Líkt og síðustu ár vinnur Austurbrú að uppbyggingu menningar og lista á Austurlandi. Starfsmenn Austurbrúar sinna mismunandi verkefnum á sviði menningar í landshlutanum og út fyrir hann. Talsverður þáttur í þeirri vinnu er ýmis konar samstarf við sveitarfélög, menningarstofnanir einstaklinga og landshlutasamtök. Reglulegir fundir eru hjá starfsmönnum landshlutasamtaka sem vinna að menningarmálum í gegnum teams. Auk þess er hist einu sinni á ári og fór sá fundur fram á Vesturlandi vorið 2022.
Ýmis verkefni voru á árinu m.a. var haldinn fundur með markaðsteymi Austurbrúar og söfnum á Austurlandi með það í huga að bæta og auka markaðssetningu safnanna á Austurlandi. Austurbrú fékk í heimsókn á vormánuðum forseta BÍL, Erling Jóhannsson og Signýju Leifsdóttur, verkefnastjóra menningar- og ferðamálasviðs hjá Reykjavíkurborg. Haldinn var fundur um málefni menningar og lista á Austurlandi, þar sem meðal annars var rætt um menningar áherslur í nýju Svæðisskipulagi og mikilvægi þess að vinna menningarstefnu fyrir allan landshlutann. Samhliða heimsókn Erlings var stofnfundur Samtaka listafólks á Austurlandi. Mikið framfara skref sem vonandi kemur allri uppbyggingu lista og menningar í landshlutanum til góða.
Mikilvægasta áherslan í menningarsamstarfi síðustu ára hjá Austurbrú og menningarmiðstöðunum þrem á Austurlandi er BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Öflugur stýrihópur vinnur að undirbúningi ár hvert. Sótt er um fjármagn í Barnamenningarsjóð sem og aðra sjóði sem er grunnurinn að því að hægt sé að bjóða upp á þá fjölbreyttu dagskrá sem fram fer. Megin áherslan er að listamenn vinni með börnum og/eða leyfi þeim að upplifa sýningum frá sem flestum listgreinum. Mjög gott samstarf hefur skapast við List fyrir alla.
Á Austurlandi starfa þrjár menningarmiðstöðvar með mismunandi listrænar áherslur: Skaftfell á Seyðisfirði sem er miðstöð myndlistar, Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði með áherslu á tónlist og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs með áherslu á sviðslistir. Samkvæmt samningi SSA og ríkisins í gegnum sóknaráætlun landshlutans kemur fjármagn til miðstöðvanna að jöfnu við framlag sveitarfélaganna þar sem miðstöðvarnar eru staðsettar. Austurbrú hefur hlutverk samkvæmt samningi að efla samstarf menningarmiðstöðvanna þriggja á Austurlandi og standa fyrir reglulegum fundum með miðstöðvunum. Tilgangur fundanna er að skapa samlegð og samstarf milli miðstöðvanna sem er mikilvægt. Þannig byggist upp þekking í miðstöðvunum sjálfum og tengsl sem eru mikilvæg.
Hjá Austurbrú er menningin hluti þeirri vinnu sem fram fer í gegnum Áfangastaðastofu Austurlands auk þess sem starfsmenn í menningarmálum koma að uppbyggingu matarmenningar í landshlutanum í gegnum Matarauð Austurlands. Efling jaðarbyggða er hluti af Sóknaráætlunarsamningi við Vopnafjörð og Djúpavog á sviði menningarmála. Árlega verða því til sérstök verkefni á þessum svæðum til styrkingar menningarstarfsemi.
Mikilvægt er að halda áfram með þá vinnu sem unnin var með nýju Svæðisskipulagi Austurlands á sviði menningar og lista. Vinna þarf að nýrri menningarstefnu og efla enn frekar tengsl á milli menningararfsins og ferðaþjónustunnar á sem fjölbreytilegastan hátt.