Signý Ormarsdóttir

864 4958 // [email protected]

Atvinnu- og byggðamál

Atvinnu- og byggðamál eru frekar stór hluti af starfsemi Austurbrúar og hefur svo verið lengi. Verkefnin á sviðinu eru ætluð til að efla landshlutann og byggja hann upp á sem fjölbreytilegastan hátt. Fastir samningar eru við Byggðastofnun, Ferðamálastofu, Íslandsstofu og sveitarfélög á Austurlandi sem er grunnur að þessari uppbyggingu. Auk þess er fjöldi samninga um tímabundin verkefni sem oft koma inn til Austurbrúar með litlum fyrirvara.

Síðustu ár hafa mörg verkefni verið unnin í samstafi við Austurbrú á sviði ferðaþjónustuuppbyggingar, Brothættra byggða og eflingar sveitarfélaga og svæða á Austurlandi. Þar má m.a. nefna Fagra framtíð í Fljótsdal sem lauk í lok árs 2022 og styttra verkefni sem unnið var að með Úthéraði. Nýtt verkefni frá Brotthættum byggðum, Sterkur Stöðvarfjörður, kom inn á Austurlandi á þessu ári en á sama tíma lauk verkefninu Betri Borgarfjörður. Austurbrú hefur einnig fengið fjármagn í gegnum sjóði til mismunandi verkefna og öflun gagna og gerð vefsvæðis fyrir verkefnið Óstaðbundin störf er eitt þeirra. Búast má við að þetta nýja vefsvæði verði til þess að enn fleiri velji að koma og vinna tímabundið á Austurlandi þegar sýnilegir eru þeir fjölbreytilegu möguleikum sem eru kynntir þar. Mjög mikilvægt er að stofnanir og sveitarfélög á Austurlandi sé dugleg að kynna þessa möguleika fyrir sem flestum. Þá kom fjármagn til Austurbrúar í gegnum Loftlagssjóð til þess efla kynningu á hringrásarhagkerfinu og hafa nú verið gerð fjögur myndbönd með mismunandi áherslum til þess að kynna hugmyndafræði hringrásarhagkerfis. Fyrsta myndbandið sem unnið var árið 2021 vakti talsverða athygli og hefur verið dreift víða og er mjög líklegt að eins verði með hin þrjú.

Eitt af stærri verkefnum ársins var undirbúningur að beinu flug til Egilsstaða frá Þýskalandi á vegum flugfélagsins Condor. Flugfélagið hafði auglýst flugið og opnað fyrir bókanir en ákvað að hætta við ferðir 2023 og voru það vonbrigði. Vinna við að koma á millilandaflugi um Egilsstaðaflugvöll heldur áfram og eru ýmis samtöl í gangi, m.a. við Condor. Annað stórt verkefi á árinu var fjárfestingavefurinn Invest in Austurland, sem unnið var í samstarfi við Ferðamálastofu og Íslandstofu. Um er að ræða verkefni sem miðar að því að auka fjárfestingu í ferðþjónustu á Austurlandi og sýna fram á öll þau tækifæri sem Austurland býður upp á.

Að uppbyggingu ferðaþjónustu vinna nokkrir af starfsmönnum Austurbrúar og er mikið um að vera allt árið. Austurbrú stýrir Áfangastaðastofu Austurlands sem tók við að Markaðstofu Austurlands og var byrjað að vinna að uppfærslu áfangastaðastofuáætlunar á árinu. Undir hatti Áfangastaðastofunnar er unnið að mörgum verkefnum og sem dæmi má nefna ferðasýningar þar sem Austurland er kynnt, móttöku blaðamanna í samstarfi við Íslandsstofu og heimsóknir áhrifavalda. Haldið er úti heimasíðum, Facebook- og Instagram-síðum sem allar eru virkar og mikið skoðaðar. Unnið er með hátíðum, söfnum og öllum þeim sem vinna að markaðsetningu á vöru eða þjónustu um allt Austurland í gegnum samstarfsaðildasamninga við Austurbrú. Árlega er haldinn haustfundur ferðaþjónustunnar þar sem ferðaþjónustu aðilar hittast og gera upp árið. Veittar voru viðurkenningarnar Kletturinn og Frumkvöðullinn. Þessar viðurkenningar fóru að þessu sinni til Ferðaþjónustunnar á Mjóeyri og HS ferðaþjónustunnar á Finnstöðum. Þá má geta þess að nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar á landsvísu fór til baðstaðarins Vök árið 2022.

Ekki er hægt að fara yfir öll verkefni sem unnin hafa verið en eins og fram hefur komið eru þau fjölmörg. Má þó nefna Matarauð Austurlands sem stóð m.a. fyrir Matarmóti nú annað haustið í röð og endurvakinn var matarklasi Austurlands, Krásir. Dagar myrkurs gekk að vanda vel og gengið var frá sameiginlegum myndabanka fyrir Austurbrú og samstarfsaðila. Myndabankinn er stórt skref á þeirri leið að auka gæði markaðsefnis og kynningar á Austurlandi. BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi var haldin í fimmta sinn í september og október 2022 um allt Austurland. Megináherslan á BRAS 2022 var sjálfsmynd ungs fólks og hvernig þau geta verið þau sjálf í samskiptum við aðra. Yfirskriftin var „Ég um mig frá mér til þín“ og tengist þemað 6. grein barnasáttmálans og 3. grein heimsmarkmiðanna.

Innan Austurbrúar eru nokkrir sjóðir umsýslaðir og starfsmenn veita aðstoð við umsóknavinnu og halda m.a. vinnustofur í aðdraganda umsóknarfrest Uppbyggingarsjóðs Austurlands.

Mannabreytingar urðu á þessu ári. María Hjálmarsdóttir lét af störfum eftir átta ára starf. Páll Baldursson og Valborg Ösp Árnadóttir Warén eru nýir starfsmenn í atvinnu- og byggðaþróun.

Spennandi verður að vinna áfram að uppbyggingu atvinnu- og byggðaþróunar á komandi árum, ekki hvað síst fyrir það stóra skref sem unnið var á árinu að klára vinnu við Svæðisskipulag Austurlands og verður gaman að vinna með skipulagið sem yfirstefnu okkar í málefnum landshlutans.