Nú stendur yfir, á Íslandi öllu, verkefni á vegum Samtaka smáframleiðenda matvæla (SSFM), markaðsstofa landshlutasamtakanna og Rata, sem er ráðgjafafyrirtæki sem leggur sérstaka áherslu á að vinna með frumkvöðlum.
Verkefnið sem um ræðir kallast Matsjáin og sóttu ofangreindir aðilar saman um styrk í Matvælasjóð á síðasta ári. Styrkur fékkst til að vinna verkefni sem ætlað er smáframleiðeindum matvæla sem vilja efla leiðtogafærni sína, öðlast aukna getu til að þróa vörur og þjónustu og efla tengslanetið sitt í greininni. Matsjáin fer fram á netinu, í gegnum Zoom.
Auglýst var eftir þátttakendum um allt land og sóttu um 80 aðilar um. Þar af eru sjö smáframleiðendur á Austurlandi en þeir eru: Blábjörg, Breiðdalsbiti, Geitagott, Holt og Heiðar, Lefever Sauce Co., Lindarbrekka og Nielsen Restaurant. Verkefnið er unnið í 7 lotum yfir 14 vikna tímabil og samanstendur af fræðslufundum aðra hvora viku og heimafundi aðra hvora viku. Unnið er út frá jafningjaráðgjöf, fræðslu, erindum, verkefnavinnu og ráðgjöf. Matsjáin er nú u.þ.b. hálfnuð og eru það mat þátttakenda og þeirra sem stýra verkefninu að það sé einstaklega vel heppnað og hafi fram til þessa nýst þátttakendum mjög vel. Þeir þættir sem unnið er með eru eftirtaldir:
Matsjáin snertir á helstu áskorunum sem smáframleiðendur matvæla standa frammi fyrir í dag og meðal ávinninga af þátttöku má nefna að þeir efla fókus í starfsemi og framleiðsluferli, þeir öðlast ný verkfæri og þekkingu, auka leiðtogafærni sína, koma auga á ný viðskiptatækifæri og auka tengslanet og samstarf.
Verkefnastjórarnir Ásdís Helga Bjarnadóttir og Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir stýra verkefninu f.h. Austurbrúar og eru þær sammála um að mikil ánægja sé með Matsjána hjá austfirsku þátttakendunum, traust hafi myndast meðal þeirra, samstarf er að myndast og góð samstaða innan hópsins. Ljóst er að þessar tengingar munu nýtast til framtíðar.
Gert er ráð fyrir því að Matsjánni ljúki í byrjun apríl með sameiginlegri vinnustofu þar sem þátttakendur hittast í raunheimum, en síðan verður blásið til matarmóts og uppskeruhátíðar, auk þess sem þátttakendur fá að kynnast því matarhéraði sem verður fyrir valinu.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn