Dagar myrkurs gengu vel í ár, eins þeir gera raunar alltaf,“ segir Halldóra Dröfn Halldórsdóttir. „Við sem að hátíðinni stöndum erum alsæl með þátttökuna sem fór fram úr björtustu vonum. Fjölmargir viðburðir voru um allan fjórðunginn og áberandi hversu fjölbreyttir þeir voru, t.d. tilboð hjá veitinga- og söluaðilum, tónleikar, bíó, gjörningar, innsetningar, útivera, ratleikir og margt fleira.

Eins og undanfarin ár var haldin ljósmyndasamkeppni og bárust alls 47 myndir frá 20 þátttakendum. Sigurvegarinn í ár er Ásgeir Metúsalemsson frá Reyðarfirði en myndin hans sýnir þorpið á Reyðarfirði í fallegri birtu þar sem veturinn fer mildum höndum um fjörðinn og þorpið. Hlýtur hann 50.000 kr. verðlaun. Sérstök aukaverðlaun voru einnig veitt í ár en það var Jens Einarsson á Egilsstöðum sem hlaut þau fyrir myndina Stokkið í myrkrið. Þátttakendum eru sendar sérstakar þakkir og var dómnefndin sammála um að mjög erfitt hefði verið að velja myndirnar því þær voru margar og mjög frambærilegar.

Að auki voru einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir hvattar til að skreyta glugga og ákvað stýrihópur Daga myrkurs að blása einnig til keppni í þeim flokki. Alls sendu 13 þátttakendur inn myndir af gluggum og voru veitt þrenn verðlaun. Fyrstu verðlaun hlaut Lilja Sigurðardóttir frá Ormsstöðum í Eiðaþinghá en hún skreytti glugga hússins með litaglöðum og skemmtilegum myndum. Önnur verðlaun féllu í skaut Kristínar Hávarðsdóttur í Neskaupstað en glugginn á hennar heimili skipti um ham þegar myrkrið skall á. Þriðju verðlaunin fóru í Egilsstaði til Helgu Hermannsdóttur og fjölskyldu. Allar vinningsmyndirnar má skoða hér að neðan.

Ásgeir Metúsalemsson, sigurvegari ljósmyndasamkeppni Daga myrkurs 2021.

Sérstakar þakkir fyrir þátttöku fá svo leikskólabörn í Leikskólanum á Seyðisfirði og 2.-3. bekkur í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar auk þessa sem börn víða af svæðinu sendu myndir af gluggum frá sínum heimilum. Þá fá starfsmenn VÍS á Egilsstöðum sérstakt hrós fyrir að senda inn myndir af „hræðilegum“ gluggum á vinnustaðnum og vonumst við til að fleiri taki þátt að ári.

„Að lokum viljum við sérstaklega þakka og hrósa fjórum fyrirtækjum á Austurlandi sem styrktu Daga myrkurs með gjafabréfum til vinningshafa í gluggasamkeppninni og aukaverðlaunanna í ljósmyndasamkeppninni,“ segir Halldóra. „Þau eru: Vök Baths, Tehúsið, Herðubíó og Skíðasvæðið í Stafdal.“

Veturinn er hafinn og við taka dimmir og langir dagar en við getum áfram stytt okkur stundir og glatt hvert annað með viðburðum og samverustundum þó Dagar myrkurs standi ekki lengur yfir. Austurland er góður staður til að búa á og samstarf og samtal er besta leiðin til að tryggja vöxt og framgang í fjórðungnum.

Við þökkum öllum Austfirðingum fyrir þátttöku á Dögum myrkurs.