Fögur framtíð í Fljótsdal
Markmið verkefnisins Fagrar framtíðar í Fljótsdal (FFF) er að efla og styrkja samfélagið í Fljótsdal með virkri þátttöku og samtali einstaklinga, fyrirtækja og stofnana sem tengjast dalnum með einum eða öðrum hætti. Verkefnið byggir á samstarfssamningi á milli Austurbrúar og Fljótsdalshrepps og hófst síðla árs 2019 og mun standa til ársloka 2022.
NánarBetri Borgarfjörður
Markmiðið með Brothættum byggðum er að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum landsins. Verkefnið er unnið með því að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. Verkefnið er samstarfsverkefni Austurbrúar, Byggðastofnunar og viðkomandi sveitarfélags. Eitt byggðarlag á Austurlandi er nú þátttakandi í verkefninu, Borgarfjörður eystri, og ber verkefnið heitið Betri Borgarfjörður.
NánarRaddir innflytjenda á Austurlandi
Á árinu 2020 voru unnin verkefni sem höfðu þann tilgang að auka vitund almennings á stöðu innflytjenda á Austurlandi. Í júní var haldið málþing í Neskaupstað undir yfirskriftinni Er Austurland fjölmenningarsamfélag? þar sem fram komu sérfræðingar um málefni fólks af erlendum uppruna auk fyrirlesara úr hópi innflytjenda sem sögðu frá reynslu sinni af íslensku samfélagi. Í júlí tóku Austurbrú og Útgáfufélag Austurlands sig saman og gáfu út sérstaka útgáfu af Austurglugganum þar sem allt efni blaðsins var á ensku og tekin viðtöl við fólk af erlendum uppruna.
Heimasíða verkefnisinsÁfallaþjónusta
Bætt þjónusta á sviði geðheilbrigðismála var rædd á haustþingi SSA 2019 og í framhaldi af því var ákveðið að Austurbrú kæmi að því að bæta ferli áfallaþjónustu í landshlutanum. Starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hélt vinnustofu hjá Austurbrú dagana 20.-21. janúar þar sem viðbragðsaðilar voru kynntir fyrir aðferð sem kallast notendavæn þjónustuhönnun. Tilgangur vinnustofunnar var sá að koma fagaðilum í landshlutanum saman að einu borði og greina núverandi stöðu í áfallaþjónustu og endurhanna ferlið svo það verði skilvirkara fyrir íbúa á Austurlandi.
Hæfnihringir
Haustið 2020 voru 26 konur skráðar í Hæfnihringi – stuðning fyrir konur í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni. Myndaðir voru þrír hópar og hver hélt fimm fjarfundi með leiðsögn sérfræðings. Verkefnið er samstarfsverkefni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Vestfjarðarstofu, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Austurbrúar, Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi og Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum/atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar.
Sjálfbærniverkefnið
Austurbrú hefur haldið utan um Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar frá janúar 2013. Verkefnið var sett á laggirnar til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi og hefur vöktun staðið yfir frá árinu 2007. Fjórir starfsmenn Austurbrúar komu að vinnu við verkefnið á árinu 2020. Meginþungi vinnunnar var eins og áður gagnasöfnun, úrvinnsla og uppfærslur á vef. Á árinu var stórt skref stigið þegar settur var í loftið nýr vefur fyrir Sjálfbærniverkefnið.
NánarOrkuskipti á Austurlandi
Í byrjun mars 2020 var haldið málþing þar sem farið var yfir sviðsmyndagreiningu fyrir jarðefniseldsneytislaust Austurland. Í greiningunni sem unnin var innan Austurbrúar var horft til raforku-, varma- og eldsneytisnotkunar og framleiðslu í landshlutanum og hvernig þessir ólíku þættir orkukerfisins muni tvinnast saman í orkukerfi framtíðarinnar á Austurlandi. Málþingið var haldið í samstarfi við Hafið öndvegissetur og fjallaði um vistvænar lausnir í haftengdri starfsemi.
Uppsetning rafhleðslustöðva
Á árinu 2020 var lokið við uppsetningu rafhleðslustöðva og lauk þar með síðasta hluta verkefnis sem var samstarf Austurbrúar, sveitarfélaganna á Austurlandi með styrkveitingu frá Orkusjóði en markmið þess var að liðka fyrir rafbílavæðingu fjórðungsins. Þrettán rafhleðslustöðvar voru settar upp víðs vegar um Austurland. Í Fjarðabyggð voru settar upp fimm stöðvar, í Múlaþingi voru þær sex og Fljótsdalshreppur setti upp tvær stöðvar.
Handiheat
Austurbrú er aðili að verkefninu Handiheat sem styrkt er í gegnum Norðurslóðaáætlun (NPA). Verkefnið er þriggja ára samstarfsverkefni Íslands, Norður-Írlands, Skotlands, Finnlands og Írlands og felst í að deila reynslu og þekkingu í kringum hugtakið orkufátækt. Hlutverk Austurbrúar er að draga saman dæmisögur frá svæðunum um vannýttar orkuauðlindir og lausnir ásamt því að miðla áfram áhugaverðum verkefnum frá samstarfsaðilum. Haldinn var samstarfsfundur á Norður Írlandi rétt áður en Covid-19 skall á í byrjun árs 2020 og fyrirhugaðir samstarfsfundir í Finnlandi og Skotlandi færðust á netið. Stefnt er að verkefninu ljúki með ráðstefnu sem haldin verður í september 2021 í Belfast.
Nánar