Fundir stjórnar
Á milli aðalfunda, sem telst starfsár stjórnar, voru haldnir alls 12 stjórnarfundir og 3 framkvæmdaráðsfundir og voru flestir fundirnir fjarfundir. Í framhaldi af stjórnarkjöri á haustþingi SSA 2020 var framkvæmdaráð lagt niður í samræmi við breytingar á samþykktum SSA frá aðalfundi 23. júní 2020.
FundargerðirÞrátt fyrir samkomutakmarkanir voru tímabil þar sem hægt var að funda á staðfundum og náðist þannig á tímabilinu að funda með tveimur sveitarfélögum, nýsameinuðu Múlaþingi og Fjarðabyggð. Á almanaksárinu er jafnframt reiknað með að funda með bæði Vopnafjarðarhreppi og Fljótsdalshreppi. Er þetta í samræmi við áætlanir um að á hverju ári sé fundað í staðfundi einu sinni í hverju sveitarfélagi á starfssvæði SSA. Bæði í Múlaþingi og í Fjarðabyggð var fulltrúum viðkomandi sveitastjórna boðið að koma til fundar við stjórn SSA auk þess sem stjórn fékk kynningu á ýmsum staðbundnum málefnum. Þá fundaði stjórn einnig á Seyðisfirði í janúar 2021 og fékk þar kynningu frá fólki á vettvangi á stöðunni í framhaldi af skriðuföllunum þann 18. desember.
Áfram var lögð áhersla á það á starfsárinu að fá inn á fundi stjórnar gesti þar sem farið hefur verið yfir málefni sem snúa að landshlutanum. Hefur það oltið á tilefninu hverju sinni og verkefnunum hvort gestirnir hafa komið inn á fundi stjórnar SSA eða stjórnar Austurbrúar. Meðal þeirra gesta sem komið hafa til fundar má nefna fulltrúa frá Vegagerðinni, HSA, ISAVIA, Náttúrustofu Austurlands, fulltrúa Múlans og Matís. Einnig hefur verið fundað með þingmönnum kjördæmisins nokkrum sinnum á starfsárinu og tekin var rafrænn fundur á kjördæmadegi bæði haustið 2020 og vorið 2021. Þá hafa fulltrúar stjórnar mætt til fundar bæði hjá fjárlaganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd sem og atvinnuveganefnd. Þess utan var fundað með ráðherrum og þingmönnum bæði á Austurlandi og í Reykjavík.
Á starfsárinu 2020/2021 hafa verið haldnir fjölmargir fundir með ýmsum hópum bæði hjá ráðuneytum sem og öðrum sem óskað hafa eftir samtali við kjörna fulltrúa á starfssvæði SSA. SSA hefur komið að undirbúningi funda og jafnvel komið með fyrirlesara um einstök málefni úr landshlutanum inn á fundina. Ljóst er að með tilkomu aukinnar þekkingar hjá ráðuneytum og stofnunum á rafæna fundaforminu hefur beiðnum um fundi fjölgað og möguleikar fulltrúa til að vera virkir þátttakendur í umræðu um fjölmörg málefni aukist.
Innri starfsemi
Stjórn SSA situr í stjórn Austurbrúar auk tveggja fulltrúa fagráðs Austurbrúar. Umfjöllun um starf Austurbrúar má finna í ársskýrslu stofnunarinnar. Starfsfólk Austurbrúar hefur sinnt daglegum verkefnum á vegum sambandsins undir forystu framkvæmdastjóra sem forgangsraðar vinnunni í samráði við stjórn SSA. Bókhald SSA er unnið af Austurbrú og Skrifstofuþjónustu Austurlands auk þess sem endurskoðunarfyrirtækið KPMG á Austurlandi annast könnun ársreiknings.
Samskipti við þingmenn, ráðuneyti og stofnanir
Samskipti við þingmenn kjördæmisins eru bæði með formlegum og óformlegum hætti. Landshlutasamtökin eru þannig byggð upp að samskipti milli kjörinna fulltrúa á Alþingi og stjórnarmanna sambandsins eru mjög regluleg. Þingmenn halda kjördæmafundi sem skipulagðir eru af SSA. Þar koma til fundar við þingmenn sveitarstjórnarfólk, fulltrúar fyrirtækja og stofnana sem og stjórnarmenn SSA. Margir kjörnir fulltrúar vildu gjarnan að samskipti við þingmenn væru meiri og að þeir gæfu sér meiri tíma til samskipta hvort sem það er í kjördæmavikum eða utan þeirra. Fulltrúar stjórnar hafa á starfsárinu mætt til fundar bæði hjá fjárlaganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd auk þess sem fundað hefur verið með ráðherrum og þingmönnum, bæði á Austurlandi og í Reykjavík.
