Haustfundur ferðaþjónustunnar

Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar veitt

Hvatningarverðlaunin voru endurvakin á haustfundi ferðaþjónustunnar til þess að hvetja ferðaþjóna á Austurlandi áfram til góðra verka.

Frumkvöðullinn

Viðurkenning þessi er veitt þeim aðilum sem sýna áræðni og hugmyndaauðgi við uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn og stuðla með verkum sínum að aukinni fjölbreytni í atvinnugreininni á Austurlandi. Með framtaki sínu og frumkvæði ryðja þeir brautina og eru öðrum sem vinna við ferðaþjónustu nauðsynleg hvatning til dáða.

Haustfundur ferðaþjónustunnar
Auður Vala ásamt starfsmönnum Austurbrúar, þeim Sigfinni Björnssyni og Maríu Hjálmarsdóttur. 

Blábjörg 

Auður Vala og Helgi á undanförnum árum byggt upp heilsárs ferðaþjónustufyrirtæki á Borgarfirði eystri. Þau hafa af miklum myndarbrag endurgert gamla frystihúsið í þorpinu og í vetur munu þau byggja nýja byggingu með hótelherbergjum og stærra og betra spa-i. Í sumar hófu þau framleiðslu á bjór, gini og landa eftir eigin uppskriftum í gamla kaupfélaginu. Húsið keyptu þau fyrir nokkrum árum en það hafði staðið autt og legið undir skemmdum um tíma. Húsið eru þau að endurbyggja í samstarfi við Minjavernd.

 

Kletturinn

Viðurkenning þessi er veitt þeim aðilum sem um árabil hafa staðið í framlínu ferðaþjónustu á Austurlandi og með ósérhlífni og eljusemi stuðlað að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar. Þeir eru bjargið sem ferðaþjónustan byggir á og eru öðrum fyrirmynd í að klífa örðuga hjalla til að ná handfestu á framtíðinni.

Haustfundur ferðaþjónustunnar
Ívar ásamt starfsmönnum Austurbrúar, þeim Sigfinni Björnssyni og Maríu Hjálmarsdóttur. 

Ívar Ingimarsson

Ívar hefur á undanförnum árum átt þátt í ýmsum frumkvöðlaverkefnum á sviði ferðaþjónustu á Austurlandi. Allt frá því að hann flutti austur ásamt fjölskyldu sinni hefur hann verið með puttana í og átt frumkvæði að hinum ýmsu verkefnum. Má þar m.a. nefna þjónustusamfélagið á Fljótsdalshéraði, þokusetrið í Fjarðabyggð og hreindýrinu sem vakir yfir tjaldsvæði Egilsstaða. Helst ber þó að nefna þátt hans í uppbyggingu gæðaafþreyingar ferðaþjónustu í Vök Baths sem er í dag einn vinsælasti áningastaður landshlutans. Við erum þakklát fyrir það óeigingjarna starf sem hann hefur unnið fyrir landshlutann á undanförnum árum og hlökkum til að sjá hvaða hugmynd hann kemur með næst.

Haustfundur þjónustunnar
Fundargestir á haustfundinum á Hallormsstað.