Á árinu hófst vinna við verkefnið Vatnaskil. Tilgangur verkefnisins er að efla nýsköpun og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í dreifbýli Austurlands. Sérstaklega er horft til þess að skapa tækifæri fyrir ungt fólk. Verkefnið er unnið í samstarfi við Félag ungra bænda á Austurlandi og Búnaðarsamband Austurlands og hlaut styrk úr byggðaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2022-2036.  

Boðað var til samráðsfundar í verkefninu á Eiðum í lok ágúst undir yfirskriftinni „Hjarta mitt slær í sveitinni – samtal um framtíðartækifæri í sveitum Austurlands“. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og mættu um 60 mann af öllu Austurlandi. Umsjón með fundinum og úrvinnslu hafði Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI í samstarfi við starfsfólk Austurbrúar. Fundurinn var haldinn samkvæmt aðferðafræðinni „opin rými“ þar sem þátttakendur stinga sjálfir upp á umræðuefnum. Alls var stungið upp á 33 málefnum sem voru síðan dregin saman í 15 umræðuhópa sem skipt var niður á þrjár umferðir.

Jafnframt var athyglinni beint að úrbætum á innviðum á svæðinu enda eru samgöngur og uppbygging innviða án efa stærsta og mikilvægasta viðfangsefnið til að styrkja stöðu dreifbýlis á Austurlandi. Samantekt fundarins liggur fyrir og var send öllum þátttakendum og sveitarfélögunum á Austurlandi.  

Verkefnið er enn í vinnslu og á árinu 2024 verður unnið frekar með þær áherslur sem komu fram á fundinum á Eiðum.  

Verkefnisstjórn


Páll Baldursson

896 6716 // [email protected]