Samskipti

Samskipti við þingmenn kjördæmisins eru bæði með formlegum og óformlegum hætti. SSA kom að skipulagningu kjördæmaviku haustið 2022 þar farið var á milli allra sveitarfélaga og fundað með fulltrúum í sveitastjórnum um allt Austurland. Jafnframt var haldinn kynningarfundur fyrir þingmenn um svæðisskipulag Austurlands auk þess sem kynnt var vinnan við markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar fyrir millilandaflug í kjördæmavikunni. Einnig er kjördæmavika að vori en þá hafa flokkarnir sjálfir skipulagt sínar heimsóknir en SSA hefur aðstoða við að miðla upplýsingum um heimsóknir eftir þörfum.

Á árinu var tekin upp sú nýbreyttni að halda fjarfundi þar sem stjórnir landshlutasamtakanna SSA og SSNE funda með þingmönnum kjördæmisins. Áfram er unnið á þessum nótum á árinu 2023 og almennur áhugi á að fjölga reglulegum fundum á milli stjórna landshlutasamtakanna og þingmanna kjördæmisins. Á starfsárinu hafa fulltrúar SSA mætt til fundar hjá ýmsum þingnefndum, ráðherrum, þingmönnum og samstarfsstofnunum bæði á Austurlandi og í Reykjavík.

Á árinu hafa verið haldnir fjölmargir fundir með ýmsum aðilum úr stjórnsýslunni og öðrum hagsmunaaðilum þar sem óskað hefur verið eftir samtali við kjörna fulltrúa á starfssvæði SSA. SSA hefur komið að undirbúningi slíkra funda, tekið þátt í fundarstjórn og/eða jafnvel komið með fyrirlesara um einstök málefni úr landshlutanum inn á fundina. Ljóst er að þörfin eykst fyrir samtal um ýmis málefni sem efst eru á baugi hverju sinni og hefur það sýnt sig að töluvert er leitað til SSA í þeim efnum. Hefur þetta aukið möguleika fulltrúa til að vera virkir þátttakendur í umræðu um fjölmörg málefni sem unnið er að á landsvísu.

Á árinu var tekið á móti nokkrum ráðherrum í heimsókn á Austurland. Aðstoðaði SSA við skipulag heimsókna og var nokkuð um að ráðherrar byðu upp á opna viðtalstíma á skrifstofum Austurbrúar. Aukið aðgengi að beinu samtali við ráðherra fyrir íbúa, frumkvöðla og fyrirtæki ásamt því að miðla upplýsingum um áherslur og sýn landshlutans hefur gefið góða raun og vonir standa til að fleiri ráðherrar nýti sér þessa leið til að koma á Austurland og kynna sér málefnin.

Helstu verkefni SSA á árinu

Svæðisskipulag Austurlands

Stór áfangi náðist á árinu 2022 þegar Svæðisskipulag Austurlands var undirritað, en vinna við verkefnið hefur staðið yfir síðan 2016.

Tilgangur svæðisskipulagsgerðar fyrir Austurland er að marka sameiginlega langtíma framtíðarsýn og meginstefnusveitarfélaganna fjögurra í umhverfis- og byggðamálum, sem stuðlar að því að svæðið geti betur virkað sem landfræðileg, hagræn og félagsleg heild sem aftur styrkir byggðarþróun. Við mótun svæðisskipulagsins er sjónum beint að fjórum sviðum með yfirskriftirnar Góð heimkynni, Land sóknarfæra, Ævintýri líkast og Sterkt samfélag.

Samningur um sóknaráætlun

Stjórn SSA vann að framkvæmd samnings um sóknaráætlun 2020-2024 á starfsárinu. Nú þegar svæðisskipulag Austurlands liggur fyrir þá er unnið að aðlögun annarra verkfæra að þeirri stefnu sem birtist í svæðisskipulaginu s.s. sóknaráætlun, áfangastaðaáætlun og starfsáætlun Austurbrúar. Framundan á árunum 2023-2024 er samningagerð við stjórnvöld um áherslur sem taka við þegar núverandi samningstímabili lýkur. Áhersla hefur verið að auka fjármuni í sóknaráætlun svo hægt sé að vinna fleiri verkefni á forsendum svæðanna. Snemma árs 2022 og 2023 var úthlutað úr Uppbyggingasjóði og skilgreind voru áhersluverkefni af stjórn sem unnið er að á vettvangi Austurbrúar.

