Ratsjáin 2021

Tengslanetið mikilvægast

Þetta var frábært tækifæri til að kynnast öðru fólki í landshlutanum sem er í svipuðum rekstri. Við gátum skipst á reynslu og upplýsingum og myndað tengsl. Mér þykir eiginlega vænst um það og ég held að heilmikið muni fæðast í framhaldinu“ – Auður Vala Gunnarsdóttir hjá Blábjörgum.  

Það voru verkefnastjórar Austurbrúar, þær María Hjálmarsdóttir og Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, sem leiddu verkefnið en þær hafa báðar mikla reynslu af þróunar- og samstarfsverkefnum hjá Austurbrú.  

Ratsjáin er hugsuð sem verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Umræðunni og verkefnavinnunni er stýrt þannig að þátttakendur taki á flestum þeim áskorunum sem fyrirtæki í þessum geira standa fram fyrir s.s. vöruþróun, markaðssetningu, ábyrgð og sjálfbærni, stafrænni þróun, breyttum veruleika í kjölfar heimsfaraldurs svo eitthvað sé nefnt.  

Ratsjáin var fyrst keyrð í samstarfi Ferðaklasans og Nýsköpunarmiðstöðvar árið 2016 en svo með stuðningi frá svonefndri Byggðaáætlun frá árinu 2019 sem lýsir stefnu ríksins í byggðamálumÍ dag er það Íslenski ferðaklasinn sem leiðir verkefnið í samstarfi við RATA og Samtök sveitarfélaga á landsbyggðinni.

„Verkefnið heppnaðist með eindæmum vel“

Átta fyrirtæki á Austurlandi tóku þátt. Þau voru Tanni Travel, Ferðaþjónustan Álfheimar, Óbyggðasetur Íslands, Blábjörg gistihús, Vök-Baths, Hildibrand Hótel, Skorrahestar og Ferðaþjónustan á Síreksstöðum.

„Verkefnið heppnaðist með eindæmum vel,“ segir Arnfríður Eide en skipulögð var ferð fyrir þátttakendur í þeim tilgangi að kalla fram hugmyndir sem síðar væri hægt að vinna með áfram. „Í ferðalaginu heimsóttum við ferðaþjónustufyrirtæki í landshlutanum en svo héldum við vinnustofu þar sem þátttakendur lýstu nýjum hugmyndum og hvernig hægt væri að þróa þær áfram t.d. í samstarfi við aðra ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Markmiðið var að fá einhverja afurð eftir ferðina sem ferðaþjónustan getur svo þróað áfram,“ segir hún.

Með í för voru síðan utanaðkomandi aðilar með mikla reynslu af ferðaþjónustu. Þetta voru þau Björg Árnadóttir frá Midgard Adventure, Rannveig Árnadóttir, eigandi og forstjóri Elding Adventure at Sea Reykjavik/Iceland og Torfi G. Yngvason framkvæmdastjóri Farvegs Investments. „Þau eru öll reynsluboltar sem gert hafa flotta hluti í ferðaþjónustunni og þau komu með ferska sýn á ýmislegt sem til umræðu var í hópnum okkar,“ segir Arnfríður.

Auður segist himinlifandi með Ratsjána og hinn austfirska vinkil. „Við skerptum fókusinn þannig að maður er meira vakandi fyrir því sem huga þarf að á næstunni,“ segir hún. „Við fengum að heyra mörg gagnleg erindi einkum um samfélagsmiðla og hina stafrænu ásýnd fyrirtækjanna okkar og maður er betur meðvitaður um veikleikana og hvar þarf að styrkja sig og bæta.“

Hefur hún haft áhrif á það hvernig þú skipuleggur þig?

„Já, sérstaklega þegar kemur að markaðssetningunni. Í tengslum við hana þarf að fara í naflaskoðun og skilja til hlítar hvað maður stendur í rauninni fyrir og hvert sé verið að stefna. Þetta skerpti á tilganginum og minnti mann á að á endanum snýst þetta um að hafa trú á því sem maður er að gera.“

Hvað stendur upp úr eftir svona verkefni?

„Þetta var frábært tækifæri til að kynnast öðru fólki í landshlutanum sem er í svipuðum rekstri. Við gátum skipst á reynslu og upplýsingum og myndað tengsl. Mér þykir eiginlega vænst um það og ég held að heilmikið muni fæðast í framhaldinu. Við ætlum að halda hópinn og gera eitthvað skemmtilegt í framtíðinni, koma á samstarfi sem snýr m.a. að markaðssetningu og stuðningi við hvert annað.“

Geturðu nefnt dæmi um mögulegt samstarf?

„Já, við erum t.d. að skoða það að útbúa skemmtilega og fjölbreytta ferðapakka um Austurland þar sem markmiðið er að halda gestum okkar innan svæðisins og hafa austfirska framleiðslu á boðstólum. Sem lítið dæmi get ég nefnt að þau á Síreksstöðum framleiða virkilega gott grafið ærkjöt sem ég ætla mér að hafa á matseðlinum hjá okkur. Þessi aukna þekking um hvað nærumhverfið hefur upp á að bjóða er mjög dýrmæt og hjálpar manni í rekstrinum og markaðssetningunni.“

Nánari upplýsingar