Hellisheiði eystri. Vopnafjörður, samgöngur, vegur, náttúra, landslag. Ljósmynd: Jessica Auer.

Almennings- samgöngur: Vopnafjörður

Helstu niðurstöður verkefnisins Farveitur – Almenningssamgöngur til og frá Vopnafirði gefa til kynna að þörf sé á ýmsum breytingum.

 

Lagaumhverfi

Þegar sótt var um styrk fyrir verkefninu lá fyrir frumvarp sem ætlað var að breyta lögum til leigubílaaksturs. Í því var lögð fyrir heildarendurskoðun á lagaumhverfi leigubifreiða sem sett voru árið 2001 og felur í sér nýja heildarlöggjöf um leigubifreiðaakstur hér á landi. Lagt er til að fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa verða afnumdar og getur því hver sá sem uppfyllir skilyrði laga fengið útgefið leyfi. Í frumvarpinu eru lögð til tvenns konar leyfi til að stunda leigubifreiðarakstur; rekstrarleyfi, sem veitir leyfishafa rétt til að aka og reka leigubifreið og atvinnuleyfi, sem veitir leyfishafa rétt til að aka leigubifreið sem er í eigu rekstrarleyfishafa. Frumvarpið hefur enn ekki orðið að lögum en samgönguráðherra hefur gert á því ákveðnar breytingar og liggur það fyrir þinginu.

Samgöngur við Vopnafjörð

Frá Vopnafirði liggur vegur nr. 85 í tvær áttir; til Þórshafnar og áfram norður, þar sem hann tengist við hringveg nr.1 á vegamótum nálægt Dettifossi. Vegalengdin frá Vopnafirði til Akureyrar um þessa leið eru 300 km. Vegur nr. 85 liggur svo einnig um Vopnafjarðarheiði, að hringvegi nr. 1 á vegamótum á Háreksstaðarleið. Sá afleggjari er um 50 km langur. Heildarvegalengd frá Vopnafirði til Egilsstaða er 153 km. Áætlunarleið strætó nr. 56 sem keyrir milli Egilsstaða og Akureyrar stoppar við Vopnafjarðar vegamót fjóra daga í viku, tvisvar yfir daginn, með þriggja klukkutíma millibili. Norland Air flýgur fimm sinnum í viku til og frá Vopnafirði, flogið er til Akureyrar og um Þórshöfn. Vopnafjarðarflugvöllur liggur rétt fyrir utan þéttbýlis Vopnafjarðar.

 

Könnun

Könnunin var opin frá nóvember 2021 til janúar 2022 og var beint til íbúa Vopnafjarðar sem árið 2021 voru 653 talsins. Þeim hefur fækkað nokkuð undanfarna tvo áratugi og meðalaldur hækkað. Svarendur voru 110 og dreifðust nokkuð vel yfir aldurshópa og kyn. Spurt var um viðhorf til almenningssamganga og þjónustusókn. Að auki fundaði rýnihópur þar sem niðurstöður spurningakönnunar voru ræddar og þátttakendur beðnir að svara þeirri spurningu hvernig þeir myndu útfæra almenningssamgöngur til og frá Vopnafirði.

Niðurstöður

Vopnfirðingar nota almennt ekki strætisvagn til ferðalaga þar sem ferðirnar henta illa og fara þarf 50 km að stoppistöð. Flestir hafa notað flug undanfarna 12 mánuði en yfir helmingur nýtir sér flug frá Egilsstöðum eða Akureyri, frekar en flug frá Vopnafirði. Áhugi Vopnfirðinga á öðrum möguleikum almenningssamgangna, s.s. farveitum eða deilibílum, er bundinn við ákveðna hópa en konur og yngra fólk er opið fyrir því að skoða deilibíl sem möguleika. Fram kom að skoða þurfi frá grunni almenningssamgöngur til og frá Vopnafirði og mikilvægt er að það sé gert samhliða öðrum flutningi inn og út af svæðinu þannig að hægt sé að samnýta flutning á farmi og fólki. Einn möguleiki í því samhengi er flugrúta sem fer í Egilsstaði og/eða til Akureyrar. Mikilvægt er að farið verði í slíkt verkefni með þróun og þolimæði að leiðarljósi og tvö ár nefnd sem lágmarkstími til að fólk bæði venjist því að hafa aðgang að reglulegum almenningssamgöngum og hægt verði að skoða þörfin allar árstíðir.

Skoða niðurstöður

Hugtök

Almenningssamgöngur er hver sá ferðamáti sem ætlaður er almenningi en ekki til einkanota og þjónusta sem almenningur borgar fargjald fyrir að nota. Dæmi um slíkt eru áætlunarbifreiðar og lestarþjónustur, flugvélar, ferjur og leigubílar. Almenningsamgöngur fylgja yfirleitt tímaáætlun og fara fastar leiðir.

Farveitur er fyrirtæki sem tengir saman farþega og faratæki með vefsíðu eða smáforriti, svipað Uber og/eða Lyft.

Deilibíll er bíll sem hægt er að deila með öðrum, bíll sem er ekki í einkaeigu einstaklinga eða fyrirtækis, svokallaður samfélagsbíll.

Verkefnisstjórn


Gabríel Arnarsson

857 0804 // [email protected]