Uppbygging atvinnu- og byggðamála er mjög mikilvæg á Austurlandi. Það er hlutverk Austurbrúar í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), fyrirtæki á Austurlandi, Byggðastofnun, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, ráðuneyti og fjölmarga fleiri aðli að byggja landshlutann upp til framtíðar, hvort heldur er fyrir heimamenn eða gesti. Þetta er gert með virku samstarfi og hæfni til að sjá þörf og tækifæri um leið og þau koma til okkar.

Árið 2023 unnu starfsmenn Austurbrúar að fjölmörgum verkefnum, sumum árlegum en öðrum nýjum. Fjármagn fékkst úr sjóði C1 í byggðaáætlunar til að vinna að tveimur verkefnum. Annars vegar verkefni sem kallast Straumhvörf og er unnið er með samböndum sveitarfélaga á Norðvesturlandi og Norðurlandi auk Markaðstofu Norðurlands. Áherslan er á uppbyggingu ferðaþjónustu tengt beinu flugi til Egilsstaða og Akureyrar. Hins vegar styrkti sjóðurinn verkefnið Vatnaskil sem unnið er á Austurlandi í samstarfi við Félag ungra bænda á Austurlandi og Búnaðarsambands Austurlands. Verkefninu er ætlað að vinna að eflingu atvinnu í dreifbýli með áherslu á unga bændur. Báðum þessum verkefnum verið haldið áfram á árinu 2024.

Ferðaþjónusta er í hraðri þróun á Austurlandi þó að það hafi vissulega verið mikil vonbrigði að þýska fyrirtækið Condor hafi hætt við beint flug til Egilsstaða og Akureyrar, eins og fyrirhugað var á árinu. Þetta leiddi til þess að áherslur breyttust, t.a.m. var dregið örlítið úr þeirri miklu markaðssetningu sem verið hafði á Þýskalandsmarkaði. Starfsfólk í markaðssetningu hjá Austurbrú tekur þátt í fjölmörgum þróunarverkefnum; sækir sölusýningar fyrir ferðaþjónustu og vinnustofur, gefur út ferðatímarit og heldur úti vefnum Visitausturland sem er í stöðugri þróun með textaskrifum um áfangastaði, bloggi um mismunandi málefni og ýmis konar kynningu. Þá eru kynnisferðir og móttaka blaðamanna í gangi allt árið í samstarfi við Íslandsstofu.

Mikill tími fer í að þjónusta samstarfsaðila í ferðaþjónustu og vinna að sameiginlegri sýn á Austurlandi. Sú vinna er mest sýnileg á Mannamótum, sýningu sem haldin er í Reykjavík í janúar á hverju ári. Auk þess eru haldnir reglulegir morgunfundir á netinu þar sem mikilvæg málefni eru tekin fyrir hverju sinni. Haustfundurinn sem Austurbrú stendur fyrir en nokkurs konar uppskeruhátíð fyrir samstafsaðila í ferðaþjónustu á Austurlandi og tókst vel til að vanda með afhendingu Frumkvöðulsins og Klettsins. Ný og endurbætt Áfangastaðaáætlun fyrir Austurland var unnin á árinu og er nú komin út bæði á íslensku og ensku.

Eitt verkefni undir hatti Brothættra byggða er á Austurlandi um þessar mundir og er það verkefnið Sterkur Stöðvarfjörður. Verkefnið fór vel af stað á árinu og miklar væntingar bundnar við það á næstu árum.

Fjöldi verkefna halda áfram á milli ára. Matarauður Austurlands er verkefni sem eflist með ári hverju. Matarmót var haldið í byrjun nóvember, matarklasinn Krásir var endurreistur og starfsemin hafinn með tengingu við Matarauð Austurlands.

Unnið hefur verið áfram með Íslandsstofu að því að kynna Austurland fyrir fjárfestum og sérstök áhersla á tækifæri tengt uppbyggingu á ferðaþjónustu. Fjárfestingavefurinn Invest in Austurland varð til á síðast ári og verkefnið Óstaðbundin störf er uppfært reglulega.

Atvinnuþróun og aðstoð við frumkvöðla er talsverður hluti af starfsemi Austurbrúar. Þar má nefna kynslóðaskipti fyrirtækja í landbúnaði og ferðaþjónustu. Þá er alltaf nokkuð um hugmyndir og stofnun nýrra fyrirtækja og unnið með frumkvöðlum sérstaklega að því sem vantar í þeirra þekkingu, t.d. fjármálahliðina og markaðssetningu. Aðstoð við umsóknir í sjóði skipar einnig stóran sess í starfseminni. Á árinu var farið víða um fjórðunginn þar sem haldnar voru vinnustofur tengdar umsóknum í Uppbyggingarsjóð Austurlands og fyrirtæki heimsótt samhliða.
Unnið er að fjárskila-l og umhverfismálum með sveitarfélögum á Austurlandi auk tilfallandi verkefna hverju sinni.

Dagar myrkurs, BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurland er stórt verkefni á vegum Austurbrúar. Á árinu hófst vinna við nýja menningarstefnu Austurlands með stórum fundi í Valaskjálf.

Í þessum pistli er ekki allt upptalið sem unnið er að á sviði atvinnu- og byggðaþróunar. Nánari skil eru gerð í öðrum köflum í ársritinu. Austurbrú hefur yfir að ráða mjög öflugum starfshóp með fjölbreyttri þekkingu. Hópurinn vinnur vel saman og mörg verkefnin eru unnin af ólíkum aðilum eftir efni og umfangi. Á þann hátt verður til enn meiri deigla og kraftur sem leiðir til betri og meiri árangurs enn ella.


Signý Ormarsdóttir

470 3811 // [email protected]