Ráðgjöf og þjónusta
Innan Austurbrúar er fjölbreytt þekking á ýmsum sviðum og bjóðum við upp á ýmis konar ráðgjöf og þjónustu til einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana. Þrátt fyrir erfitt ár gerðum við okkar allra besta til að sinna þessu hlutverki.
Háskólaþjónusta
Austurbrú veitir þjónustu vegna háskólanáms til nemenda í fjarnámi og til háskólanna vegna nemenda á Austurlandi. Þjónustan felst í að veita nemendum möguleika á námsaðstöðu, hafa viðurkennda próftökuaðstöðu og umsýslu og veita nemendum ráðgjöf.
NánarStuðningur við háskólanema
Austurbrú sinnir stuðningi við fjarnema á háskólastigi samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið. Stuðningurinn felst í ýmis konar ráðgjöf bæði varðandi nám og samskipti við skóla. Nemendur háskólanna geta tekið próf á starfsstöðvunum okkar og er það umfangsmesti liður háskólastuðnings en einnig er töluvert um tæknilega aðstoð s.s. vegna heimildaskráninga, notkun forrita sem gagnast við nám og tilvísanir á hina ýmsu sérfræðinga á svæðinu hvað snertir prófarkalestur og aðra námsaðstoð. Nemendur leita einnig gjarnan til Austurbrúar varðandi prófkvíða, námstækni og vegna samsetningar námsferils.
Náms- og starfsráðgjöf
Náms- og starfsráðgjöf er mjög mikilvæg fyrir fólk með litla eða enga menntun, ekki síst á landsbyggðinni þar sem menntunarstigið er almennt lægra en á höfuðborgarsvæðinu og minna um námsframboð. Náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna hefur verið sinnt á Austurlandi á vegum Austurbrúar. Samningur við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins veitir Austurbrú fjárhagslegan styrk til að sinna verkefninu.
NánarRaunfærnimat
Eitt af viðameiri verkefnum náms- og starfsráðgjafa hjá Austurbrú er að sinna raunfærnimati. Ráðgjafi sinnir bæði hlutverki ráðgjafa og verkefnastjóra í verkefnum Austurbrúar. Markmið með raunfærnimati er að meta óformlegt nám til eininga og staðfesta hæfni einstaklinga. Íbúum Austurlands býðst að taka raunfærnimat í heimabyggð. Minna var um raunfærnimat árið 2020 en árin á undan og féll raunfærnimat Iðunnar niður á tímabili vegna heimsfaraldursins.
NánarAðstoð við fjármögnun
Austurbrú hefur umsjón með Uppbyggingarsjóði Austurlands og veitir ráðgjöf og aðra aðstoð honum tengdum. Stendur m.a. fyrir vinnustofum árlega þar sem umsækjendur fá leiðsögn í gerð góðra umsókna. Atvinnuþróunarráðgjafar okkar leitast við að fylgjast með öðrum fjármögnunarkostum og veittu ráðgjöf við gerð umsókna í fleiri sjóði, má þar nefna Nýsköpunarsjóð námsmanna, Matvælasjóð Íslands og sjóði á vegum Byggðastofnunar.
Nánar um UppbyggingarsjóðNýsköpun og atvinnuþróun
Ráðgjöf tengd menningarstarfsemi
Innan Austurbrúar er býr mikil reynsla þegar kemur að ráðgjöf við listafólk. Líkt og í öðrum atvinnugreinum skapaðist mikil óvissa á árinu og veitti Austurbrú fjölmörg viðtöl og ráðgjöf til að takast á við breyttan veruleika.