Á árinu fólst að venju mikil vinna í umsóknarferlinu, frágang gagna til fagráða og úthlutunarnefndar, samningagerð og frágangi að lokinni úthlutun styrkja, auk yfirlesturs og mats framvindu- og lokaskýrslna allra verkefna sem hlutu styrki. Verkferlar eru í nokkuð föstum skorðum en þó alltaf endurskoðaðir út frá athugasendum fagráða og úthlutunarnefndar. Auglýst var eftir umsóknum vegna verkefna sem fara áttu fram árið 2024. Úthlutunarathöfn var haldin í desember 2023 í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð á Egilsstöðum við góða mætingu. Eins og undanfarin ár var útbúinn bæklingur með lýsingu á verkefnunum sem hlutu styrk auk ávarps formanns úthlutunarnefndar.

Verkefnin voru fjölbreytt eins og áður en í úthlutunarreglum Uppbyggingarsjóðs Austurlands er sérstaklega kallað eftir verkefnum sem falla að áherslum Sóknaráætlunar Austurlands, sem gildir frá 2020 til 2024, og snúa að málum á sviði menningar og atvinnuþróunar auk tengingar við umhverfismál. Áherslurnar felast í stuðningi við menningarverkefni sem styrkja atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar, verkefni sem styðja við menningarstarf barna og ungmenna og verkefni sem draga fram og efla áhugaverða þætti í menningararfleifð.

Áherslur Sóknaráætlunar Austurlands snúa einnig að því að styðja við og efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, verkefni sem fela í sér skref að aukinni sjálfbærni og fullvinnslu á Austurlandi þá sérstaklega úr skógarafurðum og á sviði matvælaframleiðslu sem og verkefni sem ríma við hugmyndafræði Áfangastaðarins Austurlands.

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði fyrir árið 2024 er síðasta úthlutun á styrkjum úr núgildandi Sóknaráætlun Austurlands, en samningstíma hennar lýkur í lok árs 2024.

Styrkþegar voru bæði aðilar sem áður hafa fengið styrki og nýir. Hæsta styrkinn hlaut Sinfóníuhljómsveit Austurlands fyrir tónleika vorið 2024, þar frumflutt verður nýtt verk eftir Dr. Charles Ross. Uppbyggingarsjóður úthlutar 3,5 milljónum í verkefnið.
Alls bárust 115 umsóknir sem er svipað og verið hefur en að jafnaði berast árlega 110-130 umsóknir til sjóðsins. Áætlaður heildarkostnaður verkefna var um 659 m.kr. en sótt var um styrki fyrir 222 m.kr.

Til úthlutunar að þessu sinni voru 64.850.000 kr. og skiptist fjármagnið þannig að 33 verkefni á sviði menningar hlutu styrki sem námu 28,9 milljónum og 31 styrkur til atvinnuþróunar upp á alls 30,95 milljónir. Að auki voru veittar 3 milljónir til stofn- og rekstarstyrkja á sviði menningar.

Frétt um úthlutun

Verkefnisstjórn


Signý Ormarsdóttir

470 3811 // [email protected]


Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

857 0801 // [email protected]


Gabríel Arnarsson

857 0804 // [email protected]