Áhersluverkefni Sóknaráætlunar
Menningarstarf á Austurlandi er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Austurlands 2021 unnið af Austurbrú. Verkefnið felst í áframhaldandi uppbyggingu menningar á Austurlandi líkt og lengi hefur verið. Starfsmenn Austurbrúar sinna mismunandi verkefnum á sviði menningar í landshlutanum og út fyrir hann. Talsverður þáttur í þeirri vinnu er ýmis konar samstarf við sveitarfélög, menningarstofnanir og landshlutasamtök. Þá er ráðgjöf og hvatning til starfandi listamanna í landshlutanum hluti af starfinu og listamenn víða að leita til Austurbrúar til að mynda tengsl á Austurlandi.
Stóru verkefnin
Stóra verkefni Austurbrúar í menningarmálum síðustu fjögur ár er uppbygging BRAS (sjá neðar). Þá er unnið að því að efla Daga myrkurs (sjá neðar). Bæði þessi verkefni kalla á öflun fjármagns í gegnum sjóði, sveitarfélög og fyrirtæki og er sú vinna á höndum Austurbrúar, auk verkefnastjórnar og allrar umsýslu þótt að samstarfsaðilarnir séu margir og stefnumörkun sé í höndum stýrihópa verkefnanna. Hjá Austurbrú er menningin hluti af áfangastaðauppbyggingu Austurlands auk þess sem starfsmenn í menningarmálum koma að uppbyggingu matarmenningar í landshlutanum.
Fjölbreytt verkefni
Samstarf menningarmiðstöðvanna þriggja er leitt af Austurbrú auk samstarfs við verkefni eins og List fyrir alla og margra annarra verkefna í lengri eða styttri tíma. Reglulegir fundir menningarfulltrúa landshluta hafa að mestu farið fram á netinu árið 2021.
Hluti af þessu áhersluverkefni Sóknaráætlunar er efling menningar í jaðarbyggðum Austurlands; Djúpavogi og Vopnafirði. Sveitarfélögin leggja jafnmikið fjármagn á móti og er það fyrst og fremst ætlað, líkt og hjá menningarmiðstöðvunum, til nýsköpunar og þróunarvinnu á sviði lista, menningar og menningarlæsis. Mismunandi verkefni eru þar í gangi hverju sinni en heimsfaraldurinn setti svip sinn á framkvæmd þeirra verkefna líkt og margra annara.
Austurbrú vann skýrslu um stöðu safna á Austurlandi. Skýrslan var fýsileikakönnun á því hvort áhugi væri á sameiningu safna á Austurlandi og eða hvort ástæða væri til að söfn á Austurlandi ynnu meira saman.
BRAS
BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi var haldin í fjórða sinn á árinu og stóð yfir frá miðjum september fram yfir miðjan október. Einkunnarorð hátíðarinnar voru áfram Þora! Vera! Gera! og þema ársins var Unga fólkið og umhverfið og var unnið út frá 24. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Austurbrú stýrði verkefninu í góðu samstarfi við menningarmiðstöðvarnar þrjár á Austurlandi. Nokkrum viðburðum þurfti að breyta vegna alheimsfaraldurs en þrátt fyrir ýmisleg áhrif faraldursins tókst að halda upp fjölbreyttu og öflugu listar- og menningarstarfi fyrir börn og ungmenni á Austurlandi.
Landvernd og Menntaskólinn á Egilsstöðum komu inn sem nýir samstarfsaðilar með verkefni sem nefndist Loftslagsskólinn þar sem nemendur kynntust loftslagsmálum í víðu samhengi og sköpuðu þau síðan sína eigin framtíðarsýn. Einnig var gott samstarf við Skógræktina sem gaf birkitré til gróðursetningar um allan fjórðunginn í samstarfi við foreldrafélög og skógræktarfélög. Sveitarfélögin á Austurlandi, skólar og ýmsar stofnanir tóku virkan þátt og buðu upp á fjölbreytta viðburði í öllum byggðakjörnum. Þátttaka var almennt góð og í könnun sem lögð var fyrir í nóvember kom fram mikil ánægja með framkvæmd og tilurð BRAS.
Umfjöllun á N4Dagar myrkurs
Byggða- og samveruhátíðin Dagar myrkurs var haldin í október og hélt Austurbrú utan um skipulag og markaðssetningu að vanda í samvinnu við stýrihóp verkefnisins. Unnið var á sama grunni og árið áður út frá aðgerðaáætlun sem stýrihópur verkefnisins samþykkti 2019: „Dagar myrkurs er sameiginleg byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi sem hefur það að markmiði að hvetja til samveru íbúa. Hátíðin hefur sterka tengingu við íslenska og keltneska siði frá fornri tíð.“.
Sameiginlegur búningadagur var haldinn um allan fjórðung, ljósmyndasamkeppni og samkeppni um best skreytta gluggann fóru fram auk þess sem verslanir, veitingastaðir og stofnanir voru hvött til að vera með tilboð á vörum og þjónustu. Gaman var að sjá fjölgun á einstaklingsframtaki, en íbúar Austurlands bjóða æ oftar uppá viðburði í sinni heimabyggð. Mikil fjölgun var á þátttöku og viðburðum frá árinu áður og voru þeir um 50 talsins, af ýmsum toga.