Hátíðin hefur verið haldin á hverju ári nú í rúm 20 ár og er markmið hennar að við bjóðum hverju öðru upp á skemmtilega afþreyingu í svartasta skammdeginu.  Það gerum við með því að búa til viðburði sem lýsa upp myrkrið, viðburði sem fela í sér rómantík, drauga, fornar hefðir í bland við nýjar um leið og við gætum að sjálfsögðu að persónulegum sóttvörnum í hvívetna.

Fjölbreytt dagskrá um allan fjórðunginn

Margt annað verður í boði, hryllings- og draugabíó auk þess sem heimildarmyndin Hálfur álfur verður sýnd í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði.  Þá verða ýmsir tónleikar í boði, Charles Ross verður með lifandi flutning í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum sem nefnist „The Spawning Pools“ auk þess sem við fáum góða gesti að sunnan t.d. þá Benna Hemm Hemm og Jónsa.  Í Skriðuklaustri verður blönduð dagskrá í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Óskars Halldórssonar, kennara og fræðimanns frá Kóreksstaðagerði sem m.a. stóð fyrir nýrri útgáfu á þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar upp úr 1980.

Félagasamtök, skógræktarfélög, ferðafélög, félög eldri borgara o.fl. bjóða uppá gönguferðir, samverustundir, furðufatasjósund og innsetningar svo fátt eitt sé nefnt.  Veitingastaðir og þjónustustofnanir eru með tilboð á veitingum og þjónustu og t.d er hægt að fara í Neskaupstað og upplifa suður ameríska bragðaukaveislu í anda Day of the dead, á Djúpavogi er hægt að fara í Við Voginn og smakka blóðuga eftirrétti, köngulóarmúffur, draugasúpu o.fl.  Hægt er að fara í Sviðaveislu í Hamarsfirði og margt fleira.

Við hvetjum íbúaa, fyrirtæki og stofnanir að lýsa upp sitt nánasta umhverfi og að fólk noti tækifærið og gangi um í sínum byggðakjörnum og njóti.  Auk þessa er hvatt til samveru fjölskyldna, t.d. er hægt að koma saman og skera út í grasker og/eða rófur, eins og gert var til forna.  Taka myndir af listaverkunum og setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #dagarmyrkurs.  Þá er einnig hægt að baka alls konar kökur, t.d. bollakökur sem hægt er að skreyta á fjölbreyttan hátt.  Þannig getum við fengið hugmyndir hvert hjá öðru og átt góðar samverustundir saman.

Föstudaginn 29. október ætlum við að hafa búningadag í öllum fjórðungnum.  Þennan dag eru fyrirtæki, skólar og aðrar stofnanir sérstaklega hvattar til að gera sér glaðan dag, hægt er að veita verðlaun innan fyrirtækja fyrir frumlegasta búninginn, fallegasta búninginn og/eða hræðilegasta búninginn.  Og munum að vera dugleg að taka myndir og setja á samfélagsmiðla.

Minnt er á að hátíðin á sér sterkar rætur en uppruna Hrekkjavöku, sem haldin er 31. október ár hvert, má rekja  til Kelta. Til forna færðu þeir þakkir fyrir uppskeru sumarsins og kölluðu hátíðina sína hátíð hinna dauðu. Sambærileg hátíð var haldin á Íslandi fyrir kristnitöku er kölluð var Veturnætur og hefur þjóðfræðingurinn Terry Gunnell bent á að Hrekkajvökuhátíðin eigi sér þannig í raun íslenskan uppruna. Þessi keltneska/íslenska hátíð fluttist síðan til vesturheims með Keltum og þekkjum við hana í dag sem Hrekkjavöku. Hefð hefur því skapast fyrir því að tvinna saman þessar fornu hefðir og gera þær að okkar byggðahátíð um vetur.

Nánari upplýsingar


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]