyttar málstofur fyrir Matarmótið þar sem ólíkir aðilar fjölluðu um þemað út frá sinni sérþekkingu.
Að Matarmótinu loknu var haldinn félagsfundur Austfirskra krása þar sem grunnur var lagður að nýrri stjórn. Aðalfundur Austfirskra krása var haldinn í desember og mun ný stjórn starfa náið með matarauðsteyminu á komandi árum.