Landshlutasamtök sveitarfélaga
Starf landshlutasamtaka sveitarfélaga byggir tilveru sína á ákvæði 97. gr. sveitarstjórnarlaga nr.138/2011 þar sem segir:
Sveitarfélögum er heimilt að starfa saman innan staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna í hverjum landshluta. Starfssvæði landshlutasamtaka fer eftir ákvörðun aðildarsveitarfélaga sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu. Landshlutasamtök skulu þó aldrei vera fleiri en átta á landinu öllu. Sveitarfélög sem liggja innan starfssvæðis landshlutasamtaka eiga rétt á aðild að þeim. Ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega. Landshlutasamtök geta með samningum eða samkvæmt heimildum í sérlögum tekið að sér verkefni eða aðra starfsemi sem tengist hlutverki þeirra skv. 1. mgr., svo sem verkefni tengd byggðaþróun eða öðrum sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga.
Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skipaði starfshóp sem hefur það hlutverk að meta stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga með það að markmiði að skýra hlutverk þeirra og stöðu gagnvart sveitarfélögum annars vegar og ríkinu hins vegar. Hefur hópurinn skilað skýrslu sem landshlutasamtökin skiluðu umsögn um.
Samskipti milli starfsmanna landshlutasamtakanna aukast sífellt enda hefur verkefnum sem samtökin koma að fjölgað í gegnum árin. Þar má nefna nýja samninga um sóknaráætlun, framgang verkefna í byggðaáætlun og þróun almenningssamgangna. Funda framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna reglulega og miðla efni sín á milli. Einnig eiga landshlutasamtökin samstarf um ýmis verkefni sem talin eru gagnast landsbyggðinni í heild.
Skipting fjármuna frá ríkisvaldinu til verkefna í landshlutanum er eitt af viðfangsefnum landshlutasamtakanna. Fulltrúar SSA hafa lagt ríka áherslu á að við skiptingu fjármagns sé tekið tillit til mismunandi aðstæðna landshlutanna, s.s. hvað varðar fjarlægð og þéttleika byggðar.
Alla jafna eru haldnir þrír reglulegir fundir ár hvert þar sem farið er yfir mál sem bera hæst í landshlutunum; haustfundur, vorfundur og sumarfundur. Nú á tímum samkomutakmarkana hefur fundaskipulag breyst og færst yfir í fjarfundi.
Samband íslenskra sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga gengst fyrir fundum og ráðstefnum sem fulltrúar SSA sækja eftir því sem við á. Þó eru ákveðnar ráðstefnur sem fulltrúar sambandsins sækja árlega, s.s. fjármálaráðstefna og landsþing.
Landsþing var haldið 18. desember 2020 í fyrsta skipti í fjarfundi þar sem áhersla sveitarstjórnarmanna var á frumvarp sveitastjórnarráðherra um breytingu á sveitastjórnarlögum. Jafnframt var landsþing haldið 21. maí 2021 og áherslan er á breytingar á samþykktum sambandsins. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur aukið þjónustu sína við sveitarfélögin jafnt og þétt og er hún landshlutasamtökum mikilvæg. Á árinu var fundað m.a. í tengslum við úrgangsmál, hálendisfrumvapið, stafræna þróun og fleira. Starfsmenn sambandsins eru í reglulegum samskiptum við Austurland og mikið af upplýsingum verið miðlað á milli í tengslum við bæði verkefni og áherslur. Jón Björn Hákonarson, fulltrúi norðausturkjörsvæðis í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, kom tvisvar til fundar við stjórn SSA og fór yfir þau málefni sem unnið er að á vettvangi stjórnar sambandsins.
Háskólanám á Austurlandi
Á starfsárinu var undirritaður samningur á milli Austurbrúar og menntamálaráðuneytisins um kennslu á háskólastigi á Austurlandi. Skipaður var starfshópur undir formennsku Líneikar Önnu Sævarsdóttur f.h. ráðuneytisins sem unnið hefur að málefninu. Í hópnum situr f.h. SSA og Austurbrúar Einar Már Sigurðarson en að auki sitja í hópnum Ari Kristinn Jónsson, Björn Ingimarsson, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, Eyjólfur Guðmundsson, Hákon Ernuson og Jón Björn Hákonarson.
