Austurbrú á góða samvinnu við stóran hóp hagaðila; innan ferðaþjónustunnar, opinbera aðila og í stoðþjónustu til að vinna að því að koma á beinu millilandaflugi um Egilsstaðaflugvöll. Starfsfólk Austurbrúar hefur sótt ferðakaupstefnur og vinnustofur erlendis sem og hér heima til að kynna áfangastaðinn, þróað markaðsefni, átt samtöl við flugfélög og á árinu var blásið til verkefnisins Straumhvarfa sem miðar að því að auka framboð í ferðaþjónustu í tengslum við beint flug. Verkefnið horfir einkum til að auka afþreyingu og gistingu, allt árið um kring, á Austur- og Norðurlandi. Um fimmtíu ferðaþjónustuaðilar tóku þátt í fimm vinnustofum þar sem lagður var grunnur að auknu samstarfi þeirra á milli. 

Sameiginleg markaðssetning flugvallanna á Egilsstöðum og Akureyri með Markaðsstofu Norðurlands og ISAVIA er eitt hryggjarstykkjanna í þessu starfi en hún miðar að því að fjölga gáttunum inn í landið og þar með ferðafólki. Ljóst er að um leið og beint flug opnar mikla möguleika á svæðinu öllu, dregur það um leið fram nauðsyn þess að þróa ferðaþjónustu á Austurlandi áfram, einkum að  tryggja nægt framboð á gistingu og nýjungum í vörum og þjónustu. Starfsfólk Austurbrúar vinnur með aðilum í ferðaþjónustu á svæðinu að þessu og hefur auk framangreinds, staðið ásamt Ferðamálastofu og Íslandsstofu, að verkefninu Invest in Austurland sem miðar að því að laða að aukna fjárfestingu í ferðaþjónustu á svæðinu. Í tengslum við það  var haldin stór fundur á Egilsstöðum í maí en þar var sjónum beint að framtíð landshlutans í ferðaþjónustu og hvernig hægt sé að auka fjárfestingu og áhuga fjárfesta á áfangastaðnum sem byggir á því að hann verði heilsársáfangastaður.