Úthlutun Uppbyggingarsjóðs Austurlands:

Seta í skólanefndum

Í árslok 2022 sitja eftirfarandi aðilar í skólanefndum á Austurlandi fyrir hönd SSA:

Í stjórn Hallormsstaðaskóla sitja Ragnar Sigurðsson og Helgi Hlynur Ásgrímsson.
Í skólanefnd Verkmenntaskóla Austurlands sitja Hjördís H. Seljan Þóroddsdóttir og Hlöðvar Hlöðversson.
Í skólanefnd Menntaskólanum á Egilsstöðum sitja Sigrún Birna Björnsdóttir og Magnús Jónsson.

Almenningssamgöngur

Sv-AUST er félag sem er að fullu í eigu SSA. Félagið hélt utan um rekstur almenningssamgangna sem um áramótin 2021/2022 fór yfir til Vegagerðarinnar. Unnið er að frágangi og niðurlagningu félagsins nú á árinu 2023. Í stjórn félagsins sitja Einar Már Sigurðarson, formaður, Björn Ingimarsson og Jón Björn Hákonarson.

SSA stendur enn í málaferlum í tengslum við rekstur almenningssamgangna á Austurlandi sem að uppistöðu til er frá árinu 2012 þegar SSA fór fram á lögbann á grunni sérleyfis. Fjallað er um stöðu málsins í skýringu í ársreikningi SSA.

Á árinu var lokið við tvö greiningar og rannsóknarverkefni sem tengjast almenningssamgöngum sem unnin voru fyrir styrki sem fengust úr byggðaáætlun. Um var að ræða verkefnin Fólk og farmur og Loftbrú.

 

Atvinnuþróunarsjóður Austurlands

Á aðalfundi 2018 var samþykkt tillaga um að leggja Atvinnuþróunarsjóð Austurlands niður og stjórn falið að ganga frá því að leysa sjóðinn upp og ráðstafa eigum hans. Unnið er að niðurlagningu sjóðsins og verið að ganga frá ýmsum málum sem ljúka ætti á vormánuðum 2023.

Byggðaáætlun

Landshlutasamtökin tengjast ýmsum verkefnum í gegnum byggðaáætlun og hafa umsjón með sumum þeirra. Þar má nefna að eingöngu landshlutasamtök gátu sótt um framlög til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. Á árinu 2022 var lokið við verkefni sem ber heitið „Austurland – áfangastaður fyrir störf án staðsetningar“ og var þar búinn til vettvangur og áherslur á að miðla aðstöðu fyrir óstaðbundin störf á Austurlandi. Þá sótti SSA einnig um sértæk verkefni fyrir árið 2023 og fékk úthlutað í tvö verkefni „Vatnaskil“ og „Straumhvörf“ og er unnið að þeim verkefnum innan Austurbrúar í samstarfi við ýmsa samstarfsaðila innan og utan Austurlands.

Nánar:

Verkefnastjórnir tengdar einstökum verkefnum

SSA átti fulltrúa í verkefnastjórnun Brothættra byggða á starfsárinu. Árið 2021 var lokaár Borgarfjarðar eystri í verkefninu og var haldinn lokafundur í verkefninu á árinu 2022. Verkefnastjórnin í Betri Borgarfjörður mun ljúka störfum núna 2023 og situr Stefán Bogi Sveinsson sem fulltrúi SSA í verkefnastjórninni. Stöðvarfjörður er nýtt byggðalag í þessu verkefni og hófst vinnan með íbúafundi í mars 2022 og fékk verkefnið þar heitið Sterkur Stöðvarfjörður. Í verkefnastjórninni situr Alda Marín Kristinsdóttir sem aðalmaður fyrir Austurbrú/SSA og Ásdís Helga Bjarnadóttir sem varamaður. Verkefnið Brothættar byggðir er leitt af Byggðastofnun en dagleg verkefnastjórn er í höndum starfsmanna Austurbrúar.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA, situr í verkefnastjórn Seyðisfjarðarverkefnisins og byggir hún á grunni samnings stjórnvalda við Austurbrú og Múlaþing sem til kom í framhaldi af aurskriðum er féllu í desember 2020.

Í ofangreindum verkefnastjórnum var reglulega fundað á árinu en jafnframt sitja formaður og framkvæmdastjóri auk þess í ýmsum starfshópum og samráðsvettvöngum þar sem fundað er reglulega.