Ratsjá
Árið hófst m.a. á verkefninu Ratsjá þar sem átta ferðaþjónustuaðilar á svæðinu tók þátt í nokkurra mánaða verkefni sem var samstarfsverkefni með Íslenska ferðaklasanum. Verkefnið er verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína. Horft er til að Ratsjáin haldi áfram á næsta ári.
NánarVetrarferða- þjónusta
Ljóst er að tækifæri landshlutans felast í aukinni þróun heilsársferðaþjónustu. Innviðir til afþreyingar að vetri til eru töluverðir í landshlutanum. Samstarf Stafdals og Oddsskarðs hélt áfram og unnið var að sameiginlegum passa svæðanna.
Einnig var lögð sérstök áhersla á veturinn í allri markaðssetningu; viðburði, helgarferðir og skíðaferðir. Covid-19 litaði þó allt árið og skíðasvæðin voru talsvert lokuð vegna takmarkana.
Ferðaleiðir
Sérstök áhersla var lögð á ferðaleiðirnar á Austurlandi í allri markaðssetningu; á vefnum, samfélagsmiðlum eða í annarri umfjöllun. Leiðirnar fengu ný heiti og uppfærðar upplýsingar og mun sú þróun halda áfram á þeim á næstu misserum. Leiðirnar bera nú íslensku: Austurströndin, Flakkað um firði, Við ysta haf, Fljótsdalshringurinn og Um öræfi og dali. Eitt stærsta verkefnið var fimm þættir um hverja ferðaleið sem unnið var með N4 en samkvæmt áhorfstölum hafa þættirnir náð til um 90.000 manns á öllum miðlum. Einnig voru búin til ný borðkort fyrir ferðaleiðirnar sem hafa aldrei verið vinsælli, auk sýnileika í sjónvarpi, útvarp og fleiri miðlum.
Matarauður Austurlands
Samstarfsverkefnið Matarauður Austurlands setti af stað verkefnið Láttu stjörnuna leiða þig þar sem ætlunin er að gefa austfirskum vörum hátt undir höfði í verslunum á svæðinu. Vörur eru nú merktar með Austurlandsstjörnunni og verður enn frekari áhersla lögð á þetta verkefni í vetur.
Í byrjun október var Matarmót haldið á Egilsstöðum. Matarmótið var hluti af viðburðahelginni Okkur að góðu sem hófst fimmtudaginn 30. september á ráðstefnunni Nordic Food in Tourism og endaði á úrslitum í hugmynda- og nýsköpunarkeppninni Hacking Austurland.
NánarMyndabanki
Á árinu hefur Austurbrú unnið að þróun myndabanka fyrir svæðið. Bankinn einfaldar og eykur aðgengi að myndefni frá Austurlandi til muna auk þess að vera góð gagnageymsla fyrir útgefið efni. Þessi lausn býður upp á ýmis tækifæri fyrir erlendar ferðaskrifstofur, ferðaþjónustu og samstarfsaðila, enda hægt að leita í myndabankanum eftir allskyns forsendum, s.s. árstíð, staðsetningu og efnistökum. Hugbúnaðarlausnin sem notast er við er frá Datadwell og er í stöðugri þróun.
Upplifðu
Á árinu hefur, sem endranær, verið unnið með gerð efnis og hannað hefur verið nýtt verkfæri með markaðsstofum landshlutanna undir heitinu Upplifðu. Viðmótið er í vinnslu og mun það verða unnið af krafti áfram með Íslandsstofu og markaðsstofunum og stendur til að það verði aðgengilegt á árinu 2022. Viðmótið er byggt upp þannig að ferðalangar skrá hvaða akstursleið þeir ætla að keyra, bæta við áhugaverðum stöðum á leið sinni og þá verður til leiðarlýsing og myndband með skotum frá áfangastöðunum.
Austurland er með yfir 100 áfangastaði í Upplifðu og því hefur okkar lager af drónatökum reynst okkur vel við vinnslu og þróun viðmótsins. Tökur fóru fram síðsumars í samstarfi við Sahara þar sem stöðum var bætt við bakendann.
Austurlandsappið
Ný uppfærsla á Austurlandsappinu fór í loftið í maí. Ýmis tækifæri eru fólgin í notkun á appi og geta ferðaskrifstofur og aðrir aðilar nýtt sér það bæði til að sjá yfirlit yfir viðburði og þjónustu á svæðinu en einnig til að koma skilaboðum áleiðis. Appið er nú þegar orðið ákveðið verkfæri fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu til að koma vörum á framfæri og birta ferðaleiðir. Appið er mest notað fyrir viðburði á svæðinu og hafa um 11 þúsund manns náð í það, bæði á íslensku og ensku.
