Árið 2023 voru farnar tvær blaðamannaferðir í samstarfi við Íslandsstofu. Áherslan var á þýska markaðinn og þýskumælandi ferðamenn og sem fyrr eru þemu þessara ferða sérstaða landshlutans, fjölbreytta þjónustu, afþreyingu og upplifanir.

Í september var farin þriggja daga ferð með blaðamenn frá þýsku miðlunum Frankfurter, TopMagazin, Rein Zeitung og Das Goldene Blatt sem var skipulögð af Austurbrú og leiðsögð af Helgu Melsteð hjá Tinnu Adventure á Breiðdalsvík og Berglindi Einarsdóttur hjá Adventura á Djúpavogi. Skipulagning blaðamannaferða er gerð í góðri samvinnu við okkar samstarfsaðila í ferðaþjónustunni og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir liðlegheit og framúrskarandi þjónustu og kynningar til blaðamannanna.

Alva Gehrmann, virt blaðakona frá Þýskalandi sem skrifar fyrir mörg af stærstu blöðum og tímaritum Þýskalands, m.a. Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung og Der Spiegel, kom austur í júní og dvaldi á Borgarfirði eystra, Seyðisfirði, Eskifirði og Héraði.

Hafa greinar úr þessum ferðum nú þegar verið birtar og er enn von á fleirum.

Vetrarferðamennska er ein af áherslum okkar þegar kemur að markaðssetningu landshlutans enda er þar að finna mörg enn ónýtt tækifæri. Í mars vorum við í samstarfi við Fjarðabyggð og Austurland Freeride Festival og fengum ljósmyndarann Chris Burkard til að koma og mynda á hátíðinni. Chris er reglulegur gestur í landshlutanum og hefur birt mikið af efni frá ævintýrum sínum hér á sínum miðlum en einnig fengum við fjölda ljósmynda sem notaðar hafa verið í markaðssetningu á vetrarferðamennsku á Austurlandi.