Þrátt fyrir samkomutakmarkanir voru tímabil þar sem hægt var að funda á staðfundum og náðist þannig á tímabilinu að funda með tveimur sveitarfélögum, nýsameinuðu Múlaþingi og Fjarðabyggð. Á almanaksárinu er jafnframt reiknað með að funda með bæði Vopnafjarðarhreppi og Fljótsdalshreppi. Er þetta í samræmi við áætlanir um að á hverju ári sé fundað í staðfundi einu sinni í hverju sveitarfélagi á starfssvæði SSA. Bæði í Múlaþingi og í Fjarðabyggð var fulltrúum viðkomandi sveitastjórna boðið að koma til fundar við stjórn SSA auk þess sem stjórn fékk kynningu á ýmsum staðbundnum málefnum. Þá fundaði stjórn einnig á Seyðisfirði í janúar 2021 og fékk þar kynningu frá fólki á vettvangi á stöðunni í framhaldi af skriðuföllunum þann 18. desember.

Áfram var lögð áhersla á það á starfsárinu að fá inn á fundi stjórnar gesti þar sem farið hefur verið yfir málefni sem snúa að landshlutanum. Hefur það oltið á tilefninu hverju sinni og verkefnunum hvort gestirnir hafa komið inn á fundi stjórnar SSA eða stjórnar Austurbrúar. Meðal þeirra gesta sem komið hafa til fundar má nefna fulltrúa frá Vegagerðinni, HSA, ISAVIA, Náttúrustofu Austurlands, fulltrúa Múlans og Matís. Einnig hefur verið fundað með þingmönnum kjördæmisins nokkrum sinnum á starfsárinu og tekin var rafrænn fundur á kjördæmadegi bæði haustið 2020 og vorið 2021. Þá hafa fulltrúar stjórnar mætt til fundar bæði hjá fjárlaganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd sem og atvinnuveganefnd. Þess utan var fundað með ráðherrum og þingmönnum bæði á Austurlandi og í Reykjavík.

Á starfsárinu 2020/2021 hafa verið haldnir fjölmargir fundir með ýmsum hópum bæði hjá ráðuneytum sem og öðrum sem óskað hafa eftir samtali við kjörna fulltrúa á starfssvæði SSA. SSA hefur komið að undirbúningi funda og jafnvel komið með fyrirlesara um einstök málefni úr landshlutanum inn á fundina. Ljóst er að með tilkomu aukinnar þekkingar hjá ráðuneytum og stofnunum á rafæna fundaforminu hefur beiðnum um fundi fjölgað og möguleikar fulltrúa til að vera virkir þátttakendur í umræðu um fjölmörg málefni aukist.

Landshlutasamtök sveitarfélaga

Starf landshlutasamtaka sveitarfélaga byggir tilveru sína á ákvæði 97. gr. sveitarstjórnarlaga nr.138/2011 þar sem segir:

Sveitarfélögum er heimilt að starfa saman innan staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna í hverjum landshluta. Starfssvæði landshlutasamtaka fer eftir ákvörðun aðildarsveitarfélaga sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu. Landshlutasamtök skulu þó aldrei vera fleiri en átta á landinu öllu. Sveitarfélög sem liggja innan starfssvæðis landshlutasamtaka eiga rétt á aðild að þeim. Ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega. Landshlutasamtök geta með samningum eða samkvæmt heimildum í sérlögum tekið að sér verkefni eða aðra starfsemi sem tengist hlutverki þeirra skv. 1. mgr., svo sem verkefni tengd byggðaþróun eða öðrum sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga.

Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skipaði starfshóp sem hefur það hlutverk að meta stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga með það að markmiði að skýra hlutverk þeirra og stöðu gagnvart sveitarfélögum annars vegar og ríkinu hins vegar. Hefur hópurinn skilað skýrslu sem landshlutasamtökin skiluðu umsögn um.

Samskipti milli starfsmanna landshlutasamtakanna aukast sífellt enda hefur verkefnum sem samtökin koma að fjölgað í gegnum árin. Þar má nefna nýja samninga um sóknaráætlun, framgang verkefna í byggðaáætlun og þróun almenningssamgangna. Funda framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna reglulega og miðla efni sín á milli. Einnig eiga landshlutasamtökin samstarf um ýmis verkefni sem talin eru gagnast landsbyggðinni í heild.

Skipting fjármuna frá ríkisvaldinu til verkefna í landshlutanum er eitt af viðfangsefnum landshlutasamtakanna. Fulltrúar SSA hafa lagt ríka áherslu á að við skiptingu fjármagns sé tekið tillit til mismunandi aðstæðna landshlutanna, s.s. hvað varðar fjarlægð og þéttleika byggðar.

Alla jafna eru haldnir þrír reglulegir fundir ár hvert þar sem farið er yfir mál sem bera hæst í landshlutunum; haustfundur, vorfundur og sumarfundur. Nú á tímum samkomutakmarkana hefur fundaskipulag breyst og færst yfir í fjarfundi.

Samband íslenskra sveitarfélaga

Samband íslenskra sveitarfélaga gengst fyrir fundum og ráðstefnum sem fulltrúar SSA sækja eftir því sem við á. Þó eru ákveðnar ráðstefnur sem fulltrúar sambandsins sækja árlega, s.s. fjármálaráðstefna og landsþing.

Landsþing var haldið 18. desember 2020 í fyrsta skipti í fjarfundi þar sem áhersla sveitarstjórnarmanna var á frumvarp sveitastjórnarráðherra um breytingu á sveitastjórnarlögum. Jafnframt var landsþing haldið 21. maí 2021 og áherslan er á breytingar á samþykktum sambandsins. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur aukið þjónustu sína við sveitarfélögin jafnt og þétt og er hún landshlutasamtökum mikilvæg. Á árinu var fundað m.a. í tengslum við úrgangsmál, hálendisfrumvapið, stafræna þróun og fleira. Starfsmenn sambandsins eru í reglulegum samskiptum við Austurland og mikið af upplýsingum verið miðlað á milli í tengslum við bæði verkefni og áherslur. Jón Björn Hákonarson, fulltrúi norðausturkjörsvæðis í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, kom tvisvar til fundar við stjórn SSA og fór yfir þau málefni sem unnið er að á vettvangi stjórnar sambandsins.