Brothættar byggðir
SSA átti fulltrúa í verkefnisstjórnum Brothættra byggða á starfsárinu sem fjallaði um málefni Borgarfjarðar eystri. Fundað var reglulega í verkefnastjórninni og situr Stefán Bogi Sveinsson þar sem fulltrúi stjórnar SSA. Verkefnið er leitt af Byggðastofnun en dagleg verkefnastjórn er í höndum starfsmanns Austurbrúar.
NánarHallormsstaðaskóli
SSA skipaði á starfsárinu fulltrúa í nýja stjórn hjá Hallormsstaðaskóla. Í stjórninni sitja Gunnar Jónsson og Pálína Margeirsdóttir. Unnið hefur verið að nýjum samningum við ráðuneytið auk þess sem námsbrautin Sjálfbærni og sköpun á fjórða hæfniþrepi hefur hlotið viðurkenningu Menntamálastofnunar.
SvAust
Heildstætt almenningssamgangnakerfi hefur verið rekið af SvAust undanfarin ár í samstarfi SSA og Vegagerðarinnar. Með samkeyrslu starfsmannaaksturs Alcoa við leiðarkerfi SvAust hefur náðst að tengja saman víðfeðmt atvinnusvæði á Austurlandi. Covid-19 hefur vissulega sett strik í reikninginn í almenningssamgöngukerfinu en miklar takmarkannir, fækkun ferðafólks og ýmsar hömlur vegna sóttvarnareglna urðu til þess að á árinu 2020 varð að aðlaga þjónustuna að ástandinu í samfélaginu. Það eru þó bjartari tímar framundan og mun SvAust halda áfram þróun kerfisins með umhverfis- og notendavænar lausnir að leiðarljósi.
Á árinutók Vegagerðin við rekstri almenningssamgangna af landshlutasamtökum utan höfuðborgarsvæðisins nema á Austurlandi þar sem SSA gerði samning við Vegagerðina. Nú er unnið að útfærslu leiðakerfisins og með hvaða hætti er hægt að gera langtímasamning um þetta verkefni. Þá sótti SvAust um þróunarverkefni í byggðaáætlun og fékk styrk í tvö verkefni sem lýkur í árslok 2021. Austurbrú heldur utan um daglega verkefnastjórn en í stjórn sitja Einar Már Sigurðarson, formaður, Björn Ingimarsson og Jón Björn Hákonarson.
Byggðaáætlun
Landshlutasamtökin tengjast ýmsum verkefnum í gegnum byggðaáætlun og hafa umsjón með sumum þeirra. Þar má nefna að eingöngu landshlutasamtök gátu sótt um framlög til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. SSA sótti um styrk í nokkur verkefni síðla árs 2020 og fékk úthlutað í eitt verkefni sem unnið er að á árinu 2021. Þá er árið 2021 er lokaár verkefnis tengt Sköpunarmiðstöðinni sem fékk úthlutað 2019 styrk til þriggja ára. Á árinu 2020 var unnið að byggðaáætlunarverkefnunum Náttúruvernd og efling byggða með aðkomu Náttúrustofa Austurlands auk þess sem Austurbrú vinnur að greiningu á samstarfi safna á grundvelli áherslna í byggðaáætlun. Þá fékk SvAUST úthlutað síðla árs 2020 úr byggðaáætlun til tveggja verkefna á sviði almenningssamgangna.
Svæðisskipulag
Eitt áhersluverkefna sóknaráætlunar er svæðisskipulag Austurlands. Síðla árs 2020 var skipað í nýja svæðisskipulagsnefnd á grundvelli uppfærðra starfsreglna í framhaldi af sameiningu sveitarfélaga á svæðinu. Með aðstoð Alta var gert stöðumat á verkefninu og útbúin ný framkvæmda- og fjárhagsáætlun fyrir verkefnið. Fjallaði svæðisskipulagsnefnd og stjórn SSA um áætlunina áður en hún var send inn til staðfestingar hjá Skipulagsstofnun um fjárhagslega aðkomu. Skipulagsstofnun hefur staðfest aðkomu að gerð svæðisskipulagsins og er vinna í fullum gangi.
NánarAtvinnuþróunarsjóður Austurlands
Á aðalfundi 2018 var samþykkt tillaga um að leggja Atvinnuþróunarsjóð Austurlands niður og stjórn falið að ganga frá því að leysa sjóðinn upp og ráðstafa eigum hans. Unnið er að niðurlagningu sjóðsins og verið að ganga frá ýmsum málum sem ljúka ætti á árinu 2021.