Mannamót
Mannamót fyrsta ferðasýning ársins fór fram um miðjan janúar. Mannamót eru fjölmennasti viðburðurinn í íslenskri ferðaþjónustu en hátt í þúsund gestir mættu á viðburðinn þar sem um 250 sýnendur tóku þátt, þar af 21 frá Austurlandi. Austurbrú heldur utan um uppsetningu og útlit bása austfirskra fyrirtækja og fékk Austurland verðskuldaða athygli fyrir góða hönnun á sameiginlegu útliti.
Ferðakaupstefnur
Austurbrú sendi tvo fulltrúa á ferðakaupstefnuna Icelandair Mid-Atlantic sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík. Samtals áttu fulltrúar Austurbrúar fundi með um þrjátíu ferðaskrifstofum þar sem áhersla var lögð á fjölgun ferðmanna utan hins hefðbundna ferðatímabils sem og aukið framboð afþreyingar á Austurlandi. Austurbrú tók einnig þátt í hinni umfangsmiklu ferðakaupstefnu ITB Berlín í mars en nokkurra ára hlé hefur verið á henni vegna Covid. Þátttakan var undir merkjum Íslandsstofu en fulltrúar Austurbrúar áttu þar fjölda funda með ferðaþjónustuaðilum og -kaupendum ýmist með áherslu á beint millilandaflug til Egilsstaða, en einnig um áfangastaðinn Austurland, ekki síst þar sem horft var til ferða á axlartímabilum og að vetrarlagi.
Vinnustofa norrænna þjóða
Austurbrú tók þátt í Nordic Workshop vinnustofunni sem fór fram í Frankfurt 20. september. Vinnustofan var samstarfsverkefni Íslandsstofu, Visit Denmark, Visit Finland og Visit Norway og var vel sótt. Á vinnustofunni átti fulltrúi Austurbrúar fundi með tólf þýskum ferðaskrifstofum. Aðalinntak fundanna voru staða á gistiplássum í landshlutanum, ný afþreying, áframhaldandi vinna við það að koma á millilandaflugi á milli Egilsstaða og Þýskalands og fjölgun ferðamanna í landshlutanum á axlarmánuðum (þá aðallega í september og október).
Vestnorden
Vestnorden er árlegt samvinnuverkefni NATA (North Atlantic Tourism Association), þ.e. Íslands, Grænlands og Færeyja. Ferðasýningin er haldin annað hvert ár á Íslandi og svo skiptast Grænland og Færeyjar á að halda viðburðinn þess á milli. Að þessu sinni fór Vestnorden fram í Reykjavík um miðjan október. og tóku þrjú austfirsk ferðaþjónustufyrirtæki þátt auk Austurbrúar. Þátttakendum stóð til boða að heimsækja Austurland fyrir Vestnorden og sóttu 16 fyrirtæki svæðið heim í tvo daga. Dagskráin á Vestnorden var afar þétt en rúmlega 500 gestir sóttu ferðakaupstefnuna og funduðu fulltrúar Austurbrúar með yfir 40 erlendum ferðaskrifstofum, einkum evrópskum, þar sem rauði þráðurinn var fjölgun ferðamanna í landshlutanum utan hins hefðbundna ferðatímabils. Aukinn áhugi erlendra ferðaskrifstofa á Austurlandi leynir sér ekki og var ánægjulegt að sjá hversu vel erlendar ferðaskrifstofur eru farnar að þekkja landshlutann.