Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Býr í þér frumkvöðull?

„Við ætlum að biðja þátttakendur að takast á við áskoranir sem miða að því að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi“ –  Arnfríður Eide Hafþórsdóttir hjá Austurbrú.

Lausnamótið HACKING AUSTURLAND er hluti af dagskrá OKKUR AÐ GÓÐU sem fer fram á Austurlandi 30. september til 2. október.

Tengslanetið stækkað

„Lausnamótið byrjar á fimmtudegi,“ útskýrir Arnfríður. „Þá munu þátttakendur velta þessum spurningum fyrir sér og svo raða sér niður í teymi með öðrum þátttakendum og takast á við verkefnið. Þetta er mikil vinna í stuttan tíma, virkilega skemmtileg og spennandi, og hentar í raun öllum sem þora að stíga aðeins út fyrir þægindarammann.“

„Markmiðið er ekki endilega að þátttakendur komi með einhverja snilldarhugmynd,“ segir Svava. „Við ætlumst ekki til þess að næsta Marel verði til upp úr Hacking Austurland heldur að fólk kynnist nýsköpunarferlinu þ.e. hvernig sköpunarkrafturinn er virkjaður. Það geta nefnilega allir fengið góðar hugmyndir en á lausnamóti kynnist fólk því hvernig hugmyndunum er framfylgt.

Þá er þetta auðvitað tækifæri til að kynnast fólki sem er mögulega í svipuðum hugleiðingum og þú. Þannig geturðu stækkað tengslanetið og fátt er mikilvægara efnilegum frumkvöðlum.

Er þetta sniðið að þátttakendum sem hafa bakgrunn í sjávarútvegi?

„Nei, alls ekki,“ segir Arnfríður. „Það er mikill styrkur fyrir lausnamót ef fólk með mismunandi þekkingu og reynslu tekur þátt.“

Endurgjöf sérfræðinga

Lausnamót verið mikil áskorun fyrir þátttakendur og eitt af því sem þeir þurfa að takast á við er að tala fyrir verkefninu sínu og svara spurningum dómnefndar. Í dómnefnd Hacking Austurland sitja Þór Sigfússon frá Sjávarklasanum, Margrét Ormslev frá Brunnur Ventures, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir hjá Íslenska ferðaklasanum, Guðný Káradóttir hjá Loftslagsráði og Sveinn Margeirsson sveitarstjóri í Skútustaðahreppi.

„Þetta er ekkert til að óttast,“ segir Arnfríður. „Þetta er áskorun en fyrst og fremst er mikill lærdómur fólgin í því að svara spurningum fólks sem þekkir vel til. Þau munu vera til ráðgjafar á sjálfu lausnamótinu og það er ómetanlegt í nýsköpunarferli að fá endurgjöf á hugmyndir sínar jafn óðum og þær fæðast.“

Dómnefnd mun velja besta verkefnið og verður tilkynnt um úrslit á Tæknidegi fjölskyldunnar sem fer fram í húsakynnum Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað laugardaginn 2. október.

Skráning og frekari upplýsingar um Hacking Austurland.

Viðburður á Facebook.

Hafðu samband

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Austurbrú


Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

861 2230 // [email protected]

Svava Björk Ólafsdóttir

Hacking Hekla


Svava Björk Ólafsdóttir

695 3918 // [email protected]