Starfsfólk
Í júní 2023 tók Dagmar Ýr Stefánsdóttir við sem framkvæmdastjóri af Jónu Árnýju Þórðardóttur sem starfaði hjá Austurbrú frá 2014.
Hjá Austurbrú starfa að jafnaði um 22 verkefnastjórar í fullu starfi (í 21,8 stöðugildum) á 7 starfsstöðvum um allt Austurland.
Litlar breytingar hafa verið á starfsmannahópnum milli ára. Verkefnin eru fjölbreytt og þannig vinna allnokkur að fleiri en einum málaflokki þótt flest beri að jafnaði ábyrgð á einu meginverkefni.
Starfsþróun og stefnur
Starfþróun starfsfólks Austurbrúar var áhersluverkefni mannauðsmála 2023 og voru haldnar tvær vinnustofur með Franklin Covey á Íslandi til að innleiða samræmda verkefnastjórnun. Starfsfólk fór í námsferð til Ítalíu í maí 2023 þar sem upphafsstaður Citta slow hreyfingarinnar var heimsóttur í Orvieto.
Unnið er að endurskoðun og uppfærslum á hinum ýmsu stefnum Austurbrúar og verða þær unnar af starfsfólki, lagðar fyrir stjórnendateymi og stjórn sem þarf að samþykkja þær áður en uppfærslan verður staðfest. Gert er ráð fyrir að þær verði tilbúnar fyrir ársfund 2024.
Stjórn og nefndir
Stjórn Austurbrúar er skipuð sjö aðalmönnum; fimm af vettvangi sveitarstjórnarmála (sem eru jafnframt stjórnarmenn SSA) og tveimur af vettvangi atvinnulífs, menningar og menntunar.
Stjórnarmenn eru: Berglind Harpa Svavarsdóttir formaður, Múlaþingi, Þuríður Lillý Sigurðardóttir varaformaður, Fjarðabyggð, Ragnar Sigurðsson Fjarðabyggð, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Múlaþingi, Axel Örn Sveinbjörnsson Vopnafjarðarhreppi, Jóhann F. Þórhallsson áheyrnarfulltrúi, Fljótsdalshreppi, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, Afli starfsgreinafélagi og Sæunn Stefánsdóttir, Háskóla Íslands.
Nefndir á vegum Austurbrúar eru fagráð, starfsháttanefnd og siðanefnd.
NánarJafnlaunavottun
Austurbrú lauk fyrsta tímabili jafnlaunavottunar sem stóð í 3 ár og hlaut endurvottun 2023. Versa vottun sér um vottunarúttektir Austurbrúar og er farið árlega yfir stöðu jafnlaunakerfis með þeim. Innan Austurbrúar sinnir starfsfólk hlutverkum vottunaraðila þar sem þeir vinna í pörum að úttekt ákveðinna þátta kerfisins. Þannig er reynt að tryggja að starfsfólk sé meðvitað um jafnlaunakerfið og hlutverk þess.
Viðurkennd fræðslustofnun
Austurbrú er viðurkennd fræðslustofnun og hluti af þeirri viðurkenningu felst í að reka viðurkennt gæðakerfi varðandi fræðslumál. Kerfið kallast EQM og hefur Austurbrú notað kerfið frá upphafi.
Kynningarmál
Eitt hlutverka Austurbrúar er að fræða og upplýsa. Austurbrú hélt t.a.m. áfram úti hlaðvarpinu Austurland hlaðvarp með það að markmiði að miðla upplýsingum um starf stofnunarinnar. Helstu fréttir af starfsemi Austurbrúar má lesa á vef stofnunarinnar og samfélagsmiðlum.