Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044. Undirritun í RVK 12. okt. 2022

Vinna við svæðisskipulagið hefur staðið yfir síðan 2016 og því óhætt að segja að nokkur léttir hafi verið meðal viðstaddra en undirritunin fór fram í húsnæði Skipulagsstofnunar í Reykjavík. Fjöldi manns hefur komið að vinnu við svæðisskipulagsgerðina þótt mest vinna hafi farið fram innan svæðisskipulagsnefndar SSA sem fundað hefur stíft allra síðustu misseri og notið dyggrar aðstoðar ráðgjafafyrirtækisins ALTA sem sérhæfir sig í skipulagi og byggðamálum.

Svæðisskipulagið var samþykkt af svæðisskipulagsnefnd SSA og sveitarstjórnum á Austurlandi í september. Í kjölfarið var það sent til Skipulagsstofnunar til umsagnar og lauk þeirri yfirferð í síðustu viku. Það vildi svo til að allir bæjar- og sveitarstjórar Austurlands voru í Reykjavík í gær vegna árlegrar fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna og því kjörið tækifæri til að undirrita Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044.

Stór dagur fyrir Austurland

Bæjar- og sveitarstjórar Austurlands voru að vonum ánægðir með daginn:

„Þetta skiptir máli fyrir Austurland,“ sagði Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps. „Hér erum við að vinna saman í ákveðna átt og stefnan hefur verið mörkuð til framtíðar.“

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings sagði: „Þetta plagg hefur mikla þýðingu. Við erum að hefja aðalskipulagsvinnu fyrir Múlaþing og það að hafa samþykkt og afgreitt svæðisskipulag fyrir Austurland skiptir miklu máli fyrir þá vinnu.“

Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdal, sagði: „Það er stórkostlegt að vera búin að ljúka þessu mikla verki og móta ákveðna stefnu fyrir fjórðunginn.“

„Þetta er stór dagur,“ sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar við tilefnið. „Hér eru stigin mikil framfaraskref fyrir sveitarfélögin fjögur sem nú eru á Austurlandi.“

Góð niðurstaða

„Þetta er gríðarlega stór dagur,“ sagði Eydís Ásbjörnsdóttir, varaformaður svæðisskipulagsnefndar SSA, í gær en hún hefur tekið þátt í vinnu við skipulagsgerðina frá upphafi. „Ég er mjög sátt við niðurstöðuna. Þetta hefur tekið langan tíma en skipulagið er vandað og ég veit að það mun gagnast Austurlandi vel.“

Stefán Bogi Sveinsson, formaður svæðisskipulagsnefndar SSA 2021-2022, tekur undir með Eydísi: „Þetta er mikið gleðiefni en þetta eru ekki verklok. Þetta er áfangi. Nú tekur við að útfæra og framfylgja þeirri stefnu sem þarna liggur fyrir og þannig getum við náð markmiðum okkar um eflingu Austurlands.“

Fjórir meginkaflar

Svæðisskipulags Austurlands 2022-2044 og stórt og vandað plagg, ríkulega myndskreytt og er aðgengilegt á heimasíðu Austurbrúar auk umhverfismatsskýrslu. Það er 140 blaðsíður og skipt upp fjóra meginkafla þar sem dregin er upp framtíðarsýn fyrir Austurland út frá umhverfi, atvinnulífi, samfélagi og menningu. Sýnin er útfærð með meginmarkmiðum fyrir þessi fjögur svið, undir kjörorðunum:

  • Austurland – góð heimkynni
  • Austurland – svæði sóknarfæra
  • Austurland – sterkt samfélag
  • Austurland – ævintýri líkast

Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda en áætlað er að auglýsing þess efnis verði birt 26. október næstkomandi.

Mynd að ofan: Þau sem undirrituðu Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 voru frá vinstri:  Ólafur Árnason forstjóri Skipulagsstofunar, Helgi Gíslason sveitastjóri Fljótsdalshrepps, Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, Jón Björn Hákonaron bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Ljósmyndir: Esther Ösp Gunnarsdóttir, Austurbrú

Skoða Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044

Nánari upplýsingar