Sækja appið: AppStore Apple / Google Play
Fundir ferðaþjónustunnar
Á árinu hélt Austurbrú nokkra þematengda morgunfundi. Þemu voru: Markaðsmál ferðaþjónustunnar og sumarið, Covid-úrræðin og þinn rekstur, vetraráætlun, ráðstefnu-, funda- og hvataferðaþjónusta, samfélagsmiðlar og seglar.
Haustfundur ferðaþjónustunnar á Austurlandi fór fram á Hallormsstað í nóvember og var hann mjög vel sóttur. Á fundinum voru hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Austurlandi veitt í fyrsta sinn síðan árið 2014 en nú var ákveðið að endurvekja þessa skemmtilegu hefð nú til að hvetja ferðaþjóna í landshlutanum áfram til góðra verka. Í tengslum við haustfund ferðaþjónustunnar var farið í Með í ferð þar sem markmiðið var að kynna eina ferðaleið fyrir gestum fundarins og ferðaþjónustuaðila.
Tengsl við söluaðila ferðaþjónustu
Verkefnið snýr að tengslamyndun við innlendar og erlendar ferðaskrifstofur sem selja Austurland. Myndun tengslanets er mikilvægur liður í markaðsetningu áfangastaðar og eru ferðasýningar á borð við Vestnorden, ITB o.fl. frábær vettvangur til þess að kynna landshlutann.
Árið 2021 litaðist af heimsfaraldrinum og voru því fáar ferðasýningar í byrjun árs. Vest Norden var þó haldin á Reykjanesi og fóru starfsmenn Austurbrúar á þá sýningu.
Frá hugmynd að veruleika
Austurbrú í samvinnu við landshlutasamtök lét vinna myndbönd til að efla stuðning við frumkvöðla á landsbyggðinni. Myndböndin, sem eru sex talsins, stutt og gagnleg og fjallar hvert þeirra um afmarkað efni; rekstrarform, viðskiptaáætlun, markaðssetning, styrkir og sjóðir, markaðssetning á samfélagsmiðlum og virði vörunnar. Þegar horft hefur verið á efnið er hægt að hafa samband við ráðgjafa Austurbrúar til frekari ráðgjafar.
NánarHacking Austurland
Austurbrú í samstarfi við Íslenska ferðaklasann, Hacking Hekla og fleiri stóðu fyrir þriggja daga viðburðum á Austurlandi í tengdum matarupplifun og nýsköpun tengt Bláu auðlindinni dagana 30. september – 2. október sem voru hluti af Okkur að góðu.
Lausnamótið Hacking Austurland var haldið á Austurlandi. Unnið var að því að þróa lausnir við áskorunum tengdum bláu auðlindinni. Markmið lausnamótsins var að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og stuðla þannig að nýjum verkefnum og viðskiptatækifærum. Hvernig hægt væri að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi með því að nýta tækni og nýjar aðferðir á skapandi hátt. Útkoman úr lausnamótinu gat orðið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður, markaðsherferð eða annað í þeim dúr. Vinningshafi var verkefnið Sjávar Ylur og frumlegasta hugmyndin var Underwather Adventure.
NánarNýsköpunarkeppni fyrir grunnskóla
Austurbrú, í samstarfi við Verkmenntaskólann á Austurlandi og Tæknidaginn, Matís og Grunnskóla Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Nesskóla, stóðu að nýsköpunarkeppni í sjávarútvegi haustið 2021. Keppnin var fyrir ungt fólk í 9. eða 10. bekk en báðir árgangar höfðu lokið við sjávarútvegsskólann þar sem þau kynnast sjávarútveginum vel. Allir nemendur fengu sama hráefni sem eru kvarnir úr Makríl en í dag eru kvarnir úr fiski ekkert nýttar. Kvarnir eru kalksteinar sem finnast í haus allra beinfiska og hafa þær verið notaðar til þess að greina aldur fiska, líkt og gert er með árhringi í trjám.
Hæfnihringir
Austurbrú tók þátt í samstarfsverkefni landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélaga er lýtur að stuðningi við konur í fyrirtækjarekstri. Verkefnið hófst í febrúar og stóð yfir í um sex vikur í fjarfundi. Alls tóku 40 konur þátt í verkefninu sem skipt var í sex hópa, þvert á landshlutana. Skráningar af Austurlandi voru sex.
Með þátttöku í Hæfnihringjum fá konur á landsbyggðinni aðgang að fræðslu sem snertir reksturinn þeirra og dýrmætt tengslanet við konur sem standa í svipuðum sporum og geta miðlað af sinni reynslu. Verkefnið er byggt á jafningjafræðslu og aðferðafræði sem kallast aðgerðanám sem grundvallast á því að nota raunverulegar áskoranir, verkefni og tækifæri sem grunn fyrir lærdóm. Í hópunum var meðal annars farið yfir markmiðasetningu, tímastjórnun og markaðssetningu á samfélagsmiðlum.