Safnaskýrsla. Jessica Auer.

Áhugi á auknu samstarfi

„Í skýrslunni koma fram ýmsar hugmyndir um hvernig slík samvinna gæti litið út og það er hlutverk okkar hjá Austurbrú að stuðla að og styðja við bakið á slíkri viðleitni“ – Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú.

Könnunin var liður í aðgerðum sem skilgreind eru í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 (liður C.14 – Samstarf safna – ábyrgðarsöfn) sem samþykkt var á Alþingi þann 11. júní 2018. Samband sveitarfélaga á Austurlandi fól Austurbrú að hafa yfirumsjón með verkefninu en árangur þess verður að lokum mældur í fjölda safna sem hefja samstarf eða sameinast.

Víðtæk gagnaöflun

Verkefnið var framkvæmt á árunum 2020 og 2021 en um var að ræða fýsileikakönnun á auknu samstarfi eða sameiningu safna á Austurlandi. Við framkvæmdina var stuðst við eigindlega rannsóknaraðferð. Tekin voru opin viðtöl við forsvarsmenn fjögurra viðurkenndra safna á Austurlandi og ellefu óviðurkenndra safna. Þá var rætt við við stjórnarformenn þriggja safna og sveitarstjórnarfólk í Fjarðabyggð og Múlaþingi. Einnig voru tekin viðtöl við framkvæmdastjóra safnaráðs og forstöðumenn tveggja höfuðsafna, Náttúruminjasafns Íslands og Listasafns Íslands og þá voru fengnar upplýsingar af heimasíðum safnanna, úr ársreikningaskrám og annars staðar á veraldarvefnum en með skýrslunni fylgir ítarleg heimildaskrá.

Hagur af samstarfi

Helsta niðurstaða könnunarinnar er sú að austfirsk söfn, setur og sýningar séu fjölmörg og fjölbreytt. Í þeim liggi mikil tækifæri varðandi varðveislu og tengingu við samfélagið fyrr og nú, ferðaþjónustu, fræðslustarf og aðrar skapandi greinar. Flestar, ef ekki allar rekstrareiningarnar, líði þó fyrir fjárskort og undirmönnun og ná þannig ekki „því flugi sem þær gætu“ líkt og það er orðað í skýrslunni. Þar segir ennfremur:

„Mikill tími forstöðumanna (og á stundum eina starfsmanns viðkomandi einingar) fer í rekstrartengt starf, að tryggja fjármagn til reksturs og aðra umsýslu sem kemur niður á framþróun í faglegu starfi. Nauðsynlegt er að finna leiðir til þess að minnka umfang þeirrar vinnu með sameiningu, auknu rekstrarfé, breyttu rekstrarformi, útvistun verkefna eða öðru til að skapa rými fyrir þann slagkraft sem nauðsynlegur er til þess að söfnin og safnatengd starfsemi nái að styrkjast og ná því flugi sem hún ætti að geta náð.“

Þá kemur fram að að meðaltal stöðugilda, rekstrartekjur og gestafjöldi viðurkenndra safna er lægstur á Austurlandi ef horft er til landsins í heild.

Samtalið mikilvægt

Á næstu vikum verða niðurstöður skýrslunnar kynntar fulltrúum safna og sveitarfélaga í landshlutanum og mörkuð stefna til framtíðar. „Þótt það séu vissulega ekki góð tíðindi að við séum eftirbátar annarra landshluta þegar kemur að fjölda stöðugilda og rekstrartekna virðist augljóst að safnageirinn er lausnamiðaður og jákvæður fyrir frekara samstarfi,“ segir Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú. „Í skýrslunni koma fram ýmsar hugmyndir um hvernig slík samvinna gæti litið út og það er hlutverk okkar hjá Austurbrú að stuðla að og styðja við bakið á slíkri viðleitni.“

Sjá skýrslu

Nánari upplýsingar


Signý Ormarsdóttir

470 3811 // [email protected]