Einróma öflugt Austurland

Síðastliðið ár hefur verið sérstaklega viðburðaríkt á vettvangi SSA.

Stjórn SSA tók á móti ríkisstjórn Íslands á Egilsstöðum í lok ágúst og hafði þá látið vinna afar góða undirbúningsvinnu með greiningu á efnahagsumsvifum Austurlands. Með þeirri aðferðafræði komum við sterkum skilaboðum á framfæri um þá miklu verðmætasköpun sem fram fer í landshlutanum. Það mikilvæga og góða samtal vakti ráðherra okkar til umhugsunar um þá takmörkuðu fjármuni sem koma til baka í innviðauppbyggingu miðað við þá staðreynd að Austurland leggur mikið til þjóðarbúsins, eða tæpan fjórðung af heildarverðmæti vöruútflutnings þrátt fyrir að þar búi innan við 3% landsmanna. Að öðru leyti voru atvinnumál, orkumál, öryggismál, heilbrigðismál og opinber þjónusta á Austurlandi rauði þráðurinn í samtali okkar við ríkisstjórn Íslands.

Ræða Berglindar frá fundinum í fullri lengd.

Öflugt atvinnulíf þarf nútímainnviði

Efnahagsgreining ráðgjafafyrirtækisins Analytica sýnir skilmerkilega að Austurland leggur til um 240 milljarða króna í sameiginlega sjóði ríkisins þrátt fyrir að þar búi rétt tæplega 3% landsmanna. Í þeim tölum endurspeglast gríðarlega öflugt atvinnulíf og mikil áform eru um frekari fjárfestingar. Lykilatriði þar er nauðsyn þess að tryggja aðgengi að aukinni orku til að nýta þau vaxtartækifæri sem eru til staðar.

Að ríkið auki fjármuni til alhliða innviðauppbyggingar á Austurlandi í takt við núverandi verðmætasköpun svæðisins er mikilvægt. Fjárfesting í öflugri samgöngum mun efla enn frekari verðmætasköpun og laða að sér fleiri íbúa með raunverulegu vali á búsetu þar sem næga atvinnu er að hafa og lífsgæði eru með því betra sem gerist.

Samstaða sveitarfélaga á Austurlandi

Sveitarstjórnarfulltrúar á Austurlandi hafa sýnt samtakamátt með heildarhagsmuni fjórðungsins að leiðarljósi. Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044, sem sveitarfélögin hafa samþykkt, tryggir sameiginlega framtíðarsýn sveitarfélaganna í öllum málaflokkum. Sveitarfélögin þurfa á hvort öðru að halda enda eru styrkleikar svæðanna mismunandi. Með sterkri samstöðu aukum við líkur á enn frekari fjárfestingu með uppbyggingu sem leiðir af sér aukna verðmætasköpun og betri lífskjör fyrir alla íbúa Austurlands.

Framkvæmdastjóraskipti hjá Austurbrú

Horft er til öflugrar starfsemi Austurbrúar um allt land. Austurbrú skapar góðan vettvang til samstarfs þar sem verkefnin ganga út á framþróun menntunar, menningar og öflugs atvinnulífs á Austurlandi sem laðar að íbúa, fjárfesta og fyrirtæki.

Framkvæmdastjóraskipti urðu haustið 2023 þegar Dagmar Ýr Stefánsdóttir tók við starfinu af Jónu Árnýju Þórðardóttur sem nú gegnir starfi bæjarstjóra Fjarðarbyggðar. Vil ég þakka Jónu Árnýju enn og aftur fyrir hennar mikilvæga starf fyrir Austurbrú. Það er krefjandi fyrir nýjan framkvæmdastjóra að setja sig inn í svo víðtækt og mikilvægt starf. Vil ég þakka nýjum framkvæmdastjóra fyrir afar góða vinnu, þann mikla kraft og yfirgripsmiklu sýn sem endurspeglast í öllu hennar starfi og er Austurlandi afar mikilvægt.

Starfsfólki Austurbrúar vil ég einnig færa miklar þakkir fyrir þeirra góða starf sem er grunnur að öflugri starfsemi Austurbrúar.

Einróma öflugt Austurland

Með nýrri aðferðafræði og samstöðu um alhliða uppbyggingu í gegnum Svæðiskipulag Austurlands 2022-2044, með efnahagsgreiningu Austurlands í forgrunni, efast ég ekki um að við náum mun öflugri uppbyggingu austur á land en verið hefur í gegnum tíðina þar sem sveitarfélög þurftu áður að berjast sín á milli um bitana.

Kraftmikill sameiningar- og samtakamáttur kemur okkur lengst með stórstígum framförum lífsgæða allra íbúa Austurlands.

Berglind Harpa Svavarsdóttir

formaður SSA


Berglind Harpa Svavarsdóttir